Tvöföld skemmtun – Upphitun fyrir demantamót í Mónakó og London

Aðdáendur demantamótaraðarinnar munu hafa í nógu að snúast næstu daga því að í dag og á morgun er keppt í Mónakó og á laugardag og sunnudag er keppt á Ólympíuleikvanginum í London. Mótin í London eru jafnan stærstu demantamótin og skarta þar með stærstu stjörnunum.

Jennifer súr?

Í Mónakó hefst keppni í dag með kúluvarpi bæði karla og kvenna en aðrar greinar fara fram á morgun. Nýsjálendingurinn Eliza McCartney mætir til keppni í stangarstökki en fyrir aðeins tveimur dögum náði hún besta árangri í greininni í ár og setti nýtt persónulegt met þegar hún stökk yfir 4,94 metra. Fyrir það átti reynsluboltinn Jennifer Suhr besta árangurinn á árinu, aðeins einum sentímetra lægra en það var um miðjan apríl. Síðan þá hefur hún ekki náð sér jafn vel á strik en mætir til þó til keppni á föstudaginn í von um að skáka McCartney sem er ekki nema á 22. ári.

Eins og Silfrið greindi frá átti Mutaz Essa Barshim mjög góða tilraun við heimsmetið í hástökki um daginn. Hann varð þó fyrir því óláni í þriðju tilrauninni að slasa sig á ökkla og var tímabilinu hans þar með lokið og er hann nú í endurhæfingu eftir aðgerð. Þar með er Rússinn Danil Lysenko orðinn sigurstranglegasti hástökkvarinn en hann hefur hæst stokkið 2,37 á árinu og 2,38 frá upphafi. Með honum keppa í Mónakó m.a. Ítalinn og fyrrverandi heimsmeistari innanhúss Gianmarco Tamberi, heimsmeistarinn frá 2007 Donald Thomas og sjöfaldi Keníameistarinn og kenískur methafi Mathew Sawe en hann á best 2,30 metra. Keníabúar hafa ekki verið áberandi á hástökksdýnunni og gæti því verið gaman að fylgjast með honum á föstudaginn.

Hér má finna tímaseðil, keppendalista og úrslit frá Mónakó.

sawe
Keníameistarinn Mathew Sawe

Stjörnum prýddur Ólympíuleikvangur

Mótið í London verður ekki síður spennandi en það í Mónakó. Mótið nær yfir tvo daga og er samtals keppt í 18 greinum sem telja til stiga í demantamótaröðinni. Auk þeirra eru nokkrar greinar með heimþekktu íþróttafólki sem ekki eru hluti af demantakeppninni.

Í 100 metra hlaupi karla verður keppt í tveimur undanriðlum og úrslitahlaupi en til London mæta allir helstu spretthlauparar heims, þar á meðal Bandaríkjamennirnir Ronnie Baker, Michael Rodgers og Christian Coleman en hann virðist loksins vera að komast í stand eftir baráttu við meiðsli. Bretar eru einnig áberandi en Adam Gemili, Chijindu Ujah, Harry Aikines-Aryeetey og Zharnel Hughes mæta allir til leiks. Sá síðastnefndi hefur hlaupið hraðast af þeim í ár, 9,91 sek. Kim Collins virðist aldrei ætla að hætta að hlaupa en þrátt fyrir að hafa hlaupið kveðjuhlaupið sitt í Ostrava fyrr í sumar er hann skráður til leiks í London. Hann er þó ekki líklegur til afreka en hann hefur hlaupið lang hægast af öllum keppendum í ár eða á 10,37 sekúndum, á eftir honum er Aikines-Aryeetey með 10,18 sek.

Kim collins.jpg
Kim Collins virðist aldrei ætla að hætta að hlaupa þrátt fyrir að vera orðinn 42 ára

Heimsmethafinn í 100 metra grindahlaupi, Kendra Harrison, mætir aftur á völlinn þar sem hún setti heimsmetið á sama móti árið 2016 en þrátt fyrir að vera heimsmethafi hefur hún hvorki komist á pall á heimsmeistaramóti né Ólympíuleikum. Hún á næst besta tímann á árinu af keppendunum í London en landa henna Brianna McNeal (áður Brianna Rollins) hefur hlaupið hraðast á 12,38 sekúndum. Heimsmet Harrison frá 2016 er 12,20. Eins og í 100 metra hlaupi karla eru Bandaríkjakonur áberandi en undanfarin ár hafa þær borið höfuð og herðar yfir allar aðrar þjóðir í grindahlaupi kvenna. Af 21 hröðustu tímum ársins eru 14 frá þremur Bandaríkjakonum, þ.e. þessum sem áður hafa verið nefndar ásamt Shariku Nelvis. Hér fyrir neðan má sjá myndband af heimsmeti Harrison en til gamans má geta þá var höfundur þessarar greinar í stúkunni, alveg við endamarkið, þennan örlagaríka dag. Þá tók hann einnig myndina af leikvanginum í London sem fylgir fréttinni.

Hér má finna tímaseðil, keppendalista og úrslit frá Mónakó.

Leave a Reply