Þátttaka Íslands í EM innanhúss 1966 til 2019. Frábær árangur, tvenn gullverðlaun og fjögur bronsverðlaun, 34 keppendur.

Að loknu EM innanhúss í Glasgow er ekki úr vegi að birta samantekt með þátttöku Íslendinga á þessu móti. Ísland hefur tvisvar átt Evrópumeistara innanhúss og fjórir hafa unnið til bronsverðlauna. Að þessu sinni voru fulltrúar Íslands þau Hafdís Sigurðardóttir og Hlynur Andrésson og bæði að keppa í annað sinn á EM innanhúss. Þau náðu bæði góðum árangri og voru í seilingarfjarlægð frá sæti í úrslitum.

EM innanhúss  Dortmund 1966                                   Jón Þ. Ólafsson fyrstur til að keppa fyrir Ísland á EM innanhúss.

Jón Þ. Ólafsson keppti í hástökki,  stökk 2,00 m og varð í 7. sæti.  Sigurvegari var Aleriy Skvortsov  Rússlandi  með 2,17 m.

EM innanhúss í Grenoble 1971

Þorsteinn Þorsteinsson keppti í 800 m hlaupi og varð í 7. sæti í  úrslitum á 1:53,26 mín eftir að hafa komist áfram úr riðlakeppninni þar sem hann varð 4. í  sínum riðli á 2:05,37 min. Sigurvegari Josef Plachy Tékkóslóvakíu 1.48,84 mín. Þorsteinn keppti í 800 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Munchen 1972.

EM innanhúss í Rotterdam 1973

Bjarni Stefánsson varð 4. í 4. riðli í riðlakeppninni í 400 m hlaupi á 48,73 sek. Sigurvegari var Lusiano Susanj Júgóslavíu á 46,38 sek. Myndin til hliðar er frá Ólympíuleiknum 1972 þar sem Bjarni setti Íslandsmet 47,76 sek.

EM innanhúss í Gautaborg 1974

Ágúst Ásgeirsson varð 6. í 1500 m hlaupi á 3:55,27 mín (bein úrslit).  Sigurvegari var Henryk Szordykowski Póllandi á 3:41,78 mín. Ágúst keppti í 1500 m og 3000 m hindrunarhlaupi á Ólympíuleikunum 1976.

EM innanhúss í Munchen 1976

Hreinn Halldórsson varð 9. í kúlvarpi með 18,41 m (bein úrslit). Sigurvegari Geoff Capes Stóra Bretlandi með 20,64 m.

EM innanhúss í San Sebastian 1977 Hreinn Evrópumeistari

Hreinn Halldórsson keppti í annað sinn á EM innanhúss og gerði sér lítið fyrir og varð Evrópumeistari í kúluvarpi með 20,59 m. Það voru engir smá karlar sem Hreinn atti kappi við, m.a. Ólympíumeistarann frá 1972, Wladyslaw Komar og Geoff Capes Bretlandi sem hafði unnið EM innanhúss tvisvar. Fyrstu sex voru allir stór nöfn í kúluvarpsheiminum á þeim tíma.

1.Hreinn Halldórsson Íslandi 20,59 m                                                         2. Geoff Capes Stóra Bretlandi 20,46 m                                                     3. Wladyslaw Komar Póllandi 20,17 m                                                   4. Reijo Stahlberg Finnlandi 29,83 m                                                              5. Yevgeniy Mirionow Rússlandi 19,57 m                                                  6. Ralf Reichenback Þýskalandi 19,43 m.

EM innahúss Mílanó 1978

Jón Diðriksson keppti í 800 m hlaupi og varð 5. í 1. riðli á 1:53,7 sek.  Sigurvegari var Markku Taskinen Finnlandi 1:47,36 mín.                 

Lilja Guðmundsdóttir keppti einnig í 800 m hlaupi og varð 5. í 1. riðli á 2:11,6 mín. Sigurvegari var Ulrike Bruns Austur-Þýskalandi 2:02,3 mín. Lilja átti Íslandsmetin í 800 og 1500 m hlaupi og keppti á Ólympíuleikunum 1976.

Ingunn Einarsdóttir varð  5. í 1. riðli í 60 m grindahlaupi á 9, 03 sek. Sigurvegari var Johanna Klier Austur Þýskalandi 7,94 sek. Ingunn var margfaldur methafi í spretthlaupum, grindahlaupi og fimmtarþraut.

EM innanhúss 1980 í Sindelfingen

Jón Diðriksson keppti í 1500 m hlaupi og varð 8. í 1. riðli á 3:45,6 mín, nýtt Íslandsmet. Sigurvegari var Thomas Wessinghage Vestur Þýskalandi 3:37,54 mín. Jón átti Íslandsmet í vegalengdum frá 800 m upp í 5000 m. Hann keppti á Ólympíuleiknum í Moskvu 1980.

