Ingi Rúnar Íslandsmeistari þriðja árið í röð – Samantekt á MÍ í þraut

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram um síðastliðna helgi á Laugardalsvellinum. Veðrið var ekki eins og best verður á kosið og vindurinn í hlaupunum óhagstæður en það kom þó ekki í veg fyrir spennandi keppni.

María Rún hætti keppni eftir tvær greinar

Aðeins einn keppandi, María Rún Gunnlaugsdóttir, hóf keppni í sjöþraut í kvennaflokki en hún kláraði ekki nema tvær greinar og hætti svo keppni. Enginn Íslandsmeistari var því krýndur í sjöþraut kvenna árið 2018. Í flokki 16-17 ára stúlkna kláruðu tvær stelpur greinarnar sjö og stóð Katla Rut Robertsdóttir Kluvers úr Breiðabliki uppi sem sigurvegari en hún hlaut 3998 stig og sigraði með talsverðum yfirburðum. Í öðru sæti var Marta María Bozovic Siljudóttir úr Þór en hún hlaut 2920 stig. Katla Rut var aðeins 34 stigum frá sínu persónulega meti sem verður að teljast nokkuð gott þar sem veðrið lék keppendur grátt, sérstaklega á fyrri degi mótsins.

Katla
Katla Rut Robertsdottir Kluvers

Með 16-17 ára stúlkunum keppti Glódís Edda Þuríðardóttir Hjaltadóttir úr KFA og hlaut 4166 stig. Með réttu hefði hún átt að keppa í fimmtarþraut fyrir 15 ára og yngri og var því ekki krýnd Íslandsmeistari í 16-17 ára flokki.

Ísak Óli efstur eftir fyrri dag

Keppnin var öllu meira spennandi í tugþrautinni en þar hófu sjö keppni í karlaflokki, einn í 18-19 ára flokki og þrír í 16-17 ára flokki. Fyrirfram mátti búast við harðri keppni um fyrsta sætið milli Skagfirðingsins Ísaks Óla Traustasonar og blikans Inga Rúnars Kristinssonar en keppnin um bronsið var heldur opnari.

Tímarnir í 100 metra hlaupinu voru ekki til þess að hrópa húrra fyrir en röðin var nokkurn vegin eftir bókinni. Ísak Óli kom fyrstur í mark á 11,28 sekúndum (-0,2 m/s) sem er hans besti tími á árinu og þar á eftir Gunnar Eyjólfsson úr UFA og Ingi Rúnar. Í langstökkinu jók Ísak forystu sína með stökki upp á 6,80 metra en Ingi Rúnar náði sér ekki á strik, stökk aðeins 6,46 metra og hafnaði í fjórða sæti.

Í kúluvarpinu, sem er ásamt öðrum kastgreinum ein af lakari greinum Ísaks Óla, saxaði Ingi Rúnar töluvert á forystuna og voru aðeins 10 stig sem skildu þá að eftir þrjár greinar. Í hástökkinu voru þeir báðir nokkuð frá því sem búast hefði mátt við af þeim en þeir stukku báðir yfir 1,75 metra. Hástökkið sigraði Benjamín Jóhann Johnsen úr ÍR með stökki yfir 1,96 metra sem jafnvel á alþjóðamælikvarða verður að teljast mjög gott í tugþraut en hann á hæst 1,99 frá því á Norðurlandamóti tveimur vikum fyrr. Benjamín átti eftir að láta finna frekar fyrir sér á seinni degi keppninnar.

Benni (2)
Benjamín sigraði bæði hástökkið og spjótkastið

Síðasta grein dagsins var 400 metra hlaup. Ísak Óli kom í mark á nýju persónulegu meti, 51,35 sekúndum en Ingi Rúnar, sem glímt hafði við veikindi á undirbúningstímabilinu, var langt frá sínu besta og lauk Ísak því deginum með 84 stiga forystu. Gunnar Eyjólfsson, sem sigraði 400 metra hlaupið á 50,83 sekúndum hafði komið sér þægilega fyrir í þriðja sætinu, aðeins einu stigi á eftir Inga Rúnari en það átti ekki eftir að vara lengi.

Hörð barátta um bronsið á seinni degi

Seinni dagurinn hófst á 110 metra grindahlaupi í miklum mótvindi. Ísak hljóp hraðast yfir grindurnar og jók forystuna upp í 228 stig en grindahlaupið er lakasta grein Inga Rúnars og var því við þessu að búast. Gunnari urðu á mistök og gat ekki klárað hlaupið og voru draumar hans um verðlaun á mótinu því úr sögunni. Upp í þriðja sætið komst þá Andri Fannar Gíslason úr KFA og í því fjórða sat Benjamín.

Næstu tvær greinar, kringlukast og stangarstökk, vann Ingi Rúnar og var þar með kominn í forystuna. Spjótinu kastaði hann einnig vel og virtist fátt geta komið í veg fyrir að hann verði titilinn, annað árið í röð. Spjótkast er ein sterkasta grein Benjamíns og sigraði hann þar sína aðra grein en Andri náði sér ekki á strik og skiptu þeir Andri og Benjamín um sæti.

Ingi R
Ingi Rúnar tryggði sigurinn með góðu spjótkasti

Þegar síðasta grein hófst var Ingi Rúnar með 227 stiga forystu á Ísak og Benjamín með 63 stiga forskot á Andra Fannar í baráttunni um þriðja sætið. Til að vinna upp forskotið yrði Ísak að vera um hálfri mínútu á undan Inga Rúnari í 1500 metra hlaupinu en það tókst ekki þrátt fyrir að Ingi hafi hlaupið langt frá sínum besta árangri. Andri Fannar kláraði ekki hlaupið og var Benjamín  því öruggur með bronsverðlaunin.

Þegar öll stigin höfðu voru talin var Ingi Rúnar krýndur Íslandsmeistari þriðja árið í röð með 6677 stig. Ísak kláraði þrautina með 6464 stig og Benjamín með 6353 stig.

Isak
1500 metra hlaupið getur tekið á

Í 18-19 ára flokki sigraði Reynir Zöega úr Breiðabliki með 4887 stig og í 16-17 ára flokki sigraði Ragúel Pino úr UFA Alexanderson á nýju persónunlegu meti, 5834 stig. Í öðru sæti var Selfyssingurinn Dagur Fannar Einarsson sem vakti athygli með mjög góðu 1500 metra hlaupi og í þriðja sæti hafnaði Úlfur Árnason úr ÍR.

Hopurinn

Fleiri myndir má finna hér.

One comment

Leave a Reply