Barshim hársbreidd frá heimsmeti

Hástökkvarinn Mutaz Essa Barshim er í góðu formi um þessar mundir eins og áður hefur verið fjallað um hér á síðunni. Barshim hefur unnið þau fimm mót sem hann hefur keppt á í sumar, þar af þrjú Demantamót. Katarbúinn á einnig hæsta stökk ársins, 2,40m, frá Demantamótinu í Doha í byrjun maí.

Barshim stökk svo aftur 2,40m á Gyulai István Memorial, minningarmóti um ungverska spretthlauparann, sjónvarpsmanninn og fyrrum ritara Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins Gyulai István, sem fram fór dagana 1. -2. júlí. Eftir að hafa farið yfir 2,40m í þriðju tilraun lét hann hækka ránna í 2,46m, sem er yfir gildandi heimsmeti Javiers Sotomayor (2,45m). Fyrsta tilraun Barshims var mjög góð, ráin virtist ætla að haldast uppi en féll svo niður við mikil viðbrögð áhorfenda á Sóstói vellinum í Ungverjalandi. Næstu tvær tilraunir Barshims voru ekki jafngóðar og féll heimsmetið því ekki í þetta skiptið. Barshim snéri sig á ökkla í síðustu tilrauninni, ekki er vitað hversu slæm meiðslin eru en hann dró sig úr keppni á Demantamótinu í Lausanne sem fram fór þremur dögum eftir mótið í Ungverjalandi.

Allar þrjár heimsmetstilraunirnar má sjá á myndbandinu hér að neðan.

Barshim var einnig nálægt því að slá heimsmetið í júní árið 2014 eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

Katarbúinn knái, sem á best 2,43m frá árinu 2014, er til alls líklegur að slá þetta tæplega 25 ára gamla heimsmet og verður gaman að fylgjast með honum það sem eftir lifir sumars. Ef hann nær að jafna sig af ökklameiðslunum má búast við honum á Demantamótinu í Mónakó þann 20. júlí.

Heimsmet Sotomayors, sem er eitt af elstu heimsmetum í frjálsíþróttum, má svo sjá hér að neðan.

One comment

Leave a Reply