Heldur sigurganga Lasitskene áfram? – Upphitun fyrir demantamót í Rabat

Þó að augu heimsins beinist nú ýmist að HM í Rússlandi eða MÍ á Sauðárkróki þá heldur demantamótaröð IAAF áfram að rúlla. Á morgun, 13. júlí, er komið að mótinu í Rabat í Morokkó. Mótið, sem heitir fullu nafni Meeting International Mohammed VI d’Athlétisme de Rabat og er tileinkað núverandi konungi Morokkó, hefur verið haldið síðan 2008 en varð fyrst hluti af demantamótaröðinni árið 2016. Mótið kom þá í stað Adidas Grand Prix í New York.

Hástökk kvenna hefur oft verið áhugaverðari grein heldur en í sumar. Aðeins þrjár konur hafa stokkið yfir tvo metra í ár og þar af er ein þeirra betur þekkt sem sjöþrautarkona, Belginn Nafissatou Thiam. Rússinn Mariya Lasitskene sem keppir sem óháð íþróttakona, hefur borið höfuð og herðar yfir allar aðrar síðastliðin ár. Hún hefur hæst stokkið 2,06 metra frá því í fyrra en í ár hefur hún hæst stokkið 2,04 metra. Það gerði hún í París fyrir rétt liðlega tveimur vikum síðan. Hún er enn tveimur sentímetrum frá því að bæta rússneska metið sem Anna Chicherova setti árið 2011 og þyrfti að bæta sig um fjóra til þess að slá heimsmetið. Lasitskene er ekki nema 25 ára og hefur því enn nægan tíma til að bæta sig. Heimsmetið setti Búlgarinn Stefka Kostadinova árið 1987 en síðan þá hefur Króatinn Blanka Vlasic komist næst því að bæta það. Hún stökk hæst 2,08 árið 2007 og reyndi ófáum sinnum við 2,10 en náði því aldrei. Gaman væri að sjá Lasitskene taka metið á komandi árum og jafnvel sjá hana brosa í kjölfarið en hún er ekki þekkt fyrir brosmildi eða fögnuð, annað en Vlasic. Lasitskene keppir í Rabat á morgun en vinni hún keppnina hefur hún unnið 46 keppnir í röð.

maria-2.jpg
Lasitskene hefur nú unnið 45 hástökkskeppnir í röð

200 metra hlaup kvenna gæti orðið skemmtilegt en þar mætast Shaunae Miller-Uibo og Blessing Okagbare-Ighoteguonor. Miller-Uibo á best 22,06 sek. á árinu en hennar persónulega met er 21,86. Miller-Uibo er þekktari sem 400 metra hlaupari og varð m.a. Ólympíumeistari í Rio de Janeiro á eftirminnilegan hátt. Okagbare-Ighoteguonor keppir reglulega í 100 m, 200 m og langstökki en frægt er atvikið í demantamótinu í Osló í fyrra þegar hún missti hárkolluna sína í fyrstu langstökkstilraun sinni (sjá myndband fyrir neðan). Hún á best 22,04 sekúndur í 200 metra hlaupi frá því í mars á þessu ári sem er besti tími ársins í heiminum. Fleiri sterkir hlauparar mæta til keppni, m.a. Murielle Ahouré og Dina Asher-Smith sem nýlega setti nýtt breskt met í 100 metra hlaupi.

Tímaseðil, keppendalista og úrslit má sjá hér og hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu frá mótinu sem hefst klukkan 19:00 á morgun.

Leave a Reply