Meistaramót Íslands fer fram samhliða Landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um næstu helgi. Búist er við flestu af okkar fremsta íþróttafólki til keppni en ásamt því að keppt er um Íslandsmeistaratitil í hverri grein er keppt um Íslandsmeistaratitil félagsliða.
Síðustu ár hefur stigakeppni liðanna verið háttað þannig að sex efstu íþróttamenn í hverri grein fyrir sig töldu til stiga og miðaðist fjöldi stiga sem hver þeirra vann inn fyrir sitt félag af árangursstigatöflu Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF). Á Frjálsíþróttaþinginu í vor var hins vegar ákveðið að breyta fyrirkomulaginu á stigakeppninni og mun hið nýja fyrirkomulag vera notað í fyrsta sinn um næstu helgi. Þá munu einungis þrír efstu í hverri grein telja til stiga og mun fyrsta sæti gefa þrjú stig, annað sæti tvö stig og það þriðja eitt stig. Mun stigafjöldinn því ekki ákvarðast af árangursstigatöflu IAAF eins og áður.
Skiptar skoðanir voru um stigakeppnina á Frjálsíþróttaþinginu. Vildu einhverjir hreinlega leggja stigakeppnina niður og einblína frekar á einstaklingsafrekin á Meistaramótinu. Nóg væri að hafa eina liðakeppni á ári, Bikarkeppni FRÍ. Öðrum fannst mikilvægt að krýna Íslandsmeistara félagsliða og vildu því halda stigakeppninni inni. Fór svo að samþykkt var að halda stigakeppninni áfram en með breyttu fyrirkomulagi eins og nefnt var hér að ofan. Hafa einhverjir haft það á orði að stigakeppnin á Meistaramótinu væri nú orðin of lík Bikarkeppninni en aðrir hafa lýst yfir ánægju sinni með breytinguna þar sem hún kæmi að einhverju leyti í veg fyrir smölun í greinar.
Síðustu ár hafa ÍR-ingar og FH-ingar barist um sigur í heildarstigakeppninni. Á Meistaramótinu í fyrra unnu ÍR-ingar heildarstigakeppnina og urðu því Íslandsmeistarar félagsliða. ÍR-ingar unnu þá einnig kvennakeppnina en FH-ingar unnu karlakeppnina.
Til gamans ákvað greinarhöfundur að skoða hvort úrslit stigakeppna síðustu ára hefðu orðið önnur hefði hið nýja fyrirkomulag verið notað. Þegar úrslit stigakeppna síðustu þriggja ára eru skoðuð kemur í ljós að úrslit heildarstigakeppninnar hefðu ekki orðið önnur. Hins vegar hefðu FH-ingar unnið kvennakeppnina árið 2016 í stað ÍR-inga. Einnig hefðu ÍR-ingar unnið karlakeppnina árið 2015 í stað FH-inga.
Á myndunum hér að neðan má sjá hvernig þetta nýja fyrirkomulag stigakeppninnar hefði breytt úrslitum síðustu þriggja Meistaramóta.
Athlyglisvert verður að sjá hvernig hið nýja fyrirkomulag kemur út um helgina.