Nýtt lágmarkakerfi fyrir HM og ÓL – Hugleiðingar

Fyrir rúmu ári síðan tilkynnti Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) að nýtt kerfi yrði notað til að ákvarða hverjir fá þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Doha á næsta ári og Ólympíuleikunum í Tokyo 2020 í stað hefðbundna lágmarkakerfisins. Fyrir rúmum mánuði gaf sambandið svo út endanlega útlistun á nýja kerfinu.

Um töluverða breytingu er að ræða. Sem fyrr fá ríkjandi heimsmeistarar og sigurvegarar Demantamótaraðarinnar sjálfkrafa þátttökurétt á heimsmeistaramótinu ásamt því að  lágmörk verða gefin út. Munu lágmörkin þó vera mun sterkari en áður og einungis á færi þeirra allra bestu í heiminum í hverri grein að ná þeim. Til þess að fylla upp í þátttökufjölda í hverri grein verður stuðst við nýjan heimslista sem tekinn var í notkun í fyrsta skipti á þessu ári.

Síðan nýja fyrirkomulagið var birt hef ég aðeins verið að velta því fyrir mér og ákvað ég að koma hugleiðingum mínum niður á blað (eða tölvuskjá) og birta hér.

Nýi heimslistinn

Heimslistinn er í stuttu máli þannig gerður að íþróttamenn fá stig fyrir hvert mót sem þeir taka þátt í. Stigagjöfin er tvíþætt, annars vegar árangursstig fyrir þann árangur sem íþróttamaðurinn nær á viðkomandi móti sem miðast þau við stigatöflu IAAF og hins vegar sætastig fyrir það sæti sem íþróttamaðurinn nær á mótinu. Er öllum mótum skipt upp í flokka og gefa þau mismunandi mörg sætastig eftir vægi mótsins. Þannig gefa heimsmeistaramót og Ólympíuleikar flest sætastig og næst þar á eftir lokamót Demantamótaraðarinnar, svo koma ýmis alþjóðleg mót en lítil innanlandsmót gefa fæst sætastig. Árangursstigin og sætastigin leggjast svo saman og gefa frammistöðustig viðkomandi íþróttamanns fyrir hvert mót. Meðaltal fimm stigahæstu móta hvers íþróttamanns fyrir sig er svo notað til að raða upp heimslistanum. Hægt að sjá nánari útlistun á hvernig heimslistinn er reiknaður hér.

Af hverju nýtt kerfi?

Svipað fyrirkomulag (þ.e. staða á heimslista) hefur verið notað til að ákvarða hverjir fá þátttökurétt á stórmótum í ýmsum öðrum einstaklingsíþróttum, t.d. í golfi, tennis, júdó og badminton. Í þessum íþróttagreinum getur þó verið erfitt að meta árangur og styrkleika hvers íþróttamanns fyrir sig og því eðlilegt að sætaskipan á hinum ýmsu mótum ákvarði hverjir öðlist þátttökurétt á stórmótum. Í frjálsum íþróttum sést árangur hins vegar svart á hvítu og auðvelt að sjá hverjir hafa náð bestum árangri í hverri grein. Því má velta því fyrir sér hvers vegna verið er að innleiða það kerfi sem nú er verið að gera.

Umræða um hvernig auka megi áhuga og umfjöllun um frjálsíþróttir hefur lengi verið til staðar. Þegar nýja fyrirkomulagið var kynnt fyrir um ári síðan sagði Sebastian Coe, formaður IAAF, að það væri hluti af stórum breytingum innan frjálsíþróttahreyfingarinnar með þetta að markmiði. Myndi nýja kerfið auðvelda íþróttamönnum, fjölmiðlum og áhorfendum að fylgjast með íþróttinni.

Einhverjir kostir aðrir munu fylgja þessu nýja kerfi. Erfiðara verður að svindla á kerfinu nú. Í gegnum tíðina hafa ýmsir íþróttmenn komist inn á stórmót með grunsamlegan árangur af vafasömum mótum þrátt fyrir reglur um að lágmörk skuli einungis tekin gild náist þau á viðurkenndum mótum. Þó hefur ekki verið mikið um þetta og eitt og sér getur þetta ekki réttlætt kerfisbreytinguna.

Í því kerfi sem nú er verið að innleiða þurfa íþróttamenn að sýna meiri stöðugleika og nú dugar ekki að ná einu góðu stökki eða kasti í góðum aðstæðum til að komast inn á stórmót, þar sem meðaltal fimm bestu móta hvers íþróttamanns gildir. Þetta útilokar þá frá stórmótum sem ná undraverðum árangri einu sinni og ná ekki að standa undir því á stóru mótunum. Þessu hefði þó auðveldlega verið hægt að ná fram með því að meðaltal tveggja eða þriggja bestu árangra íþróttamanna óháð því sæti sem þeir lenda í þurfi að vera yfir lágmarki svo þeir öðlist þátttökurétt á viðkomandi móti.

