Einn dagur í MÍ: Meistaramótsmetin riða til falls

Eins og Silfrið fjallaði um í gær eru nokkur Íslandsmet sem eiga það á hættu að falla á MÍ á Sauðárkróki um helgina en einnig getur verið áhugavert að skoða þau Meistaramótsmet sem  eru farin að riða til falls. Óformleg rannsókn Silfursins bendir til þess að 17 mótsmet séu hætt komin þó hættan sé að sjálfsögðu mismikil. Silfrið tók saman öll núverandi mótsmet (nema í boðhlaupum) og setti saman í eina töflu sem sjá má hér að neðan. Grænlituð met eru met þar sem einhver skráður keppandi á betri árangur á árinu en metið eða hefur komist nokkuð nálægt því (á mögulega betra PB). Guli liturinn táknar met þar sem einhver skráður keppandi er kominn nokkuð nálægt því en þarf þó að bæta sig töluvert til að bæta metið. Rauði liturinn táknar svo met sem Silfrið telur nær ómögulegt að einhver skráður keppandi bæti. Í dálkum hægra megin við dökku línuna eru svo þeir keppendur sem höfundur telur líklegasta til að slá metin og þeirra besti árangur á árinu.

Ath.: Með fyrirvara um villur. Mótsmet eru fengin úr mótaforriti FRÍ. Ef handtímataka var skráð sem mótsmet (100 m og 200 m karla) var besti rafmagnstími sem fannst frá Meistaramóti notaður sem mótsmet. Handtímametin virðast enn vera opinberu mótsmetin svo að þessi tafla er ekki listi af opinberu mótsmetunum heldur frekar til gamans gerð. Höfundi finnst bara meira að marka rafmagnstímatökuna, jafnvel þó 0,24 sekúndum sé bætt við handtímann.

Ef stökk eða hlaup í ólöglegum vindi var skráð sem mótsmet var besta löglega hlaup/stökk sem fannst notað. Í einhverjum tilfellum höfðu mótsmetin ekki verið uppfærð, til dæmis í spjótkasti kvenna þar sem Íris Grönfeldt var skráð með mótsmetið, 56,54 metra, en Ásdís kastaði 60,54 á MÍ 2012. Því er enn möguleiki að einhver af skráðu mótsmetunum séu ekki raunveruleg mótsmet.

tafla.PNG

Nokkrir einstaklingar eru sérstaklega áberandi í töflunni. FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson á möguleika á að bæta sín eigin mótsmet í 100 og 200 m (séu handtímamótsmet ekki talin með) en einnig er möguleiki að hann missi metið sitt í 400 metra hlaupi. Nýbakaður Evrópumeistari u18 Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á einnig fínan möguleika á að taka til sín metin í bæði 100 og 200 metra hlaupum. Ásdís Hjálmsdóttir keppir í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti og hefur raunhæfan möguleika á að bæta mótsmetin í öllum greinunum þó Thelma Lind Kristjánsdóttir (ÍR) sé nú líklegri í kringlunni.

Einnig má nefna að í nokkrum greinum eru fleiri en einn keppandi sem gætu mögulega sett mótsmet. Bæði í 100 og 200 metra hlaupum karla er heimamaðurinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson töluverð ógn en hann hefur hraðast hlaupið á 10,76 og 21,57 sekúndum í ár. Þá gæti Tiana Ósk Whitworth veitt Guðbjörgu Jónu töluverða samkeppni í 100 metra hlaupi kvenna auk áðurnefnds möguleika Ásdísar á að sigra Thelmu Lind í kringlukastinu og hirða mótsmetið í leiðinni.

Þar sem Landsmót UMFÍ fer fram samhliða MÍ gæti verið áhugavert að setja upp svipaða töflu með Landsmótsmetum en Silfrið ætlar að leyfa einhverjum öðrum áhugasömum að sjá um það.

Hér með lýkur niðurtalningu Silfursins að MÍ 2018 og óskum við keppendum góðs gengis og áhorfendum góðrar skemmtunar. Ef allt fer að óskum verður Silfrið svo með samantekt eftir hvorn dag fyrir sig.

Leave a Reply