Tveir dagar í MÍ: Lítum til baka á fyrsta Meistaramótið

92. Meistarmót Íslands fer fram á Sauðárkróki um næstu helgi og af því tilefni er tilvalið að líta til baka. Fyrsta Meistaramót Íslands, þá Meistaramót ÍSÍ, fór fram árið 1927 á Melavellinum í Reykjavík. Keppnisdagarnir voru þrír talsins; laugardagurinn 6. ágúst, sunnudagurinn 7. ágúst og miðvikudagurinn 10. ágúst. Einungis var keppt í karlaflokki á mótinu en það var ekki fyrr en árið 1959 sem konur kepptu í fyrsta skipti á Meistaramóti.

mí1927

Þessi auglýsing birtist í Morgunblaðinu fyrir Meistaramótið 1927.

Þrjú Íslandsmet sett

Morgunblaðið fjallaði lítillega um mótið á sínum tíma og greindi frá helstu úrslitum. Á fyrsta keppnisdegi var keppt í 100m, 200m, 800m og 5.000m hlaupum ásamt langstökki og bæði kúluvarpi og kringlukasti beggja handa. Garðar S. Gíslason (ÍR) sigraði í 100m hlaupi á nýju Íslandsmeti, 11,3 sek. Garðar sigraði einnig í 200m hlaupinu á tímanum 24,0 sek. Geir Gígja (KR) vann bæði 800m (2:07 mín) og 5000m hlaupin (18:05,5 mín.). Í langstökki var Sveinbjörn Ingimundarson (ÍR) hlutskarpastur með stökki upp á 6,30m. Þorgeir Jónsson (Ármanni) sigraði svo báðar kastegreinarnar; í kúluvarpi með samanlögðum köstum beggja handa upp á 19,37 og 66,51m í kringlukasti.

Á öðrum keppnisdegi var m.a. keppt í 10.000m hlaupi. Þar voru tveir keppendur mættir til leiks en hvorugur þeirra komst í mark. Í Morgunblaðinu þann 9. ágúst 1927 segir um hlaupið:

„Um það hlaup fór svo, að það varð aldrei á enda kljáð. Þegar það var um það bil að verða hálfnað, þá hindraði Magnús Guðbjörnsson Stefán í hlaupinu – en þeir keptu aðeins tveir – svo að Stefán hætti. Og skömmu síðar hætti Magnús einnig, samkv. úrskurði dómara. Því óleyfilegt væri að hindra keppinaut í hlaupinu.“

Háttvísin var greinilega ekki í hávegum höfð þarna, ekki frekar en á Demantamótinu í Lausanne fyrr í mánuðinum. Lýsing blaðamanns Morgunblaðsins minnti greinarhöfund á þegar Eþíópíumaðurinn Youmif Kejelcha hindraði þá landa sinn, Selemon Barega, á lokasprettinum í 5.000m hlaupinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Barega náði að klára sitt hlaup, ólíkt Stefáni sem lét það þó lítið á sig fá. Stefán gerði sér nefninlega lítið fyrir og sett nýtt Íslandsmet í 400m hlaupi sama dag þegar hann sigraði á tímanum 54,6 sek. Stefán vann einnig til silfurverðlauna í 1500m hlaupi en þar var sigurvegarinn Geir Gígja á tímanum 4:32,5 mín. Voru það þriðju gullverðlaun Geirs á mótinu.

Á öðrum keppnisdegi var einnig keppt í hástökki og þrístökki. Helgi Eiríksson (ÍR) stökk 1,72m og vann hástökkið. Í þrístökkinu sigraði Reidar Sörensen (ÍR) með stökki upp á 13,37m.

Mótinu lauk svo á fimmtarþraut sem fram fór á miðvikudeginum. Hana sigraði Garðar S. Gíslason. Í þrautinni bætti hann Íslandsmetið í langstökki um tvo sentímetra þegar hann stökk 6,39m eftir að hafa lent í þriðja sæti í langstökkskeppninni á fyrsta keppnisdegi með stökki upp á 5,93m. Góð vika hjá Garðari, en hann varð þrefaldur Íslandsmeistari og bætti tvö Íslandsmet.

Hvað gerist um helgina?

Óskandi væri að sjá jafnmörg met falla um helgina. Fjórir Íslandsmethafar hafa boðað komu sína á Sauðárkrók og eru þeirra met alltaf í hættu þegar þau mæta á brautina. Til viðbótar hafa kringlukastararnir Guðni Valur Guðnason (ÍR) og Thelma Lind Kristjánsdóttir (ÍR) nálgast metin í þeirra grein í sumar. Þá er Skagfirðingurinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson (UMSS) til alls líklegur en hann var ekki svo langt frá metinu í 100m hlaupinu á Gautaborgarleikunum fyrr í sumar. Gaman væri að sjá hann slá metið á heimavelli líkt og Garðar gerði árið 1927.

Þátttakendur á fyrsta Meistaramótinu virðast hafa verið nokkuð fjölhæfari en frjálsíþróttafólk samtímans. Nokkrir fjölhæfir einstaklingar mæta þó til leiks um helgina. Tugþrautarmaðurinn Guðmundur Karl Úlfarsson (Ármanni) er skráður í flestar greinar, sjö talsins, og sjöþrautarkonan María Rún Gunnlaugsdóttir (FH) er skráð í flestar greinar kvennamegin, alls fimm. Þá er Ásdís Hjálmsdóttir (Ármanni) skráð í allar kastgreinarnar að sleggjunni frátaldri. Hún fær þó ekki að sýna kasthæfni sína með báðum höndum líkt og Þorgeir gerði árið 1927. Hvort eitthvert þeirra muni leika árangur þeirra Geirs og Garðars fyrir 91 ári og næla í þrjú gullverðlaun kemur í ljós.

Ef veðrið verður til friðs eru góðar líkur á góðum tímum í spretthlaupum á skagfirska töfrateppinu. Einhverjar konur gætu jafnvel hlaupið hraðar en sigurtímar Garðars í 200m og Stefáns í 400m á Melavellinum hér um árið.

Hvort einhver feti í fótspor Magnúsar (og Kejelcha) skal ósagt látið. En ljóst er að það verður spennandi keppni í flestum greinum og hvet ég alla sem geta að mæta á Sauðárkrók um helgina. Allir út á völl!

One comment

Leave a Reply