Íþróttamenn eins og Usain Bolt, Mo Farah og Almaz Ayana hafa í gegnum tíðina sjaldan sést á frjálsíþróttavellinum, þau hafa haft hægt um sig tímabilið endilangt en mæta svo á stóru mótin. Með innleiðingu nýja kerfisins eru bundnar vonir við það að bestu íþróttamennirnir muni keppa á fleiri mótum. Nú þurfi þau að keppa oftar þar sem meðaltal fimm móta gildir inn á stóru mótin. En með því að hafa lágmörk, sem þeir bestu og einungis þeir bestu geta náð, fellur þetta um sjálft sig. Þeir bestu geta því enn náð lágmarki snemma og haft hægt um sig fram að stóru mótunum.

Með nýja kerfinu verður auðveldara fyrir IAAf að stjórna fjölda þátttakenda í hverri grein – eitthvað sem hefur verið unnið að á undanförnum árum. Áður var erfitt að áætla fjölda íþróttamanna sem náðu lágmarki inn á mótin.

Langt frá því að vera gallalaust

Hefur þetta nýja kerfi fengið töluverða gagnrýni frá mörgum innan frjálsíþróttahreyfingarinnar. Og skiljanlega. Með innleiðingu nýja kerfisins verður erfiðara fyrir íþróttamenn að toppa á heimsmeistaramótinu þar sem þeir þurfa að halda góðri stöðu á heimslistanum yfir allt tímabilið og fá ekki vita hvort þeir fái þátttökurétt fyrr en stuttu fyrir mótið. Fyrir heimsmeistaramótið í Doha á næsta ári verður til að mynda farið eftir stöðunni á heimslistanum þremur vikum fyrir mótið. Áður var hægt að ná lágmarki snemma á tímabilinu, og jafnvel árið áður, og var þá hægt að miða allar æfingar og einbeita sér að því að toppa á heimsmeistaramótinu sjálfu. Gerir kerfið um leið mun erfiðara fyrir íþróttamenn að komast inn á stórmót í tveimur greinum, þar sem nú þarf að ná góðum árangri a.m.k. fimm sinnum í hvorri grein sem er ekki auðvelt.

Flokkun móta og vægi þeirra er einnig að mörgu leyti skrýtin. Meistaramót allra landa eru til að mynda öll sett í sama flokk en ljóst er að styrkleiki þeirra er oft mjög mismunandi. Þannig gefur fyrsta sæti á bandaríska meistaramótinu jafn mörg sætastig og á Meistaramóti Íslands. Þá hafa ýmis mót þar sem sumar þjóðir hafa þátttökurétt en aðrar ekki, eins og t.d. Samveldisleikarnir, hátt vægi og auka möguleika íþróttamanna þeirra þjóða á hærri stigastöðu. Vægi Evrópukeppni landsliða er einnig mismunandi eftir deildum. Deildirnar eru vissulega mismunandi af styrkleika en þetta dregur úr möguleikum á stigasöfnun sterkra íþróttamanna frá þjóðum í neðri deildum.

Yfirleitt fá íþróttamenn í fyrstu átta sætum hvers móts sætastig á meðan þátttökufjöldi á stórmótum er mun hærri, á bilinu 24-56 í hverri grein. Það er því ljóst að munur á stigum íþróttamanna í sætum fyrir neðan topp tíu á heimslista verður mjög lítill þar sem 8-10 bestu í hverri grein safna til sín flestum sætastigum af sterkustu mótunum og skilja lítið eftir fyrir þá sem koma næst í styrkleikaröðinni. Hverjir komast inn á þau mót sem hafa mest vægi mun því hafa mjög mikið um það að segja hverjir komast inn á HM á næsta ári. Auðveldara er fyrir stór nöfn að komast inn á stærstu mótin og oft er það undir umboðsmönnum íþróttamannanna komið og samböndum þeirra. Markaðsvæni íþróttamanna og hæfni umboðsmanna getur því mögulega haft meira að segja í uppröðun heimslistans en styrkleiki íþróttamannanna sjálfra.

Vert er þó að nefna að hver þjóð hefur mest þrjú sæti í hverri grein á stórmótum. Nái fleiri en þrír frá sömu þjóðinni lágmörkum eða nógu góðri stöðu á heimlista ákveður þjóðin eftir sínu eigin höfði hvernig hún úthlutar þessum þremur sætum. Geta sterkar þjóðir eins og Bandaríkjamenn því enn notast við úrtökumót til að ákvarða hverjir fái þátttökurétt.

