Site icon Frjálsíþróttavefurinn Silfrið

Keppt um platínubikar og 200 milljónir á nýju Heimsbikarmóti um helgina

Um helgina fer fram Heimsbikarmót í frjálsum íþróttum (Athletics World Cup) á Ólympíuleikvanginum í London. Um er að ræða nýtt mót þar sem átta sigursælustu þjóðirnar frá Heimsmeistaramótinu í fyrra keppa sín á milli í stigakeppni um einstakan platínubikar sem kynntur var á dögunum.

Keppt verður í öllum vallargreinum og hlaupagreinum upp að 1500m og fengu þær átta þjóðir sem stóðu sig best í þeim greinum á HM í fyrra þátttökurétt á mótinu. Hver þjóð sendir einn karl og eina konu til þátttöku í hverri grein. Þátttökuþjóðirnar eru Bretar, Bandaríkjamenn, Frakkar, Þjóðverjar, Kínverjar, Jamaíkar, Pólverjar og Suður-Afríkumenn.

Spennandi keppni

Bandaríkjamenn eru sú þjóð sem býr yfir mestri breidd í frjálsum íþróttum í dag. Þeir verða að teljast sigurstranglegir þrátt fyrir að senda ekki sitt sterkasta lið til keppni. Af átta heimsmeisturum Bandaríkjamanna er aðeins einn í hópnum; stangastökkvarinn Sam Kendricks. Aðrir sterkir í bandaríska hópnum eru Ameer Webb (200m), Devon Allen (110m grind), Darell Hill (kúluvarp) og Clayton Murphy (800m). Þá mun Deanna Price, sem kastað hefur sleggjunni lengst allra í ár (78,12m), mæta pólska heims- og Ólympíumeistaranum, Anitu Wlodarczyk í spennandi keppni.

Jamaíkar, með heimsmestarann í kringlukasti, Fredrick Dacres, og Ólympíumeistarann, Elaine Thompson, innanborðs gætu blandað sér í baráttuna. Þá mun Shelly-Ann Fraser-Pryce mæta til leiks í 4x100m, en hún er að komast í sitt fyrra form eftir að hafa eignast barn í fyrra.

Þá gætu Bretar komið á óvart á heimavelli. Lorraine Ugen á besta árangur ársins í langstökki kvenna (7,05m) og hástökkvarinn Morgan Lake hefur stokkið hæst allra þeirra sem mæta til leiks um helgina (1,97m). Auk þess eru Bretar ávallt sterkir í boðhlaupunum.

Tveir suðurafrískir heimsmeistarar hafa boðað komu sína til London, langstökkvarinn Luvo Manyounga og hlaupadrottningin Caster Semenya. Mun Semenya keppa bæði í 800m og 1500m hlaupum. Aðrir sterkir þátttakendur um helgina verða Frakkarnir Jimmy Vicaut (100m) og Pascal Martinot-Lagarde (110m grind) og Kínverjararnir Lijiao Gong (kúluvarp) og Su Bingtian (100m). Pólverjarnir Adam Kszczot (800m), Wojciech Nowicki (sleggjukast) og Piotr Lisek (stangarstökk) mæta einnig til leiks.

Til mikils að vinna

Platínubikarinn sem sigurliðið hlýtur er talinn vera sá verðmætasti sem gerður hefur verið í íþróttasögunni, verðmætari en sjálfur verðlaunagripurinn á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og Wimbledon bikarinn frægi, en barist verður um alla þrjá á sunnudaginn. Ásamt því að hljóta bikarinn munu allir liðsmenn sigurliðsins fá medalíu úr málminum verðmæta. Einnig verða veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í hverri grein.

Heildarverðlaunafé á mótinu er 2 milljónir dollara (rúmlega 200 milljónir króna) og mun sigurliðið fá 420.000 dollara (45 milljónir króna) í sinn hlut. Það verður því mikið undir á Ólympíuleikvanginum um helgina.

Komið til að vera?

Breska frjálsíþróttasambandið stendur fyrir mótinu og vonast til að það muni auka áhuga á frjálsíþróttum enn frekar. Áhugi Breta á frjálsum íþróttum er mikill og hefur stigmagnast eftir Ólympíuleikana árið 2012 og vel heppnað heimsmeistaramót árið 2017. Til marks um það greindu skipuleggjendur mótsins frá því að um 250 þúsund manns hafi sótt um miða á mótið áður en miðasalan fór í gang. Leikvangurinn í London tekur um 60.000 manns í sæti en enn virðist þó ekki vera uppselt á mótið.

Heimsbikarinn er skemmtileg viðbót við frjálsíþróttaárið og áhugavert verður að sjá hvernig til tekst um helgina. Fjórða hvert ár er hvorki heimsmeistaramót utanhúss né Ólýmpíuleikar, líkt og raunin er í ár, og er heimsbikarmótið tilraun til að bæta það upp. Þó Evrópumeistaramót fari fram finnst mörgum vanta alþjóðlegt frjálsíþróttamót þessi stórmótalausu ár, en margir bestu frjálsíþróttamenn utan Evrópu einblína síður á þau ár og prófa sig jafnvel áfram í öðrum greinum en þeim sem þeir að öllu jöfnu einbeita sér að. Til að mynda ætlar heimsmeistarinn og heimsmethafinn í 400m, Wayde Van Niekerk, ekkert að keppa á þessu ári. Í staðinn ætlar hann að ná sér alveg af hnémeiðslum með stórmótaárin 2019 og 2020 í huga. Þá hefur heimsmeistarinn í þrístökki, Christian Taylor, verið að leika sér að því að hlaupa 400m á þessu tímabili til að „hlaða batteríin“ eins og hann orðaði það. Taylor, sem var aðeins fjórum hundruðustu frá því að komast í úrslit á Bandaríska meistaramótinu, hefur hraðast hlaupið á 45,07 sek. í ár.

Hvort þetta heimsbikarmót er komið til að vera og nái að svala stórmótaþorstann fjórða hvert ár mun tíminn leiða í ljós.

Exit mobile version