Guðbjörg fyrst Íslendinga til að vinna til tvennra verðlauna á sama stórmótinu

Eins og aðrir fréttamiðlar hafa greint frá nokkuð skilmerkilega þá varð Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Evrópumeistari u18 í 100 metra hlaupi á föstudaginn og landaði bronsi í 200 metra hlaupi í gær. Verðlaunin í 200 m hlaupinu komu ef til vill ekki á óvart enda átti hún besta tíma ársins í Evrópu fyrir mótið. Gullverðlaunin í 100 metrunum komu hins vegar öllum mjög ánægjulega á óvart, ekki síst henni sjálfri. Fyrir mótið átti hún 7. besta tímann af þeim sem voru skráðar, 11,68 sekúndur, en besti tíminn var 11,44 sek. Í undanúrslitunum hljóp hún á fjórða besta tímanum og flaug í úrslitin. Þegar í útslit er komið getur hins vegar allt gerst og er það þar sem draumar rætast. Í þetta skiptið var komið að draumi Guðbjargar en hún kom fyrst í mark, 6/1000 úr sekúndu á undan Frakkanum Pamera Losange og Ungverjanum Boglárka Takács.

Eins og áður var sagt var Guðbjörg líklegri til afreka Í 200 metra hlaupinu enda átti hún þar besta tímann á árinu í Evrópu. Hún hljóp næst hraðast í undanúrslitunum og tók svo bronsið í úrslitunum. Tími Guðbjargar var 23,73 sekúndur, 12 hundraðshlutum frá hennar besta en sigurtíminn var 23,52 sek.

Árangur Guðbjargar Jónu setur hana í hóp með aðeins fjórum öðrum Íslendingum sem hafa unnið til verðlauna á stórmótum unglinga en hún er sú fyrsta til að vinna til tvennra verðlauna á einu og sama mótinu, hvort sem um er að ræða stórmót unglinga eða fullorðinna. Aníta Hinriksdóttir á þó enn flest verðlaun eða fern samtals, þar af tvenn gullverðlaun. Guðbjörg á þó nokkur stórmótin eftir haldi hún áfram á sömu braut og verður því gaman að fylgjast með framhaldinu. Áhugavert er að aðeins stelpur eru í hópi verðlaunahafa. Hér fyrir neðan má sjá hverjir þessir Íslendingar eru.

EM u18
2018: 1 gull – Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 100m
          1 brons – Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 200m

EM u20
2015: 1 brons – Aníta Hinriksdóttir – 800m
2013: 1 gull – Aníta Hinriksdóttir – 800m
1997: 1 silfur – Vala Flosadóttir – Stöng

EM u23
2017: 1 silfur – Aníta Hinriksdóttir – 800m
          1 brons – Arna Stefanía Guðmundsdóttir – 400m grind
1999: 1 gull – Vala Flosadóttir – Stöng

HM u18
2013: 1 gull – Aníta Hinriksdóttir – 800m

HM u20
2010: 1 brons – Helga Margrét Þorsteinsdóttir – Sjöþraut

Af öðrum Íslendingum á EM u18 í Gyor er það að frétta að  Birna Kristín Kristjánsdóttir stökk 5,48 metra í langstökki og komst ekki í úrslit. Helga Margrét Haraldsdóttir varpaði kúlunni 13,82 metra sem dugði heldur ekki í úrslit.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir komst í úrslit í sleggjukasti þar sem hún hafnaði í 8. sæti með kasti upp á 61,94 metra. Þá komst Valdimar Erlendsson einnig í úrslit í kringlukasti en hann endaði keppnina í 9. sæti með kasti upp á 52,31 metra.

Í heildina áttu Íslendingar því íþróttafólk í úrslitum í fjórum af þeim sex greinum sem þeir kepptu í og unnu verðlaun í tveimur þeirra. Er það einn sá besti árangur sem íslenskur keppnishópur hefur náð á stórmóti í frjálsum íþróttum.

 

Leave a Reply