Skoðum dæmi

Ef heimslistinn 2018 er skoðaður kemur margt áhugavert í ljós og munur á nýja heimslistanum og þeim lista sem sýnir besta einstaka árangur hvers íþróttamanns er oft gífurlegur.

Sem dæmi hljóp Bandaríkjamaðurinn Benjamin Rai á 3.-4. besta tíma sögunnar í 400m grindahlaupi á bandaríska háskólameistaramótinu í ár (47.02 sek.) sem var um leið 2. besti tími ársins. Á nýja heimslistanum er Rai hins vegar í 24.-25. sæti á eftir manni eins og Frakkanum Mamadou Kasse Hann sem hljóp hraðast á 49.50 sek. í ár.  Háskólamótin hafa lítið vægi á meðan Hann hljóp á tveimur Demantamótum í sumar. Þetta sýnir hversu neikvæð áhrif nýja fyrirkomulagið getur haft fyrir háskólanemendur í Bandaríkjunum sem hafa oft á tíðum náð góðum árangri á stórmótum.

Annað dæmi, nú úr 400m hlaupi karla. Heimsmeistarinn innanhúss, Tékkinn Pavel Maslák, átti 86. besta tíma ársins í 400m hlaupi utanhúss og hefði því verið langt frá því að komast inn á HM hefði það verið haldið í ár og gamla kerfið væri enn við lýði.  Vegna hás vægis HM innanhúss er Maslák hins vegar í 15. sæti á nýja heimslistanum og hefði því flogið inn á HM samkvæmt nýja fyrirkomulaginu. Pláss er fyrir 48 400m hlaupara á heimsmeistaramóti.

Auknir möguleikar Íslendinga

Á heimslistanum fyrir árið í ár komast sex Íslendingar á topp 100 í sinni grein, þau Aníta Hinriksdóttir (800m), Ásdís Hjálmsdóttir (spjótkast), Guðni Valur Guðnason (kringlukast), Hafdís Sigurðardóttir (langstökk), Hilmar Örn Jónsson (sleggjukast) og Sindri Hrafn Guðmundsson (spjótkast).

Eins og sést á töflunni hér að neðan raðast fimm af þeim hærra á heimslistanum en á listanum yfir einstakan árangur hvers íþróttamanns. Einungis í tilviki Guðna Vals hefur nýja kerfið neikvæð áhrif. Telja þar hæst sætastig frá Meistaramóti Íslands, en Ásdís, Hafdís og Sindri Hrafn urðu öll Íslandsmeistarar í sínum greinum í ár og fengu fyrir það heil 100 sætastig. Á meðan íþróttamenn annarra landa á svipuðu getustigi og þessir Íslendingar áttu ekki möguleika á svo háum sætastigum á þeim mótum sem þau tóku þátt í. Mun þetta nýja fyrirkomulag því líklegast hafa þau áhrif að allir okkar bestu íþróttamenn munu keppa á Meistaramóti Íslands í framtíðinni, en sú hefur ekki alltaf verið raunin.

sl_á_heimslista18

Af þessu má draga þá ályktun að nýja kerfið auki almennt möguleika Íslendinga, og líklegast annarra minni þjóða, á því að komast inn á stórmót.

Nýr möguleiki

Þetta nýja fyrirkomulag býður upp á þann skemmtilega möguleika að bera saman íþróttamenn úr mismunandi greinum, eitthvað sem ekki hefur verið hægt áður. Þannig er hægt að sjá hver er í raun besti frjálsíþróttamaður hvers árs óháð greinum. Taflan hér að neðan sýnir efstu tíu á heimslistanum 2018 óháð greinum. Þar sést að tugþrautarkappinn Kevin Meyer og hindrunarhlauparinn Beatrice Chepkoech voru stigahæst í ár en þau settu bæði heimsmet á árinu.

Heimslisti18

Áhugaverð tilraun

Áhugavert verður að sjá hvort þetta nýja kerfi muni auka umfjöllun og áhuga á frjálsum íþróttum. Kerfið býður vissulega upp á meiri spennu en það er frekar flókið og gæti fælt áhorfendur frá íþróttinni. Eins og er sé ég þetta nýja fyrirkomulag ekki sem framfararskref og virðist kerfið vera frekar vanhugsað. Mögulega (og vonandi) hef ég samt rangt fyrir mér. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út á næsta ári og gæti verið þess virði að prófa.

One comment

Leave a Reply