Blandað boðhlaup á HM í Dóha og ÓL í Tókýó

Í fyrsta sinn í sögunni verður keppt í blönduðu boðhlaupi á heimsmeistaramóti fullorðna í frjálsum íþróttum þegar mótið fer fram í Dóha á næsta ári. Þá verður keppt í 4x400m boðhlaupi með tvo karla og tvær konur í hverri sveit. Þessu fagna eflaust margir en áður hefur verið keppt í blönduðu boðhlaupi á HMU18, á HM í boðhlaupum (e. World Relays) og á Heimsbikarkeppninni (e. Continental Cup) við mikla ánægju. Verður greinin einnig á dagskrá Ólympíuleikanna í Tókýó 2020.

Boðhlaup eru yfirleitt sett síðust á dagskrá á stórmótum en ljóst er að erfitt er að koma fyrir blönduðu boðhlaupi ásamt boðhlaupum hvors kyns fyrir í lok móts. Á HM í Dóha verður blandaða boðhlaupið á dagskrá á keppnisdögum 2 og 3, en tímaseðilinn var birtur fyrir stuttu. Verður það því á dagskrá á undan keppni í 400m hlaupi og því óvíst hvort bestu 400m hlauparar hverrar þjóðar muni vilja taka þátt, sérstaklega ef þeir telja sig eiga möguleika á verðlaunasæti í einstaklingsgreininni.

Skemmtileg grein
Blandað boðhlaup býður alltaf upp á mikla spennu og er taktík stór hluti af hlaupinu þar sem uppröðun sveitanna er frjáls og getur það spilast þannig að karlar og konur hlaupa á móti hvort öðru. Hér að neðan má sjá myndband frá HM í boðhlaupum í fyrra þar sem Bahamaeyjar báru sigur úr býtum í blandaða boðhlaupinu.

Einu sinni hefur verið keppt í blönduðu boðhlaupi á Íslandi að því er sá sem þetta ritar best veit og vill svo skemmtilega til að hann tók þátt í því hlaupi. Var það á móti sem fram fór árið 2017 og nefndist Jólablandan – Boðhlaupspartý Fjölnis. Keppt var í 4x200m hlaupi innanhúss og var það hin mesta skemmtun.

Nú þegar greinin er komin á dagskrá heimsmeistaramóts og Ólympíuleika er spurning hvort setja ætti greinina á dagskrá Meistaramóts Íslands og jafnvel Bikarkeppni FRÍ. Er það eitthvað sem forysta frjálsíþróttahreyfingarinnar hér á landi þarf að skoða.

Einnig er vert að skoða það að setja greinina inn á mót eins og Smáþjóðaleika og Smáþjóðameistaramót. Sumar þjóðir, sem eiga í erfiðleikum með að tefla fram tveimur boðhlaupssveitum af hvoru kyni, ættu auðveldara með að senda frambærilegar sveitir til keppni í blönduðu boðhlaupi.

 

Blandaðboðhlaup3
Hér afhendir Salwa Naser liðsfélaga sínum, Abbas Abbas, keflið í keppni í blönduðu 4x400m hlaupi á Asíuleikunum sem fram fóru í Indónesíu í lok ágúst. (Mynd: AFP).

 

Leave a Reply