Er Španović komin í form? – Upphitun fyrir demantamót í Lausanne

Áttunda mótið í demantamótaröð IAAF fer fram á morgun, 5. júlí í Lausanne, Sviss. Eins og ávallt eru margar af skærustu stjörnum íþróttarinnar skráðar til leiks og stefnir því í spennandi keppni í mörgum greinum.

Af kvennagreinunum er langstökkskeppnin einna áhugaverðust. Þar keppa m.a. Lorraine Ugen sem um síðustu helgi sigraði breska meistaramótið með stökki upp á 7,05 metra sem jafnframt er bæði persónulegt met og lengsta stökk ársins í heiminum. Hún var aðeins tveimur sentímetrum frá breska metinu sem Shara Proctor setti árið 2015 en hún mun einnig keppa í Lausanne. Þá munu Þjóðverjinn Malaika Mihambo og Ivana Španović frá Serbíu sem báðar eiga næstlengsta stökk ársins, 6,99 metra, einnig mæta til keppni. Španović byrjaði tímabilið seint vegna meiðsla en lengsta stökk hennar á árinu er frá Miðjarðarhafsleikunum í síðustu viku en þar átti hún einnig stökk upp á 7,04 metra í örlítið of miklum vindi (+2,2 m/s). Í nokkur ár hefur hún verið meðal bestu langstökkvara heims en hefur verið óheppin með verðlaun á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum utanhúss. Hún hefur átt betra gengi að fagna á innanhússmótum og Evrópumeistaramótum en hennar lengsta stökk er 7,24 metrar frá Evrópumeistaramótinu innanhúss í fyrra. Hvort hún sé komin í svo gott form kemur í ljós á morgun. Hér fyrir neðan má sjá frábæra stökkseríu hennar frá EM innanhúss í Belgrad í fyrra.

Aðrar greinar hjá konum eru spjótkast, 400 metra hlaup, stangarstökk, 800 metra hlaup, 400 metra grindahlaup, 100 metra hlaup og 1500 metra hlaup.

Spennandi lokagrein

Eins og fjallað var um fyrr í vikunni er ágætis möguleiki á að nýtt heimsmet verði sett í 400 metra grindahlaupi karla á næstu vikum en Abderrahman Samba hljóp nýlega á 46,98 sekúndum, aðeins 20 hundraðshlutum frá heimsmeti Kevin Young frá 1992. Í Lausanne verður einmitt keppt í greininni þar sem margir af þeim sem kepptu í París mæta til keppni

Þar fyrir utan er lokagrein mótsins, 200 metra hlaup karla, áhugaverðasta greinin að mati höfundar. Þar er Bandaríkjastrákurinn Noah Lyles fremstur í flokki en þrátt fyrir að vera aðeins fæddur árið 1997 hefur hann hlaupið á 19,69 sekúndum sem er besti tími ársins en hann (ásamt Ronnie Baker) á einnig besta tíma ársins í 100 metra hlaupi, 9,88 sekúndur frá bandaríska meistaramótinu. Noah er ekki eina ungstirnið sem hleypur 200 metra í Lausanne því Rai Benjamin og Michael Norman sem báðir eru einnig fæddir 1997 og hlupu saman á undir 20 sekúndum í París um síðustu helgi munu hlaupa með Lyles. Fjallað var um Benjamin í umfjölluninni um 400 metra grindahlaup á mánudaginn en hann á þriðja besta tíma í þeirri grein frá upphafi. Í París hljóp Benjamin metrana 200 á 19,99 sekúndum en Norman, heimsmethafinn í 400 metra hlaupi innanhúss, hljóp hins vegar á 19,84.

lyles

Aðrar greinar hjá körlum eru kúluvarp, 110 metra grindahlaup, hástökk, þrístökk og 5000 metra hlaup.

Tímaseðil, keppendalista og úrslit má nálgast hér.

Leave a Reply