FH-ingurinn María Rún Gunnlaugsdóttir mætir til leiks á Meistaramóti Íslands sem fram fer í Kaplakrika um næstu helgi. Hún er skráð í fjórar greinar auk boðhlaups og á hún því ansi annasama helgi fyrir höndum, en fjölþrautarkonan er öllu vön. Hún varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut um síðustu helgi þar sem hún náði sinni annarri bestu þraut til þessa og var einungis 13 stigum frá sínum besta árangri.
Silfrið heyrði hljóðið í Maríu nú í aðdraganda Meistaramótsins. „Æfingarnar hafa gengið þokkalega vel og ég er nokkuð heil núna, hef aðeins verið að glíma við meiðsli í bakinu en það er allt að koma til. Vikan fyrir MÍ er svona frekar róleg æfingalega séð hjá mér þar sem ég er aðalega að vinna í tækninni.“
María er í bætingaformi um þessar mundir og stefnir á enn frekari bætingar um helgina. „Það er búið að ganga vel. Ég er búin að bæta mig í hástökki og kúlu. Einnig hefur grindin gengið vel. Markmiðið fyrir helgina er að vinna hástökkið og grindina, einnig stefnum við á sigur í 4x400m boðhlaupinu. Það væri mjög gaman að ná inn bætingum í þessum greinum og einnig í langstökkinu. Ég hljóp góða grind seinustu helgi, 8,76sek, sem er næst hraðasti tíminn minn og tel ég mig eiga meira inni þar sem og í hinum greinunum.“
FH-ingurinn fjölhæfi keppti á Norðurlandamótinu fyrir stuttu þar sem hún bætti sig í hástökki, hún stökk 1,75m sem er jafnmframt hæsta stökk ársins. Fjölniskonan Helga Þóra Sigurjónsdóttir og ÍR-ingurinn Kristín Liv Svabo Jónsdóttir eru báðar skráðar í hástökkið um helgina og gætu veitt Maríu góða keppni. Kristín er að koma til baka eftir meiðsli og verður þetta hennar fyrsta mót síðan sumarið 2017.
Einnig má búast við góðri keppni í kúluvarpinu. Fjölþrautarkonurnar Irma Gunnarsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir hafa báðar kastað 13,16 metra í ár – um hálfum metra lengra en María. Frakkinn Britnay Emilie Folrrianne Cots (FH) á hins vegar lengsta kast skráðra keppenda, 13,52m, og verður að teljast sigurstranglegust. Erna Sóley Gunnarsdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir eiga tvö lengstu köst ársins en verða fjarri góðu gamni um helgina.
„Það er yfirleitt alltaf sterk og góð keppni á MÍ þar sem þetta er eitt af stærstu mótunum hérna heima og þar af leiðandi góð stemming. Allir vilja reyna ná sínu besta fram á þessu móti og sækja Íslandsmeistaratitla,“ sagði María sem hefur litlar áhyggjur af því að þrautin um síðustu helgi muni sitja í henni. „Ég var bara nokkuð góð eftir þrautina og hún sat alls ekkert í mér. Smá þreyta daginn eftir en ég skokkaði aðeins á brettinu og teygði til að ná þessu úr mér.“
María er einn helsti aðdáandi orkudrykkjarins NOCCO hérlendis og það stóð ekki á svörum þegar hún var spurð að því hvernig hún ætli að koma sér í gírinn fyrir keppnina. „Ég mun koma mér í keppnisgírinn með því að fá mér 1-2 NOCCO og síðan eina góða blöndu af pre-workouti. Ég hlusta síðan á góða tónlist í upphitun, yfirleitt verða Rottweiler og Írafár fyrir valinu.“
Meistaramótið fer fram, eins og áður kom fram, í Kaplakrika um næstu helgi. Hér má sjá tímaseðil og keppendalista mótsins. Silfrið hvetur að sjálfsögðu alla til að mæta í Hafnarfjörðinn og fylgjast með okkar besta frjálsíþróttafólki.
Sjá einnig:
Kormákur Ari: Markmiðið er tvö gull