Fimm af sjö bestu í sögunni hlaupa í London

Lundúnamaraþonið verður hlaupið í 35. sinn á morgun. Sterkustu kvenhlaupararnir eru ræstir kl. 8:20 á íslenskum tíma en karlahlaupið fer af stað kl. 9:10. Að þessu sinni er er keppendalistinn í karlaflokki ótrúlega sterkur og það er alveg óhætt að fullyrða að þetta sé sá sterkasti sem settur hefur verið saman.

Dennis Kimetto á bestan tíma keppenda, heimsmetið 2:02:57 sem hann setti í Berlínarmaraþoninu í fyrra. Emmanuel Mutai á næst besta tíma sögunnar 2:03:13 úr sama hlaupi. Wilson Kipsang á brautarmetið í London (2:03:29) sem hann setti í fyrra, en hann á jafnframt þriðja besta tíma maraþonsögunnar og gamla heimsmetið 2:03:23 (frá Berlín 2013). Þetta eru sem sagt þeir sem eiga þrjá bestu tímana í sögunni. Næstu tveir á heimslistanum, Patrick Makau og Haile Gebrselassie, hlaupa ekki á morgun, en þeir sem eiga 6. og 7. bestu tíma sögunnar hlaupa á morgun. Það eru þeir Eliud Kipchoge (2:04:05) og Geoffrey Mutai (2:04:15). Mutai á reyndar næst besta maraþontíma sögunnar frá Boston maraþoninu 2011 – 2:03:02.

Dennis Kimetto KEN 02:02:57
Emmanuel Mutai KEN 02:03:13
Wilson Kipsang KEN 02:03:23
Eliud Kipchoge KEN 02:04:05
Geoffrey Mutai KEN 02:04:15
Sammy Kitwara KEN 02:04:28
Tsegaye Mekonnen ETH 02:04:32
Stanley Biwott KEN 02:04:55
Tilahun Regassa ETH 02:05:27

Mary Keitany á bestan tíma þátttakenda í kvennaflokki 2:18:37 frá Londonmaraþoninu 2012, Aselefech Mergia á þann næstbesta 2:19:31, Florence Kiplagat á 2:19:31 best, en hún á jafnframt heimsmetið í hálfmaraþoni. Edna Kiplagat, tvöfaldur heimsmeistari í maraþoni og Priscah Jeptoo, silfurverðlaunahafi frá ÓL í London 2012, verða einnig meðal keppenda í maraþoni kvenna á morgun.

Mary Keitany KEN 02:18:37
Aselefech Mergia ETH 02:19:31
Florence Kiplagat KEN 02:19:44
Edna Kiplagat KEN 02:19:50
Priscah Jeptoo KEN 02:20:14
Tirfi Tsegaye ETH 02:20:18
Jemima Sumgong KEN 02:20:48

Sýnt er frá hlaupinu á BBC stöðvunum: BBC Two (kl. 7:20-9:00) og BBC One (9:00-13:30 að ísl. tíma).

Leave a Reply