Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Stútfullur völlur af Ólympíu- og heimsmeisturum – Upphitun fyrir demantamót í París

Sjöunda mótið af fjórtán í demantamótaröð IAAF fer fram í París næstkomandi laugardag, 30. júní. Eins og vanalega mætir margt af besta frjálsíþróttafólki heims til leiks í 15 greinum sem telja til stiga í mótaröðinni. Þar fyrir utan verður keppt í nokkrum aukagreinum, þar á meðal þríþraut karla. Mótið hefst klukkan 16:40 á kringlukasti kvenna en beina útsendingu frá mótinu má nálgast neðst í þessari frétt. Útsendingin hefst klukkan 18:00 þann 30. júní.

Fyrsta keppni Yulimar Rojas á árinu

Í þrístökki kvenna má búast við nokkuð skemmtilegri keppni þar sem Yulimar Rojas, ríkjandi heimsmeistari bæði innanhúss og utan, keppir á sínu fyrsta móti á árinu. Þar mun hún etja kappi við núverandi Ólympíumeistara Caterine Ibarguen og fyrrverandi Ólympíumeistara Olgu Rypakova en þessar þrjár hafa undanfarin ár borið höfuð og herðar yfir aðra þrístökkvara þó Rypakova hafi ekki náð sér á strik á tímabilinu. Röðuðu þær sér til að mynda í efstu þrjú sætin á síðustu Ólympíuleikum. Til keppni munu einnig mæta Kimberley Williams frá Jamaica og Bandaríkjakonan Tori Franklin en hún á lengsta stökk ársins, 14,84 metra. Hún hefur bætt sig um rúma 80 cm á árinu og um 51 cm árið þar á undan. Kimberley Williams á fjórða lengsta stökk ársins á eftir Franklin og tveimur stökkum Ibarguen.

3000 metra hindrunarhlaup kvenna er ávallt spennandi grein en til Parísar munu mæta fjórar konur sem eiga tíma á árinu undir 9:10 mínútum og erfitt að segja með vissu hver mun sigra. Þó verður Hyvin Kiyeng frá Keníu að teljast líklegust en hún hefur unnið bæði hindrunarhlaupin á demantamótum í sumar og á besta tímann í heiminum í ár. Hún á þó ekki besta persónulega metið heldur landa hennar Celliphine Chepteek Chespol sem á þriðja besta tíma sögunnar, 8:58,78 mínútur, 1,23 sekúndum hraðar en besti tími Kiyeng. Aðeins Ruth Jebet frá Bahrein á betri tíma en í mars á þessu ári braust út sá orðrómur að hún hefði fallið á lyfjaprófi. Lítið hefur heyrst af því máli síðan þá en heimsmet hennar frá 2016 stendur enn sem komið er.

Hyvin Kiyeng verður í eldlínunni í París

Aðrar greinar kvenna í París eru hástökk, 200, 400 og 800 metra hlaup.

Hvað gerir Lavillenie í sterkri keppni á heimavelli?

Stangarstökkskeppnin í París er, a.m.k. á pappírunum, líklega sú sterkasta sem af er sumri en níu af þeim tólf sem skráðir eru til leiks kepptu til úrslita á heimsmeistaramótinu í London síðasta sumar. Allir þrír verðlaunahafarnir frá London; Sam Kendricks frá Bandaríkjunum, Pólverjinn Piotr Lisek og Frakkinn og heimsmethafinn Renaud Lavillenie eru skráðir til leiks. Lavillenie, sem verður vel studdur af samlöndum sínum í stúkunni, á hæsta stökk ársins, 5,95 metra, frá því í apríl og alls óvíst hvort hann sé í sama formi nú og hann var þá. Hann hefur stokkið yfir 5,91  nokkuð nýlega en fáir íþróttamenn eru jafn óútreiknanlegir og Lavillenie. Keppnin mun líklegast standa á milli hans og Kendricks, ríkjandi heimsmeistara en gaman verður að sjá hvort Svíinn og undrabarnið Armand Duplantis blandi sér í baráttuna. Hann hefur hæst stokkið 5,93 metra þrátt fyrir að vera aðeins á nítjánda ári. Einnig verður fróðlegt að fylgjast með frumraun Thiago Braz á árinu. Braz stóð uppi sem sigurvegari á heimavelli á Ólympíuleikunum 2016 á mjög eftirminnilegan hátt eftir mikla keppni við Lavillenie en náði sér hins vegar ekki á strik í fyrra, stökk hæst 5,60 metra.

Þó að Usain Bolt sé hættur að keppa og lítið sjáist til þeirra sem áttu að vera arftakar hans, svosem Andre De Grasse, Trayvon Bromell og Christian Coleman þýðir það ekki að 100 metra hlaup séu ekki lengur spennandi. Michael Rodgers og Ronnie Baker sem hlupu á tímunum 9,89 og 9,90 sekúndum á bandaríska meistaramótinu um síðastliðna helgi munu í París keppa við Bingtian Su sem nýverið hljóp á 9,91 sekúndu og endurheimti þar með kínverska metið sitt aðeins fáeinum dögum eftir að það hafði verið tekið af honum. Þá er Evrópumethafinn Jimmy Vicaut einnig skráður til leiks en í síðustu viku hljóp hann á sínum besta tíma á árinu, 9,92 sekúndum. Það stefnir því allt í mjög spennandi hlaup.

Su (t.v.) beið ekki lengi með að endurheimta kínverska metið eftir að Xie hafði tekið það af honum. Met Su var 9,99 sekúndur en Xie hljóp á 9,97 nokkrum dögum áður en Su hljóp á 9,91 sekúndum og endurheimti metið

Aðrar greinar karla í París eru 110 metra grindahlaup, 400 metra grindahlaup, kringlukast og 1500 metra hlaup.

Tímaseðil, keppendalista og úrslit má sjá hér.

Bein útsending:

Exit mobile version