Kormákur Ari: Markmiðið er tvö gull

Meistaramót Íslands fer fram í Kaplakrika um næstu helgi. Þar mun margt af okkar færasta frjálsíþróttafólki mæta til leiks – þeirra á meðal er spretthlauparinn Kormákur Ari Hafðliðason. Hann hefur átt einstaklega gott tímabil til þessa og hefur bætt sinn besta árangur í 60m, 200m og 400m hlaupum.

„Tímabilið er búið að vera mjög gott, ég er búinn að bæta mig bæði í 200 og 400 metra hlaupum svo ég er mjög sáttur með árangurinn en ég veit líka að ég á nóg inni,“ sagði Kormákur í samtali við Silfrið.

Kormákur er skráður bæði í 400m og 200m hlaup og ætlar auk þess að hlaupa með liðsfélögum sínum 4x400m boðhlaup. FH-ingurinn ætlar sér stóra hluti um helgina. „Æfingar hafa gengið frekar vel, ég er smá tæpur í hnésbótinni og ökklunum en ég held að ég verði góður þegar kemur að mótinu. Markmiðið er tvö gull, í 200m og 400m. Ég ætla mér ennfremur að bæta tímann minn í 200m og komast undir 22 sekúndur. Í 400m vil ég vera eins nálægt 48.5 sekúndum og ég get.“

Besti tími Kormáks í 400m er 48.55sek – árangur sem hann náði á Norðurlandamótinu í Bærum í Noregi fyrir stuttu. „Þrátt fyrir góða bætingu þar þá er margt hægt að bæta. Ég þarf að koma mér betur upp úr blokkinni og vera ákveðinn fyrstu 100 metrana,“ sagði Kormákur um áhersluna næstu helgi.

Hann er eini keppandinn í 400m sem hlaupið hefur undir 50 sekúndur í ár en ætla má að FH-ingurinn Hinrik Snær Steinsson og Akureyringurinn Arnar Valur Vignisson muni ekki gefa neitt eftir, en þeir hafa báðir verið að narta í 50 sekúndna múrinn. Búast má við enn harðari keppni í 200m, en í þeirri grein munar einungis þremur hundraðshlutum á ársbesta tíma þeirra félaga, Kormáks og Hinriks.

Kormákur er vel stemmdur fyrir helginni og býst við góðri keppni. „Það er alltaf gaman að keppa á MÍ. Ég myndi segja að það væri eitt af betri mótum til að sækja persónulegar bætingar, margir keppendur og góð samkeppni. Markmið flestra er auðvitað að vera best í þeirra grein og þess vegna finnst mér þetta mót sérstakt, maður fær tækifæri til að sækja þann titil.“

Meistaramótið fer fram, eins og áður kom fram, í Kaplakrika um næstu helgi. Hér má sjá tímaseðil og keppendalista mótsins. Silfrið hvetur að sjálfsögðu alla til að mæta í Hafnarfjörðinn og fylgjast þar með okkar fremsta frjálsíþróttafólki.

Leave a Reply