Guðbjörg Jóna: Veit að ég á að geta farið miklu hraðar en ég hef gert

Evrópu- og Ólympíumeistarinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir verður á meðal keppenda á Meistaramóti Íslands um helgina. Guðbjörg mun hafa í nógu að snúast, en hún er skráð í fjórar greinar – 60m, 200m, 400m og 4x400m hlaup.

Guðbjörg trónir á toppi árslistanna í 60m og 200m hlaupum og verður að teljast sigurstranglegust í báðum greinum. Í 400m hlaupinu mætir FH-ingurinn Þórdís Eva Steinsdóttir til leiks með besta tíma ársins, 55,75 sek, en Guðbjörg hefur hlaupið hraðast á 56,10 sek í ár. „Ég stefni á fjögur gull um helgina en þetta verður allt að koma í ljós. Mig langar ótrúlega mikið að fara undir 24 sekúndur í 200m og undir 55 sekúndur í 400m. Mig langar bara að bæta mig og þá verð ég sátt,“ sagði ÍR-ingurinn í samtali við Silfrið.

„Ég er ótrúlega vel stemmd fyrir helginni, sérstaklega fyrir 200m því ég veit að ég á að geta farið miklu hraðar en ég hef gert. Æfingarnar hafa gengið mjög vel og ég finn að formið er gott. Ég er alltaf að bæta startið og snertingarnar á brautinni eru orðnar betri þannig að ég er spennt fyrir framhaldinu. Sem betur fer eru engin meiðsli að plaga mig og ég hef þess vegna getað æft mjög vel,“ sagði Guðbjörg, en hún missti af Meistaramótinu fyrir ári síðan vegna meiðsla.

Íþróttamenn nota mismunandi aðferðir til að koma sér í rétt hugarástand fyrir keppni. „Ég horfi alltaf á Fittest on Earth crossfit-myndirnar. Ég veit ekki af hverju, en það kemur mér alltaf í gírinn,“ sagði Guðbjörg aðspurð um hvaða aðferð hún ætli að nota fyrir helgina.

Crossfit

Þessi sigursæli spretthlaupari hefur verið að nálgast Íslandsmetin í 60m og 200m hlaupum og er nú einungis fjórum hundraðshlutum frá metinu í 60m og 26 hundraðshlutum frá metinu í 200m hlaupi. Ef Guðbjörg hittir á góða helgi og fær góða hvatningu gætu bæði metin verið í hættu.

„Það væri skemmtilegt ef allir myndu gera sér ferð niður í Kaplakrika og hvetja okkur áfram. MÍ er ótrúlega skemmtilegt mót út af stigakeppninni. Margir keppa á MÍ til að sækja bætingar og einnig til að reyna að vinna, það er alltaf sérstakt að vinna á MÍ því þá verður maður Íslandsmeistari og það er mjög gaman að hafa þann titil.“

Við á Silfrinu tökum undir með Guðbjörgu og hvetjum alla til að mæta í Kaplakrika um helgina. Hér er hægt að sjá tímaseðil og keppendalista mótsins.

Sjá einnig:
Ísak Óli: Væri gaman að verja titilinn í grindinni
Kemur sér í gírinn með NOCCO og stefnir á þrjú gull
Kormákur Ari: Markmiðið er tvö gull

Leave a Reply