Skammstafanir á borð við WL, MR. DLR, AR, NR og PB hafa sjaldan verið jafn áberandi í úrslitatöflum demantamóts eins og í París um síðastliðna helgi. Alls voru sjö íþróttamenn sem náðu eða jöfnuðu besta árangurinn í heiminum á árinu, fjögur mótsmet voru sett, tvö demantamótsmet, fjögur landsmet og tvö álfumet auk fjölda persónulegra bætinga.
Heimsmetið í 400 m grindahlaupi í hættu
400 metra grindahlaup hefur verið einstaklega áhugaverð grein undanfarin ár, að minnsta kosti að mati höfundar. Eftirminnilegt er þegar Nicholas Bett frá Keníu kom öllum að óvörum og varð heimsmeistari í Peking fyrir þremur árum síðan. Gamla kempan Kerron Clement, sem varð m.a. heimsmeistari 2007 og 2009 og tók bronsverðlaun 2015, hirti svo Ólympíugullið í Rio 2016 þegar Bett var hvergi sjáanlegur (og hefur ekki verið síðan 2015). Norðmaðurinn Karsten Warholm, sem ekki komst í úrslit á ÓL, varð svo aðalnafnið árið 2017. Eftir að hafa vakið athygli með tveimur sigrum á demantamótum í Osló og Stokkhólmi stóð hann uppi sem sigurvegari á heimsmeistaramótinu í London á tímanum 48,35 sekúndur en landsmet hans á þessum tíma var 48,25. Í sjöunda sæti hafnaði þar maður að nafni Abderrahman Samba frá Quatar. Hann var í öðru sæti allt fram að síðustu grind þegar hann hrasaði með fyrrnefndum afleiðingum. Hefði hann ekki hrasað gæti hann mögulega hafa náð Warholm því Warholm var orðinn stífur á lokasprettinum en Samba virtist eiga meira á tankinum og saxaði hratt á forskotið þar til hann hrasaði.

Í ár hefur fyrrnefndur Samba hins vegar verið óstöðvandi, skilið Warholm eftir langt fyrir aftan sig og unnið hvert demantamótið á fætur öðru. Í Doha hljóp hann á nýju landsmeti, 47,57 sekúndum og í Róm bætti hann sig aftur nema nú setti hann nýtt Asíumet þegar hann hljóp á 47,48. Í sama hlaupi stórbætti Warholm sig með tímanum 47,82. Þegar þarna var komið við sögu benti allt til þess að Samba væri besti 400 metra grindahlaupari sem komið hefði fram á sjónarsviðið í mörg ár, eða allt frá því að Bershawn Jackson, önnur gömul kempa, hljóp á 47,32 árið 2010.
Samba keppti næst viku síðar í Osló en í millitíðinni var bandaríska háskólameistaramótið haldið í Eugene, Oregon og var þá komið að Rai Benjamin frá Antígva og Barbúda, 100.000 íbúa eyríki í Karíbahafi, að láta ljós sitt skína. Og það varð ljós. Persónulegt met, landsmet og bandarískt háskólamet. Tíminn sem klukkan sýndi þegar Benjamin kom í mark var 47,03 en var svo leiðréttur niður í 47,02 sekúndur, staðfestur tími. Allt í einu var kominn nýr stórlax á hlaupabrautinna en fyrir þetta hlaup átti hann aðeins 47,98 sekúndur og því um tæplega sekúndu bætingu að ræða.
En Abderrahman Samba var ekki hættur. Eftir að hafa sigrað í Osló bætti hann Asíumetið aftur í Stokkhólmi, hljóp þar á 47,41 en Warholm á nýju landsmeti, 47,81.
Eftir rúmlega tveggja vikna hlé á demantamótaröðinni var komið að Meeting de Paris eins og nafn mótsins útleggst á tungumáli heimamanna. 400 metra grindahlaup karla var meðal fyrstu greina mótsins og riðillinn stútfullur af góðum hlaupurum, bæði ungum sem öldnum. Samba og Warholm voru að sjálfsögðu mættir til leiks en einnig fyrrnefndu kempurnar Kerron Clement og Bershawn Jackson (Batman) sem hafa verið að hlaupa síðan höfundur (sem er reyndar bara 22 ára) man eftir því að hafa byrjað að horfa á gömlu Gullmótaröðina, forvera Demantamótaraðarinnar. Báðir eiga þeir persónuleg met undir 47,40 sekúndum frá 2005. En það var fyrir 13 árum, núna er árið 2018.
