Guðbjörg Jóna með góðan möguleika á verðlaunum á EM u18

Nokkrir Íslendingar eru skráðir til leiks á alþjóðlegum mótum í vikunni og um næstu helgi. Ásdís Hjálmsdóttir er skráð til leiks á Joensuu Games í Finnlandi á morgun, 4. júlí. Eins og nefnt var í frétt sem var skrifuð í gær keppti Ásdís nýverið í fyrsta skipti á árinu og kastaði spjótinu 59,13 metra sem er næst besti árángurinn á árinu af þeim sem eru skráðar á mótið á morgun. Verðlaunaféð fyrir fyrsta sætið í spjótkastinu er 500 evrur og lækkar svo um 100 evrur fyrir hvert sæti fyrir neðan og er því til mikils að vinna. Verðlaunin gætu jafnvel verið nóg fyrir flug og gistingu. 

Á mótið eru skráðir nokkrir íþróttamenn sem hafa verið áberandi á stærstu mótunum. Lavern Spencer mætir til að mynda í hástökk kvenna og Jakub Vadlejch í spjótkastið en hann vantar ekki nema 27 cm í 90 metra klúbbinn. 

EM u18 í Győr um helgina

Evrópumeistaramót 18 ára og yngri fer fram í Győr í Ungverjalandi frá 5. til 8. júlí. Ísland á þar fimm keppendur í sex greinum. 

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR er líklegust til afreka á mótinu en hún mun keppa í undanrásum í 100 metra hlaupi um hádegisleytið að staðartíma á fimmtudaginn. Hún er skráð með 7. besta tímann á árinu og því alls ekki útilokað að hún komist í úrslitahlaupið. Guðbjörg Jóna hefur hlaupið á 11,68 sekúndum í sumar en með besta tímann er skráð Jennifer Akiniymika frá Rússlandi. Hún hefur hraðast hlaupið á 11,44.

Guðbjörg keppir einnig í 200 metra hlaupi en þar á hún besta tímann í Evrópu á árinu og því ekki ólíkleg til afreka. Besti tíminn hennar er 23,61 sekúnda en þrjár aðrar stelpur eru skráðar með tíma undir 23,70.

Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki keppir í undankeppni í langstökki á fimmtudagskvöldið. Hún hefur lengst stokkið 5,87 metra sem setur hana í þriðja sæti á afrekaskrá Íslands árið 2018. Aðeins Irma Gunnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir hafa stokkið lengra. Það verður gaman að sjá hvort hún nái að brjóta 6 metra múrinn í Győr og um leið setja nýtt Blikamet en metið á Irma 5,92 metra. 

gudbjorg+birna
Birna Kristín og Guðbjörg Jóna á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í fyrra

Í kúluvarpi keppir Helga Margrét Haraldsdóttir úr ÍR en undankeppnin hefst á föstudagsmorguninn. Hún á best 14,35 metra frá því í vetur en 13,75 utanhúss í sumar. 

Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR keppir í sleggjukasti á fimmtudagsmorguninn. Hún á 13. besta árangurinn í Evrópu í ár með kast upp á 64,39 metra, rúmum metra á eftir þeirri sem á 8. besta kastið og því alls ekki útilokað að hún komist í átta kvenna úrslit. Hún á Íslandsmetið í 16-17 ára flokki en hennar besta kast með fjögurra kílóa sleggjunni er það annað besta í afrekaskrá FRÍ frá upphafi.

elisabet.jpg
Elísabet Rut Rúnarsdóttir

Að lokum keppir FH-ingurinn Valdimar Erlendsson í kringlukasti á fimmtudagskvöldið. Hans besti árangur, 54,54 metrar, er frá því í fyrra en í ár hefur hann kastað lengst 51,66. 

Leave a Reply