Fjórir dagar í MÍ: Skagfirska töfrateppið

Frúin í Alba

Hvað myndir þú gera fyrir 4,5 milljónir króna (gróflega reiknað)? Myndir þú kaupa þér nýjan Toyota Prius Plug-in Hybrid? Ólíklega. Myndir þú borga niður náms- eða íbúðalánið? Varla.

Þú myndir væntanlega nýta peninginn á gáfulegan hátt. Þú myndir kannski kaupa þér 280 pör af Nike Zoom Superfly Elite skónum. Þú gætir líka keypt þér tveggja ára heimsreisu sem endaði á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020, með stoppi á HM í Quatar 2019. Þú gætir jafnvel keypt þér 210 stykki af samfestingnum sem lið Bandaríkjanna notaði á Ólympíuleikunum í London 2012.

usa2.jpg
Fyrir peninginn gætir þú keypt bandaríska samfestinga fyrir a.m.k. 49 dópandi boðhlaupssveitir

Þetta væru allt saman mjög fínar fjárfestingar en enn er hægt að gera betur. Sjálfur myndi ég kaupa mér einn 100 metra renning af Mondo gerviefni, oft kallað ítalska töfrateppið (af mér). Ef ég væri í góðu skapi myndi ég íhuga að kaupa tvo 50 metra renninga og bjóða fólki að æfa stört með mér (umsóknir sendist á mondobidlisti@silfrid.is, startblokk ekki innifalin).

Fyrir þá sem ekki vita er Mondo fyrirtæki með höfuðstöðvar í smábænum Alba á Ítalíu sem framleiðir meðal annars yfirborðsefni á frjálsíþróttavelli. Mondo stærir sig af fjölda heimsmeta sem sett hafa verið á brautum þeirra í gegnum tíðina og virðast flestir sammála um að þær séu hröðustu brautirnar á markaðnum. Verðmiðinn ber að sjálfsögðu merki um það. Mondo gerviefnin hafa verið notuð á síðustu 11 Ólympíuleikum og á öllum heimsmeistaramótum frá 1995 að undanskildum mótunum árið 2007 og 2009. Verst að Mondo getur ekki montað sig af því að eiga hlut í heimsmetum Usain Bolts sem hann setti á HM í Berlín 2009.

Mondo brautirnar eru öðruvísi en flest önnur gerviefni að því leyti að þær eru lagðar niður í renningum sem er svo skeytt mjög þétt saman á meðan önnur efni eru einhvers konar drullumall sem er sturtað á steypuna og látið þorna (ekki hafa þetta eftir mér). Mondo renningarnir eru í tveimur lögum. Neðra lagið er mjög vandlega hannað til þess að hámarka afköst íþróttamannsins með mjög reglulegu munstri. Þessu er best lýst á heimasíðu Mondo:

The supporting layer features an embossed pattern of ribbings that surround a uniform array of hexagon-shaped cavities […]. Ribbings are spaced and positioned to facilitate the lateral deformation of the surface, expediting the rolling of the foot from the 5th metatarsus to the 1st metatarsus while providing continuous foot support and reducing lower-leg lateral movement. As a result, athlete contact with the surface is minimized, foot stability is enhanced, and movement efficiency is maximized […].

Efra lagið er ekki síður vandlega hannað en mynstur þess er mjög einkennandi fyrir Mondo brautirnar. Reynd augu gætu líklega greint Mondo braut utan úr geimnum (þá á ég við að augun séu í geimnum, ekki brautin). Um efra lagið segir heimasíða Mondo eftirfarandi:

The non-directional tessellation pattern enhances traction and surface drainage so athletes’ shoe spikes do not need to penetrate the track surface to grip in dry or wet conditions. Therefore, athletes can use compression spikes, which boost athletic performance by maximizing surface deformation and reducing the time and energy that spike penetration and retraction require

Þetta er allt saman hávísindalegt en meira er hægt að lesa um hönnun töfrateppisins hér. Á youtube rás Mondo má svo finna áhugavert myndband um framleiðsluferlið.

mondo
Lögin tvö í Mondo renningi

Hvernig tengist þetta MÍ?

Góð spurning. Eins og alþjóð veit fer MÍ fram á Sauðárkróki en brautin þar er einmitt fyrsta brautin á Íslandi til þess að klæðast Mondo efninu fagra, að því er höfundur best veit. Það var árið 2002 sem ráðist var í þá framkvæmd og var völlurinn ásamt mannvirkjum tilbúinn fyrir Landsmótið UMFÍ árið 2004.

Ári seinna var Laugardalshöllin svo vígð við hátíðlega athöfn. Þar liggja ennþá sömu Mondo renningarnir og voru lagðir árið 2005 og þykir mörgum vera kominn tími á endurnýjun enda hefur höllin verið notuð gífurlega mikið í gegnum árin.

Ljóst er að Norðlendingar voru hrifnir af ítalska handverkinu því fyrir unglingalandsmót UMFÍ á Laugum í Þingeyjarsýslu árið 2006 var splæst í nýjan fjögurra brauta Mondo völl sem hefur staðið fyrir sínu síðan þá.

Árið 2007 var komið að Landsmóti í Kópavogi og ætlaði bærinn að gera aldeilis vel við sig og setja nýtt gerviefni. Fyrir valinu varð gamla góða drullumallið sem í þetta skiptið virtist helst vera hannað til að rispa eins mörg hné og hægt var.

Á þessum tímapunkti voru Norðlendingarnir orðnir of góðu vanir og létu ekki bjóða sér neitt annað en það besta. Akureyrarbær virðist hafa náð að skjóta sér undan kreppukrumlunum því árið 2009 var vígður splunkunýr átta brauta Mondo völlur. Þórsvöllur er enn, að mati höfundar, besti frjálsíþróttavöllur landsins.

Hafnfirðingar gátu ekki látið sitt eftir liggja og juku enn við Mondo flóru Íslands þegar þeir vígðu frjálsíþróttahúsið sitt árið 2014. Ekki er nóg með að brautin í Krikanum sé röndótt eins og á Akureyri þá er hún líka blá, sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Norðlendingar eiga því allar utanhúss Mondo brautir landsins, meira að segja spjótkastsbrautin á Reykjum í Hrútafirði er frá Mondo, ef minnið bregst ekki. En þetta ástand mun ekki vara mikið lengur.

Mondoþurrð höfuðborgarinnar á enda

Þann 19. júní síðastliðinn birtist frétt á heimasíðu frjálsíþróttadeildar ÍR að Mondo gerviefni verði lagt á nýjan frjálsíþróttavöll í Breiðholtinu seinna í sumar. Lýkur þar með Mondoeinokun Norðlendinga frá 2004. Aldrei er að vita nema undirritaður rífi gaddaskóna og samfestinginn af hillunni góðu til að prófa brautina á vígslumóti, hvenær sem það nú verður.

Vonandi verður nýi völlurinn til þess að ÍR-ingar og aðrir Reykvíkingar geti æft í friði fyrir knattspyrnunni, eitthvað sem marga frjálsíþróttamenn dreymir um. 

Leave a Reply