Hlaupið í París fór hratt af stað. Kyron McMaster frá Bresku Jómfrúareyjum var fyrstur yfir fjórar fyrstu grindurnar en fyrir mótið í París átti hann best 47,80 sekúndur en hafði hraðast hlaupið á 48,25 það sem af var tímabilinu. McMaster og Samba héldust svo nánast í hendur yfir næstu fimm grindur á meðan Warholm var skrefi á eftir þeim. Warholm felldi níundu grindina og dróst aftur úr en á sama tíma gaf Samba í og stakk McMaster af. Enginn átti í miklum vandræðum með tíundu og síðustu grindina og kom Samba í mark á næsthraðasta tíma sögunnar, 46,98 sekúndum. Aðeins heimsmet Kevin Young frá 1992, 46,78 er betri árangur en árangur Samba í París. Heimsmetið er því í mikilli hættu haldi hann áfram að bæta sig á næstu mótum. Í öðru sæti var McMaster á 47,54 sekúndum og Warholm hélt þriðja sætinu. Þrjú demantamót eru eftir þar sem keppt verður í 400 metra grindahlaupi karla, það næsta eftir aðeins þrjá daga og verður spennandi að sjá hvort heimsmet verði slegið á einhverju þeirra. Það er á stundu sem þessari sem frjálsíþróttaáhugafólk blótar því að fjórða hvert ár sé hvorki heimsmeistaramót né Ólympíuleikar.
Önnur úrslit frá mótinu í París má sjá hér.
In other news…
Fjöldi annarra móta fór fram um helgina. Gautaborgarleikarnir eru ávallt vinsælir meðal íslenskra keppenda og var nokkuð um góð afrek.
Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR hafnaði í 5. sæti í 400 metra grindahlaupi og bætti sinn besta árangur þegar hann hljóp á 52,09 sekúndum og styttist því í að 52 sekúndna múrinn brotni hjá honum. Þá keppti hann í 200 metra hlaupi og hljóp á 21,74 sekúndum sem er einnig góð bæting.
Bjartmar Örnuson úr KFA stórbætti sitt persónulega met í 5000 metra hlaupi, hljóp á 15:37,15 en fyrra met hans var 16:19,99. Bjartmar keppti líka í 1500 metra hlaupi og bætti sig þar einnig og fór í fyrsta skipti undir 4 mínútur, hljóp á 3:57,01.
Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS hafnaði í fjórða sæti í 100 metra hlaupi á tímanum 10,65 sekúndum sem væri hans besti árangur ef ekki hefði verið fyrir örlítið of mikinn meðvind en hann var +2,1 m/s. Hann keppti einnig í 400 m og 200 m hlaupum en hann hljóp 200 metrana á 21,57 sem er ekki langt frá hans besta. Jóhann virðist því vera að komast í þrusugott form eftir strembin meiðsli síðustu ár.
Guðni Valur Guðnason úr ÍR sigraði kringlukastið með kasti upp á 59,49 metra sem er nokkuð frá EM lágmarkinu.
Selfyssingurinn Thelma Björk Einarsdóttir kappti í bæði kúluvarpi, sleggjukasti og kringlukasti og var nokkuð nálægt sínu besta í öllum greinum, kastaði kúlunni 12,12 metra, sleggjunni 41,93 metra og kringlunni 37,93 metra sem er hennar annað besta kast frá upphafi.
Thelma Lind Kristjánsdóttir úr ÍR kastaði einnig kringlunni og sigraði keppnina með kasti upp á 50,40 metra.
Melkorka Rán Hafliðadóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH kepptu í 200 metra hlaupi. Melkorka setti nýtt persónulegt met en María var talsvert frá sínu besta. Þá keppti María í 100 metra grindahlaupi og komst í úrslit og hafnaði í 9. sæti á tímanum 14,65 sekúndum.
Nánari úrslit frá Gautaborgarleikunum má sjá hér.
Tveir spjótkastarar frá Íslandi, Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) og Sindri Hrafn Guðmundsson (Breiðablik) kepptu á sterku spjótkastsmóti í Þýskalandi eins og aðrir miðlar hafa greint frá.
Þá keppti Ásdís Hjálmsdóttir í fyrsta skipti á tímabilinu þegar hún kastaði spjótinu 59,13 metra. Hún hefur verið að glíma við bakmeiðsli undanfarið en segist ekki hafa fundið fyrir neinum verkjum í keppninni og gefur það góð fyrirheit um framhaldið.
