Sven Arne Hansen forseti frjálsíþróttasambands Evrópu er yfir sig ánægður með EM í Berlín og segir mótið það besta í sögunni. Áhorfendur voru samtals 360.000 og á laugardeginum var metaðsókn á einu kvöldi, 60.500 áhorfendur. Ég get staðfest það að stemmingin á pöllunum var með því besta sem ég nokkurn tíma upplifað á frjálsíþróttamóti og gerði góður árangur heimamanna mikið í því. Það var líka magnað að sjá þegar Þjóðverjar kvöddu sinn mikla afreksmann Robert Harting. Þjóðverjar stóðu upp í hvert sinn sem hann kastaði og í síðasta kastinu stóð öll stúkan upp og fagnaði honum, á risaskjána komu upp myndir og texti sem þökkuð honum fyrir ferlinn, hann varð í 6. sæti, ég veit ekki hvernig hefði verið fagnað ef hann hefði komist á pall. Ógleymanlegt.
Ólympíuleikvangurinn í Berlín er magnað mannvirki. Á Ólympíuleikunum 1936 tók hann 100.000 áhorfendur en mikið var lagt í bygginguna og umgjörð alla. Hann var tekinn í gegn fyrir HM í fótbolta 1974 og svo endurbyggður 2004 og eftir þær breytingar tekur hann 76.000 áhorfendur. Á myndinni eru nokkrir Íslendingar fyrir fram innganginn að vellinum.
Árangur Íslands var ekki eins góður og fyrir 2 árum. Þá komust Ásdís Hjálmsdóttir og Aníta Hinriksdóttir báðar í úrslit og Arna Stefanía Guðmundsdóttir í undanúrslit í sínum greinum. Þá áttum við 5 keppendur en nú 4. Nokkrir voru nálægt því að ná lágmörkum og á sama tíma voru ungmenni okkar að standa sig mjög vel á Norðulandamótum sem eykur vonir um að við séum samt á uppleið hvað varðar þátttöku á stórmótum. Ásdís og Aníta voru svo sannarlega í baráttunni um úrslitasæti og eru í þeim styrkleikaflokki sem þarf til að komast í úrslit. Guðni Valur Valsson var að keppa á sínu öðru EM. Hann kastaði lengra en síðast og var framar, næst er það úrslitasæti. Sindri Hrafn Guðmundsson var að keppa í fysta sinn á stórmóti fullorðinna og steig gott skref með þátttöku sinni, er vissulega framtíðarmaður.
En það þarf mikla og markvissa vinnu til að halda í horfinu og gera betur. Við getum rifjað upp að fyrir 2 árum var bjartsýni á að gera enn betur á næsta móti, þ.e. í Berlín. Árangur Norðurlandanna á að vera okkur hvatning. Í Berlín var árangur þeirra góður í heildina og í sumum greinum frábær eins og hjá Svíum og Norðumönnum sem koma heim með samtals 9 verðlaun.
Að komast í úrslit
Fyrir litla þjóð eins og Ísland er mikill árangur að komast í úrslit. En ef við eigum íþróttamann í úrslitum gera óvæntir hlutir gerst eins og sagan sýnir. Það er fróðlegt að líta yfir úrslitafólk sem Ísland hefur átt. Hér verður miðað við 12 manna úrslit en 8 manna í hlaupagreinum á braut. Þar sem engin undankeppni fer fram er miðað við 12 fyrstu. Í meirihluta mótanna hefur Íslands átt úrslitafólk en árið í ár fer í flokk með mótunum 1969, 1971, 1974, 1982, 1986, 2006, 2012, og 2014 þar sem Ísland átti ekki keppenda í úrslitum. Ég ákvað að gera þetta í greinaflokkum og byrja á tímanum næst okkur.
Kastarar
Ásdís Hjálmsdóttir hefur tvisvar komist í úrslit í spjótkasti. Í Amsterdam 2016 þar sem hún varð í 8. sæti með 60,37 m og 2010 í Barcelona þar sem hún varð 10. með 54,32 m.
Pétur Guðmundsson komst tvisvar í úrslit í kúluvarpi. Í Helsinki 1994 varð hann í 7. sæti með 19,34 m (kastaði 19,96 í undankeppninni) og í Split 1990 varð hann í 11. sæti með 19,46 m.
Einar Vilhjálmsson komst í úrslit í spjótakasti í Split 1990 og varð í 9. sæti með 78,14 m (85,48 í undankeppninni).
Vésteinn Hafsteinsson komst í úrslit í kringlukasti í Split 1990 og varð í 12. sæti með 57,36 m (60,40 m í undankeppninni).
