Guðni Valur með EM-lágmark

Fyrr í dag náði kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason (ÍR) lágmarki á Evrópumeistaramótið sem fram fer í Berlín í byrjun næsta mánaðar þegar hann kastaði 65,53 metra á Coca-cola móti FH í Kaplakrika. Lágmarkið á EM er 63,50m. Þetta er jafnframt bæting hjá Guðna Val um rúma tvo metra, en fyrir daginn í dag átti hann best 63,50m frá árinu 2015. Guðni Valur átti annað kast yfir lágmarkinu á mótinu í dag, hann kastaði yfir 64m í fjórðu tilraun en hans lengsta kast kom í sjöttu og síðustu umferðinni.

Kringlukastarinn knái var að vonum mjög sáttur með árangurinn. „Eftir 64m-kastið í fjórðu umferðinni var eins og einhver hefði komið og tekið 200kg af bakinu á mér. Það var fáránlegur léttir og aðalástæðan fyrir því að ég náði inn mýktinni í síðasta kastinu,“ sagði Guðni þegar Silfrið heyrði í honum eftir mótið í dag.

Er Guðni Valur nú orðinn annar besti kringlukastari Íslandssögunnar en með kastinu í dag stökk hann yfir Erlend Valdimarsson á afrekalistanum. Erlendur kastaði lengst 64,32m árið 1974 sem var þá Íslandsmet í greininni. Aðeins Íslandsmethafinn Vésteinn Hafsteinsson hefur kastað lengra en Guðni Valur. Íslandsmet hans, 67,64m, er nú orðið 29 ára gamalt og verður gaman að sjá hvort Guðni Valur nálgist það enn frekar í sumar.

Kast Guðna Vals er það tólfta lengsta í Evrópu í ár en Litháinn Andrius Gudzius á það lengsta, 69,59m.

Guðni Valur er fimmti Íslendingurinn sem nær lágmarki á Evrópumeistaramótið. Fyrir höfðu hlaupakonurnar Aníta Hinriksdóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir og spjótkastararnir Sindri Hrafn Guðmundsson og Ásdís Hjálmsdóttir náð lágmörkum. Arna Stefanía á von á barni og mun því ekki taka þátt á mótinu.

One comment

Leave a Reply