Æfingabúðir í Suður Afríku

Frjálsíþróttafólk fer gjarnan í æfingabúðir, stundum oft á ári, og ekki bara þeir sem búa við erfiðar æfingaaðstæður utanhúss yfir vetrarmánuði eins og við á Íslandi. Íslenskir frjálsíþróttamenn hafa undanfarna áratugi mest sótt til Spánar og Portúgal um páska, en einnig til Bandaríkjanna og fleiri staða. Íþróttamenn í Norður Evrópu fara gjarnan til hlýrri staða á veturna en síðan eru margir sem eru jafnframt að leita eftir að komast í hæðarþjálfun og á sumum stöðum fer þetta tvennt saman og það vilja t.d. langhlauparar. Dullstroom í Suður Afríku og Iten í Kenýa eru vinsælir staðir hjá langhlaupurum á tímabilinu nóvember til apríl. Þegar þetta er skrifað eru tveir Íslendingar að æfa í Iten, Arnar Pétursson og Vignir Már Lýðsson.

Ég fór í þriðja sinn til Potschefstroom um jólin og ætla að lýsa aðstæðum þar. Í  þetta sinn voru aðeins þrír Íslendingar í Potch en svo er staðurinn yfirleitt nefndur í daglegu tali, ég, Aníta Hinriksdóttir og Ármann Albertsson en undanfarin ár hafa þeir oft verið fleiri. Sumir, sérstaklega langhlaupara eyða gjarna fyrst tíma í Dullstroom í 2100 m hæð (400 km frá Potch) og koma svo til Potch til að ná meiri ákefð í æfingar. Þá má nefna að Vésteinn Hafsteinsson fer gjarnan til Potch með sinn kastarahóp og var væntanlegur í ár rétt eftir að ég flaug heim.

Staðsetning og aðstæður

Potchefstroom er í 1450 m hæð í um 120 km frá Johannesburg, íbúar eru um 45 þúsund og í bænum er stór háskóli, North West University með um 30.000 nemendum. Alta Verster heitir sú sem ég og flestir sem ég þekki leita til. Hún rekur fyrirtæki sem sér um íþróttamenn á svæðinu og eru íþróttamenn sóttir á flugvöllinn í Johannesburg og fá aðgang að tveimur völlum og lyftingaaðstöðu og hún getur séð um gistinguna. Alta er fyrrverandi millivegalengdahlaupari, á 8:57,25 í 3000 m hlaupi en hún var ásamt manni sínum, Jean Verster á íþróttastyrk í Bandaríkjunum á sínum tíma. Hún þekkir því vel kröfur íþróttamanna. Maður hennar er kennari við háskólann og er einnig þjálfari, yfirleitt með stóran hóp en meðal þeirra sem hann hefur þjálfað má nefna Caster Semenya og Nigel Amos. Stundum æfa íþróttamenn í æfingabúðunum með hópnum hans. Alta er alveg frábær í öllum samskiptum og mín reynsla er að allt stenst sem hún segir. Hver sem er getur pantað aðstöðu og þó mjög mikið sé af heimsklassa íþróttamönnum er líka að finna unglinga og íþróttamenn á ýmsum getustigum.

Aðstaðan

Ég er mjög hrifinn af grasvellinum, hann er þéttur og fínn með 8 brautum og hugsað mjög vel um hann. Flesta daga sem ég hef verið í Potch er sól og yfir 30 stiga hiti og þá er mesta lífið á grassvæðinu, oft hægt að sjá marga heimsklassaíþróttamenn á sama tíma. Skýli eru á nokkrum stöðum við völlinn þar sem hægt er sitja í skugga og geyma dót. Einhvern veginn hefur það þróast þannig að Norðurlandabúarnir hafa helgað sér eitt skýlið meira en önnur og alltaf hægt að hitta fólk þar á góðum degi.

Um 2,5 km frá grasvellinum er tartanvöllur. Sumir hlauparar æfa mikið þar en flestir nýta hann með og þá fyrir hraðari æfingar. Það er kastbúr þar en ég hef ekki séð kastara þar þegar við höfum verið á æfingum en það eru haldin mót þar. Alta útvegar einnig aðgang að þessum velli.

Kastsvæði er 300 m frá grasvellinum en það er líka kúluvarpshringur á grasvellinum. Á kastsvæðinu er hringur fyrir kúluvarp, kringlukast og sleggjukast úr búri. Þar er gámur sem íþróttamenn/þjálfarar geta nýtt til að geyma áhöld. Kastsvæðið er bara æfingasvæðið því lendingarsvæðið er mishalla og liggur að hluta lægra en kasthringirnir og væri því ekki löglegt í keppni.

