Ísak Óli: Væri gaman að verja titilinn í grindinni

Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason varð Íslandsmeistari í sjöþraut um síðustu helgi og bætti um leið sinn besta árangur um heil 130 stig. Ísak vonast til að fylgja þessum góða árangri eftir á Meistaramóti Íslands nú um helgina og hefur litlar áhyggjur af því að þrautin muni sitja í honum. „Ef eitthvað þá er meiri andleg þreyta í manni eftir helgina en hún sígur úr manni þegar að líða fer á vikuna og helgin nálgast. Ég tek þessa viku bara rólega og kem vel hvíldur á líkama og sál inn í mótið,“ sagði Ísak þegar Silfrið heyrði í honum í vikunni.

sakÓli

Ísak er skráður í fimm greinar og er spenntur fyrir helginni. „Mig Langar að stökkva lengra í langstökki. Það er sú grein sem er lengst síðan að ég bætti mig í þannig að það væri gaman að stökkva vel og bæta mig. Það væri líka gaman að kasta kúlunni aðeins lengra og bæta mig í stöng aftur. Ég vonast til að finna sömu stemmingu og um síðustu helgi, sem að ég efast um að verði erfitt.“

Skagfirðingurinn á góðan möguleika á verðlaunum í nokkrum greinum. Í langstökkinu mun Ísak etja kappi við FH-inginn Kristinn Torfason. Kristinn á lengsta stökk ársins, 7,14m, en á RIG fyrr í vetur stökk Ísak einum sentímetra lengra en Kristinn. Það má því búast við spennandi langstöksskeppni.

Ísak er ríkjandi Íslandsmeistari í 60m grindahlaupi og á besta tíma ársins, 8,26 sek. Einar Daði Lárusson mun veita Ísak góða keppni en hann hefur hlaupið á 8,34 sek í ár. „Það væri gaman að verja titilinn í grindinni, komast á pall í langstökki og 60m hlaupi. En þegar að maður er að keppa langar manni auðvitað alltaf bara að bæta sig og ég stefni á það að gera mitt besta í þessum greinum.“

Aðspurður um hvort hann horfi eitthvað öðruvísi á Meistaramótið en önnur mót sagði Ísak svo ekki vera. „Það er náttúrulega verið að keppa um Íslandsmeistaratitla sem er mikill heiður að vinna, en þegar á hólminn er komið þá pæli ég ekkert í því. Ég undirbý mig bara fyrir hverja grein fyrir sig eins vel og ég get og reyni svo að ná fram eins góðri frammistöðu og ég get skilað. Gera sitt besta, það er erfitt að gera eitthvað umfram það. Annars er hugurinn orðinn ansi innstilltur á það að keppa í þraut þannig að það er pínu öðruvísi að keppa ekki í þraut þessa daganna.“

Meistaramót Íslands fer fram í Kaplakrika um helgina og hvetur Silfrið alla til að mæta og berja fremsta frjálsíþróttafólk landsins augum. Hér má sjá tímaseðil og keppendalista mótsins.

Sjá einnig:
Kemur sér í gírinn með NOCCO og stefnir á þrjú gull
Kormákur Ari: Markmiðið er tvö gull

Leave a Reply