Jón Diðriksson, eini Íslendingurinn sem hlaupið hefur mílu á styttri tíma en 4 mínútum

Í ár eru 35 ár síðan Jón Diðriksson setti Íslandsmet í 1500 m hlaupi, 3:41,65 mín og 40 ár síðan hann keppti  á EM. Jón Diðriksson býr rétt fyrir utan Boston í Bandaríkjunum en gerði sér ferð á EM í Berlín í sumar, m.a. til að hitta gamla æfingafélga frá námsárunum í Köln í Þýskalandi. Á þeim árum voru landsliðsmenn Þjóðvera í millivegalengdum mjög  sterkir og Jón æfði og keppti við marga þeirra.

 

Á sínum tíma átti Jón Íslandsmet í öllum millivegalengdum; 800, 1500, 2000, 3000, 5000 m og 3000 m hindrunahlaupi. Árið 1982 náði Jón þeim áfanga að hlaupa mílu undir 4 mínútum í gríðarsterku hlaupi í Koblenz. Jón keppti lítið á lengri vegalengdum en þó tók hann þátt í götuhlaupum á veturna á Þýskalandsárunum og á enn metið í 10 km götuhlaupi 30:11, sett 1983. Auk þess standa metin í 1500 m og 1 mílu enn í dag.

Metið í mílunni

Methlaup Jóns í mílu fór fram 25. ágúst 1982 í Koblenz og tíminn var 3:57,63 mín. Koblenz var vettvangur stórafreka í millivegalengdum á þessum árum, á lista yfir míluhlaup hraðari en 4 mínútur eru 33 hlauparar með besta tímann sinn þaðan. Sigurvegarinn í hlaupinu var Steve Scott USA en hann var meðal bestu millivegalengdahlaupara heims á þessum árum, vann silfur á HM 1983 og setti bandarískt met í mílu þetta ár 3:47.69 min, met sem ekki var slegið fyrr en 2007 af Alan Webb. Í þessu hlaupi var sigurtíminn 3:49,72 min en annar var Syndey Maree Suður Afríku á 3:49,75 en hann setti heimsmet í 1500 m hlaupi árið eftir, 3:31.24 mín. Þriðji var þjóðverjinn Thomas Wessinghage, en hann átti þýska metið í 1500 m 3:31.58 mín og á marga titla, m.a. Evrópumeistari í 1500 m, innanhúss og utan. Fleiri heimsþekktir hlauparar voru í þessu hlaupi og má þar nefna Ray Flynn Írlandi, Mike Boid Kenýa og Tom Byers USA.

EM í Berlín og áður í Prag og Aþenu

20180810_220840 (2)Í tengslum við EM í Berlín var samkoma þýskra frjálsíþróttamanna, eldri og yngri. Jón er í tengslum við marga kappa frá Kölnarárunum og var því hálgert „reunion“ hjá gömlu félugunum.  Ég heyrði á Jóni að þessi samkoma var gríðarlega vel heppnuð. Ættum við hér heima kannski að finna stað og tíma tengdum mótum hér heima þannig að gamlir félagir geti komið saman og rifjað upp gamla tíma? Jón hitti einnig gamla félaga frá Íslandi í Berlín og á myndinni er hann  með þeim Sigrúnu, Láru og Kötu Sveinsdætrum sem voru mættar í Berlín til að fylgjast með.

20180810_214721 (2)Jón fór á völlinn og horfði m.a. á úrslitahlaupið í 1500 m hlaupi karla en Jón keppti tvisvar á EM í 1500 m. Úrslitahlaupið í Berlín var magnað en Jakob Ingibregtsen vann þar eftirminnilegan sigur.

Jón keppti fyrst á EM fyrir 40 árum í Prag en Jón keppti bæði í 800 og 1500 m hlaupi og var í riðli með tveimur af frægustu hlaupurunum á þeim tíma, Coe og Ovett. Sebastian Coe sigraði í hans riðli í 800 m á 1:46,82 min en Jón varð 7. á 1:50,40 min. Í 1500 m sigraði Steve Ovett á 3;42,94 min en Jón hljóp á 3:48,10 min. Jón keppti í sömu greinum í Aþenu 1982 og hljóp þá á 1:50,30 min og 3:44,03 min.em 1978

OL í Moskvu

Jón keppti á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980. Hann keppti þar í 800 og 1500 m hlaupi og hljóp þar á 1:51,20 í 800 og 3:44,34 min í 1500 m. Pistlahöfundur man vel þegar Jón fékk tilkynningu frá Frjálsíþróttasambandinu um að hann hefði verið valinn til þátttöku á OL. Við vorum á keppnisferðalagi í Svíþjóð og gengið vel. Við vorum að skipuleggja lok ferðarinnar og „heimferð“ til Kölnar þegar Jón fékk boðin þannig að ég fór einn til Kölnar en Jón til Moskvu. Jón setti Íslandsmet sama dag  (3:41,77 min) og hann fékk fréttirnar og fékk fyrir það eftirfarandi fyrirsögn í Vísi: „Jón þakkaði fyrir Moskvufarmiðann! – var valinn til að fara á Olympíuleikana í fyrrakvöld og setti Íslandsmet í 1500 metra hlaupi sama kvöldið“.

Ísland átti fjóra keppendur í Moskvu, spretthlauparann Odd Sigurðsson og kastarana Hrein Halldórsson og Óskar Jakobsson en þess má geta að Hreinn og Óskar komust báðir í úrslitakeppnina í kúluvarpi.

Bandaríkin og Ísland

20180818_103838Jón er menntaður íþróttafræðingur frá Íþróttaháskólanum í Köln og stundaði síðan nuddnám í Boulder USA og starfar sem nuddari í Bandaríkjunum. Hann og Sonja kona hans búa rétt fyrir utan Boston en koma reglulega til Íslands og halda góðum tengslum við félagana hér heima. Jón segist hafa gaman af að skokka í góðum hópi eins og hann gerði t.d. í 100. Víðavangshlaupi ÍR og í Reykjavíkur maraþoninu í sumar (lengst til hægri á myndinni) en löngu hættur að líta á þannig þátttöku sem keppni. Hann skokkar reglulega, hjólar og syndir og heldur sér þannig í góðu formi. Það er gaman að rifja upp keppnisárin og margs að minnast og aldrei að vita nema pistlahöfundur geri þeim betri skil síðar.

 

Leave a Reply