Fyrsti Íslendingadagurinn á EM

Siflrið hitti þá Guðna Val Guðnason og Pétur Guðmundsson þjálfara hans eftir undankeppnina í kringlukasti. “Við erum svekktir” sögðu þeir félagar. “Það vantaði svo lítið upp á að ná kasti inn í úrslitin, en það gekk ekki upp  í dag og það er svekkjandi”. Engu að síður er vegalengdin hjá Guðna sú lengsta á stórmóti hjá íslenskum kringkukastara og höfum við jú átt öfluga kastara á fyrri stórmótum. Í Amsterdam fyrir tveimur árum fór undankeppnin ekki fram á leikvangnum eins og nú, en það er yfirleitt talið erfiðara að kasta á lokuðum leikvangi. Þá var Guðni í 22. sæti en nú í því 16. og árangurinn betri, 61,36 m. Guðni er því að taka réttu skrefinn í áttina að toppnum.

Þegar blaðamaður Silfursins beið eftir þeim félögum birtust systur þrjár sem eru mættar til að horfa á EM og styðja okkar fólk en þær voru líka mættar í Amsterdam fyrir 2 árum. Þetta eru frjálsíþróttasysturnar Lára, Sigrún og Kata Sveindættur, dætur Sveins Sigmundssonar frjálsíþróttafrömuðar úr Ármanni. Þær kepptu allar mikið í frjálsum á árum áður og Lára keppti í hástökki á Ólympíuleikunum í Munchen 1972.

20180807_112453Aníta gerði sér lítið fyrir og tryggði sig inn í undanúrslit í 800 m hlaupi. Riðlarnir voru mjög mishraðir. Þrjár fyrstu úr hverjum riðli voru öruggar áfram og svo þær fjórar sem hlupu hraðast þar að auki. Aníta varð 5. í riðli 4 á 2:02,15. Þær sem voru í fjórða til sjötta sæti í þessum riðli komust allar í undanúrslit og svo komst  Angileka Chichoka Póllandi úr riðli 1 líka áfram á tíma. Segja má að það hafi allar komist í undanúrslit sem reiknað var með nema Rene Eykens frá Belgíu, veit ekki hvað gerðist hjá henni. Þetta er mjög svipað og fyrir tveimur árum í Amsterdam, þá komst Aníta í undanúrslit með 2:02,44. Þá komst hún í úrslit og að sjálfsögðu ætlar hún þangað aftur.

Þessi morgun á degi 2 á EM var að mörgu leiti sérstakur. Ég sat við langstökksgryfjuna þar sem tugþrautakapparnir stukku í dag. Ég horfði á eftir heimsmeistaranum Meyer gang hægt, mjög hægt, til baka eftir síðasta stökkið. Það voru erfið skref  fyrir hann eftir að hafa gert öll þrjú stökkin ógild, og ekki nóg með  það, tveir félagar hans í franska liðinu gerðu líka öll þrjú stökkin ógild.  Hálf ótrúlegt. Um líkt leyti gerði heimsmeistarinn í kringlukasti Chirstoph Harding Þýskalandi öll köstin ógild, og það gerði líka ríkjandi Evrópumeistari Malochowski frá Póllandi einnig. Já, það ganga á skin og skúrir hjá íþróttafólkinu hér á EM þó úti sé hiti og sumar hjá öllum.

Leave a Reply