Óskar Jakobsson komst í úrslit í kringlukasti í Prag 1978, varð í 11. sæti með 59,44 m (60,86 í undankeppninni).
Hreinn Halldórsson komst í úrslit í kúluvarpi í Prag 1978, varð í 7. sæti með 19,34 m (19,62 í undankeppninni).
Gunnar Huseby komst tvisvar í úrslit í kúluvarpi og vann gullverðlaun í bæði skiptin, með 16,74 m í Brussel 1950 og með 15,56 m í Oslo 1946.
Jóel Sigurðsson spjótkastari varð 10. í undankeppninni 1946 með 58,06 m en þá komust aðeins 8 úrslitakeppnina en með reglunum í dag hefði Jóel verið í úrslitum.
Stökkvarar
Þórey Edda Elísdóttir komst í úrslit í stangarstökki í Munchen 2002 og varð í 11. sæti með 4,20 m (4,30 í undankeppninni).
Vala Flosadóttir komst í úrslit í stangarstökki í Budapest 1998 og varð þar í 9. sæti með 4,15 m.
Vilhjálmur Einarsson komst tvisvar í úrslit í þrístökki. Í Belgrad 1962 varð hann í 6. sæti með 15,62 m og í Stokkhólmi var hann í 3. sæti með 16.00 m.
Valbjörn Þorláksson komst í úrslit í stangarstökki í Stokkhólmi 1958, varð í 14. sæti með 4,20 m.
Torfi Bryngeirsson komst tvisvar í úrslit í stangstökki, 1950 í Brussel og 1954 í Bern en stökk ekki í úrslitakeppninni, í Brussel þar sem langstökkið fór fram á sama tíma og í Bern meiddist hann. Hann komst í úrslit í langstökki í Brussel og vann gullverðlaun með 7,32 m.
Ólivar Steinn komst í úrslit í langstökki í Oslo 1946 og varð í 8. sæti með 6,82 m (7,06 í undankeppninni).
Björn Vilmundarson varð 11. í undankeppninni í langstökki 1946 með 6,69 m en aðeins 8 bestu stukku í úrslitakeppninni en ekki 12 eins og reglurnar segja til um í dag.
Stefán Sörensen varð 7. í úrslitakeppninni í þrístökki í Oslo 1946 með 14,11 m.
Skúli Guðmundsson varð 7. í úrslitakeppninni í hástökki í Oslo 1946 með 1,90 m.
Spretthlauparar, grindahlauparar
Guðrún Arnardóttir komst í úrslit í 400 m grindahlaupi í Budapest 1998 og varð í 4. sæti með 54,59 sek.
Finnbjörn Þorvaldsson komst í úrslit í 100 m hlaupi í Oslo 1946 og var í 6. sæti á 10,9 sek. Hann var í boðhlaupssveit Íslands sem komst í úrslit og varð í 5. sæti í 4×100 m boðhlaupi í Brussel 1950.
Haukur Clausen komst í úrslit í 100 m hlaupi í Brussel 1950 og varð í 5. sæti á 10,8 sek. Hann var í boðhlaupssveit Íslands sem komst í úrslit og varð í 5. sæti í 4×100 m boðhlaupi í Brussel 1950.
Guðmundur Lárusson komst í úrslit í 400 m hlaupi og varð þar í 4. sæti á 48,1 sek. í Brussel 1950. Hann var í boðhlaupssveit Íslands sem komst í úrslit og varð í 5. sæti í 4×100 m boðhlaupi í Brussel 1950.
Ásmundur Bjarnason komst í úrslit í 200 m hlaupi og varð þar í 5. sæti á 22,1 sek. Hann var í boðhlaupssveit Íslands sem komst í úrslit og varð í 5. sæti í 4×100 m boðhlaupi í Brussel 1950.
Millilengda og langhlaup
Aníta Hinriksdóttir komst í úrslit í 800 m hlaupi í Amsterdam 2016 og varð í 8. sæti á 2:02,55 mín.
Fjölþrautir
Jón Arnar Magnússon varð tvisvar í 4. sæti í tugþraut á EM. Í Munchen 2002 með 8238 stig og í Budapest 1998 með 8552 stig.
Valbjörn Þorláksson var í 10. sæti í tugþraut í Belgrad 1962 með 6866 stig.
Pétur Rögnvaldsson varð í 9. sæti í tugþraut í Stokkhólmi 1958 með 6157 stig.
Örn Clausen vann silfurverðlaun í tugþraut í Brussel 1950 með 6819 stig.