Frjálsíþróttamaður mánaðarins: Sæmundur Ólafsson

Frjálsíþróttamaður nóvembermánaðar er ÍR-ingurinn Sæmundur Ólafsson. Þessi viðkunnanlegi millivegalengdahlaupari hefur átt einstaklega gott ár. Hann byrjaði árið með sigri og persónulegri bætingu í 800m á RIG og varð svo tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss þegar hann vann bæði 800m og 1500m. Þá varð hann Íslands- og bikarmeistari í 1500m utanhúss ásamt því að bæta sig um tæpar þrjár sekúndur í 800m – hans aðalgrein.

Sæmundur var nýverið valinn í landslið Íslands sem tekur þátt á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum sem fram fer í Reykjavík þann 10. nóvember. Óskar Silfrið Sæmundi og liðsfélögum góðs gengis á mótinu og hvetur um leið alla til að mæta og hvetja liðið til dáða.

Sæmundur hefur einnig átt gott ár utan vallar. Hann brautskráðist úr grunnnámi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands í sumar og leggur nú stund á meistaranám við sama skóla. Hér að neðan fáum við að kynnast pilti örlítð betur.

Sæmi

Gælunafn: Truth.

Aldur: 23 ára.

Hjúskaparstaða: Á lausu.

Instagram: @Mundmadurinn

Félag: ÍR.

Grein og PB: 800m (1:53,28).

Þjálfari: Martha Ernstdóttir.

Uppáhalds matur?
Medium rare nauta ribey og ferskur humar.

Uppáhalds drykkur?
Klárlega kókómjólk, ég mein hver vill ekki líta út eins og Klói?

Uppáhalds lag?
Mess is Mine (Vance Joy).

Af hverju byrjaðir þú að æfa frjálsar?
Byrjaði allt þegar ég var í afmæli hjá frænku minni árið 2003 en hún var í frjálsum á þeim tíma. Hún var með flott safn af bikurum og medalíum sem ég heillaðist mikið af og var það hvatinn sem leiddi til þess að ég fór á mína fyrstu frjálsíþróttaæfingu, þá 8 ára að aldri. Síðan þá hef ég verið viðloðinn frjálsar með hléum. Ég byrjaði að æfa frjálsar af fullum krafti þegar ég var 16 ára en þá hætti ég í fótbolta.

Hver er toppurinn á ferlinum hingað til?
Þegar ég var Íslandsmeistari í 1500 metrum nú í sumar.
Hér má sjá myndband af hlaupinu.

Hvernig hljómar síðasta æfing sem þú tókst?
Rólegir 14 kílómetrar í Heiðmörk.

Hver er erfiðasta æfing sem þú hefur tekið?
3x(200-200-800): 1 mín hvíld á milli 200 og 3 mín á milli setta, 200 á 31 sek og 800 á 2:04 mín.

Hvaða íþrótt myndir þú æfa ef þú værir ekki í frjálsum og af hverju?
Fótbolta, því það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri.

Hvað gerir þú í frítíma þínum þegar þú ert ekki að æfa og keppa?
Þegar ég er ekki að læra þá er ég reglulegur gestur sundlauganna á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru Sundhöll Reykjavíkur og Vesturbæjarlaug í miklu uppáhaldi. Á sumrin stunda ég einnig eins mikið golf og ég get með vinunum. Einnig eyði ég töluverðum tíma í að hlusta á podcöst.

Hvað gerir þú til að gíra þig upp fyrir keppni?
Ég horfi á David Rudisha bæta heimsmetið og verða Ólympíumeistari í 800 metrum í London 2012 á morgni keppnisdags. Einnig notast ég við hugarþjálfun daginn fyrir og einnig samdægurs, þar sem ég fer yfir hlaupið en þar sigra ég alltaf.

Vandræðalegasta atvik inni á frjálsíþróttavellinum?
Man ekki eftir neinu sérstaklega vandræðalegu atviki en þó man ég eftir einu óþægilegu atviki þegar ég datt í 60 metra grindahlaupi og kláraði ekki hlaupið, ég var 13 ára og hef ég ekki hlaupið grindahlaup síðan.

Bestu æfingabúðir sem þú hefur farið í og af hverju?
Æfingabúðir sem ÍR fór í árið 2015 til Gran Canaria. Aðstæður til frjálsíþróttaiðkunar voru hræðilegar, en félagsskapurinn var einstaklega góður í þessari ferð og þar fæddist #TeamNesið sem flestir frjálsíþróttamenn á Íslandi ættu að kannast við.

Nesið

Uppáhalds frjálsíþróttamenn?
Stefán Már Ágústsson er í miklu uppáhaldi en hérna kemur eitt af mörgum gullkornum sem hann hefur látið út úr sér í gegnum tíðina: ,,Strákar – í frjálsum er það ekki árangurinn sem skiptir máli, heldur ekki félagsskapurinn – það eina sem skiptir máli er að lúkka vel á brautinni.” Skammt á eftir Stefáni koma David Rudisha og Mo Farah.

Fallegasti frjálsíþróttamaðurinn?
Hörð keppni á milli Kára Steins Karlssonar og Ívars Kristins Jasonarsonar.

Fallegasta frjálsíþróttakonan?
Allison Stokke stangastökkvari.

Adidas eða Nike?
Adidas, fæ bara ekki nóg af boost efninu.

Ef þú gætir bara afrekað annað hvort, hvort myndir þú vilja setja heimsmet eða vinna Ólympíugull – af hverju?
Heimsmet, því þá væri ég sá besti í sögunni í minni grein.

Sturluð staðreynd um þig:
Ég hef verið stunginn af blóðlús í Tælandi.

Að lokum, hvaða youtube myndbandi mælir þú með fyrir lesendur?
Mæli með podcasti um svefn þar sem Joe Rogan tekur viðtal við Matthew Walker sem er vísindamaður og prófessor í taugavísindum og sálfræði við Berkely háskólann í Californiu, fjallar um mikilvægi svefns.
https://www.youtube.com/watch?v=pwaWilO_Pig&t=4500s

StefánMár

Frjálsíþróttamaður októbermánaðar var Irma Gunnarsdóttir

2 comments

Leave a Reply