Ísland á HM í Tampere

Þrjár íslenskar íþróttakonur keppa á HM u20 ára í Tampere, Finnlandi nú í vikunni. Það eru ÍR-ingarnir Andrea Kolbeinsdóttir, Erna Sóley Gunnarsdóttir og Tiana Ósk Whitworth.

Fyrsti keppnisdagur er á morgun, þriðjudaginn 10. júlí, og þá mun Andrea Kolbeinsdóttir keppa í 3000m hindrunarhlaupi. Andrea bætti nýverið Íslandsmetið í greininni um 26 sekúndur þegar hún hljóp á 10:31,69. Undanrásir eru ræstar kl. 9:30 (6:30 á íslenskum tíma) og eru 42 keppendur skráðir til leiks. Andrea á 33. besta tímann en í svona góðri keppni á hún möguleika á að bæta Íslandsmetið enn meira.

Erna Sóley og Tiana keppa báðar á öðrum mótsdegi, miðvikudaginn 11. júlí.

Erna Sóley, sem keppir klukkan 10:15 eða 11:30 (eftir því hvort hún verður í kasthópi A eða B, sem er 7:15/8:30 á ísl. tíma) er þrátt fyrir ungan aldur orðin sjötti besti kúluvarpari Íslandssögunnar. Erna á best 14,54 metra og á 25. lengsta kastið af 28 keppendum. Ef aðstæður eru góðar getur Erna nýtt þessa góðu keppni og umgjörð til að færa sig nær fimmtán metra múrnum sem aðeins fjórar íslenskar konur hafa klifið fram að þessu.

Tiana Ósk keppir í undanrásum í 100m hlaupi klukkan 12:27 (9:27 að ísl. tíma). Ef vindur er hagstæður í Tampere gæti Tiana slegið Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur, 11,63 sekúndur frá árinu 2004. Tiana hefur hraðast hlaupið á 11,68 og á, ásamt Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur nýbökuðum Evrópumeistara u18, næstbesta tíma Íslendings í greininni. Tiana er um miðjan hóp hvað árangur varðar, eða 27. af 53 skráðum keppendum. Bestan tíma eiga bandaríkjastúlkan Twanisha Terry (10,99) og hin 16 ára Briana Williams frá Jamaíku (11,13).

Við óskum þessum stúlkum góðs gengis á HM!

Leave a Reply