Það er hægt að taka millilangar hlaupaæfingar á grassvæðinu með því að nota allt svæðið, grasið umhverfis völlinn, víðavangshlaupabrautina og samliggjandi rugbysvæði. Flestir langhlauparnir vilja líka komast á góða malarstíga/vegi. Þeir stígar sem heimamenn nota mikið eru í 20 mín aksturfjarlægð frá vellinum. Þangað fara flestir á bíl en þjálfararnir líka á hjóli. Ég hef ekki farið á hjóli en í ár var ég samferða einum þjálfara á bíl og mér þótti aðstaðan fín og á rúmlega klukkutíma æfingu sá ég aðeins 1 bíl, þannig að það virðist engin umferð vera að trufla.

Lyfingaaðstaðan er við hliðina á grassvæðinu. Þar er stórt kennsluhúsnæði en í beinu framhaldi af innganginum er tækjasalur, hlaupabretti, róðrarvélar og þrekhjól. Svæði fyrir teygjur og æfingar með líkamsþyngd. Svæði með styrktarvélum og svæði með lausum lóðum. Þá er þar lítil laug og önnur minni köld laug. Það getur verið þröng á þingi ef stórir hópar mæta á sama tíma en yfirleitt gat maður fundið tíma þar sem plássið var í góðu lagi. Spjótkastsþjálfarinn Terseus Liebenberg sem er kennari við háskólann hefur sér lyftingaaðstöðu fyrir spjótkastara og hefur einnig séð um utanumhald og gistingu fyrir kastara. Ég þekki t.d að Ásdís Hjálmsdóttir og Stefán Jóhannsson voru hjá honum á sínum tíma. Alta hefur ekki aðgang að þeirri aðstöðu. Það eru reyndar fleiri aðilar sem hafa tekið á móti íþróttmönnum í Potch en ég þekki ekki til þeirra.

Flestir panta gistingu og aðgang að aðstöðu á sama stað. Alta er í samskiptum við mörg gistiheimii og einnig við Sport Village, sem er stór gistiaðstaða við hliðina á grasvellinum, lyftingaaðstöðunni og kastsvæðinu. Sumir hafa komið til Potch ár eftir ár og leigja þá jafnvel húsnæði sjálfir. Einn þjálfarinn sem ég kynntist í ár fékk t.d. hús til umráða gegn því að sjá um hundana á heimilinu þegar heimilisfólkið fór í frí. Ég hef alltaf verið á sama gistiheimilinu en þau eru mörg og misjöfn. Danir taka yfir eitt gistiheimili með 20 manna hópi á sama tíma og við höfum verið í Potch. Kosturinn við það gistilheimili sem við höfum notað er að það er 300 m frá grasvellinum. Staðsetning Sports Village er auðvitað frábær en þar er heldur dýrara en á gistiheimilunum.

Fyrir millivegalengdahlaupara þykir mér aðstaðan í Potch fyrsta flokks. Langhlauparar vilja kannski vera í enn meiri hæð, en gætu þá tekið fyrri hluta búðanna í Dullstroom og komið síðan til Potch. Spretthlauparar eru meira í Stellenbosch, 50 km austan við Cape Town, alveg 1300 km frá Potch en þeir íslensku spretthlauparar sem æft hafa í Potch hafa verið mjög ánægðir þar. Eins og áður sagði hefur Ásdís Hjálmsdóttir verið í Potch og einnig Vésteinn með sína kastara. Í desember, janúar er yfirleitt um eða yfir 30 gráðu hiti ef sólin skín sem er oftast. Það koma stundum skúrir, jafnvel mjög hressilegar en yfirleitt bara í nokkar klukktíma. Í ár var ég í fyrsta sinn að upplifa 5 daga í röð þar sem ekki var nein sól og rigndi flesta daga, það er sem sagt sjaldgæft, en þá var ágætis æfingahiti, um 23 gráður og reyndar tókum við bara eina æfingu í rigningu því það komu alltaf góðar uppstyttur. Ég hef líka verið i hitabylgju en þá getur hitinn farið yfir 40 gráður, en bara yfir hádaginn og það stóð ekki nema í nokkra daga. Niðurstaðan er að Potch er frábær staður fyrir íslenska frjálsíþróttamenn þegar vetur er erfiður á Íslandi. Það væri gaman að fá á síðuna umfjöllun um aðra æfingabúðastaði sem íslenskir frjálsíþróttamenn sækja.

Leave a Reply