EM innanhúss í Grenoble 1981

Ísland átti tvo keppendur í kúluvarpi en bæði Hreinn og Óskar voru í fremstu röð kúluvarpara í Evrópu.                                                                          

Hreinn Halldórsson varð í  6. sæti  með 19,15 m. 

Óskar Jakobsson varð í 7. sæti í með 19,13 m. Sigurvegari var Reijo Stahlberg Finnlandi með 19,98 m.                  

EM innanhúss í Gautaborg 1984

Gísli Sigurðsson keppti í 60 m grindahlaupi og varð í  6. sæti  í 1. riðli á 8,51 sek.  Sigurvegari Romuald Giegiel Pólandi 7,62 m. Gísli var mjög fjölhæfur íþróttamaður og á 7105 stig í tugþraut.

Sigurður T. Sigurðsson varð í 15. í stangarstökki með 5,20 m. Sigurvegari var Thierry Vigneron Frakklandi 5,85 m.

Sigurður á enn í dag Íslandsmetið í stangarstökki, 5,31 m, sett 1984.

EM innanhúss í Den Haag 1989

Pétur Guðmundsson keppti í kúluvarpi og varð í 12. sæti með 17.17 m. Sigurvegari var  Ulf Timmmerman Austur Þýsklandi 21,68 m.

EM innanhúss í Glasgow 1990

Gunnar Guðmundsson keppti í 200 m og 400 m hlaupi. Hann varð í 4. sæti í riðli 2 í 200 m hlaupi á 22,38 sek. og í  5. sæti í riðli 2 í 400 m hlaupi á 49,40 sek. Sigurvegari Norbert Dobeleit Vestur Þýskalandi 46.08 sek. Gunnar sem er frá Fáskrúðsfirði var landsliðsmaður í spretthlaupum

Þórdís Lilja Gísladóttir 15. í hástökki með 1,80 m. Sigurvegari var Heike Henkel Vestur Þýskalandi með 2,00 m. Þórdís á Íslandsmetið innanhúss 1,88 m og utanhúss, einnig 1,88 m.

Pétur Guðmundsson varð 14. í kúluvarpi með 18,59 m. Sigurvegari var Klaus Bodenmuller Austurríki með 21,03 m.                                                          

EM innanhúss í Genova 1992

Pétur Guðmundsson keppti í kúluvarpi. Hann varð í 5. sæti með 19,53 m. Sigurvegari Aleksandr Bagach Úkraínu með 20,75 m.  Í 6. sæti og 2 cm á eftir Pétri var Alessandro Andrei, Ólympíumeistarinn Ítalski frá 1984 en hann setti heimsmet í kúluvarpi 1987 þegar hann kastaði 22,91

EM innanhúss í París 1994. Pétur með brons.

Pétur Guðmundsson keppti í  fjórða sinn á EM innanhúss í kúluvarpi og nú vann hann til bronsverðlauna. Hann varð í 3. sæti með  með 20,04 m. Pétur kastaði 19,00 í undankeppninni en kasta þurfti 18,80 m til að komast í úrslitakeppnina. Sigurvegari var Aleksandr Bagach Úkraínu með 20,66 m.

Einar Þór Einarsson keppti í 60 m hlaupi en fær engan árangur skráðann (DNF) í 4. riðli 60 m hlaupisins. Eftir tvö þjófstört í riðlinum var skotið svo snemma í þriðja skiptið að Einar var ekki kominn í viðbúinn stöðuna og hljóp því ekki. Íslendingar kærðu startið en án árangurs. Sigurvegari var Bretinn Colin Jackson á 6,49 sek. 

Geirlaug B. Geirlaugsdóttir varð 6. í riðli 2 í riðlakeppninni á 7,78 sek. Sigurvegari var  Nelli Cooman Hollandi á 7,17 sek. Geirlaug var Íslandsmethafi í spretthlaupum.

EM innanhúss í Stokkhólmi 1996. Vala með gull og Jón Arnar brons.

Vala með gullpeninginn í Gautaborg
Dvorak, Nool og Jón Arnar á verðlaunapallinum

Vala Flosadóttir verð Evrópumeistari í stangarstökki með  4,16 m. Önnur varð Christine Adams Þýskalandi með 4,05 m og þriðja Gabriela Michalcea Rúmeníu með 4,05 m.                                                     Jón Arnar Magnússon var 3. í  sjöþraut með 6069 stig. Annar var Tomas Dvorak Tékklandi með 6114 stig og sigurvegari var Erki Nool Eistlandi með 6188 stig. Hægt er að leiða líkur að því að gullið hefði getað endað hjá Jóni Arnari – honum hlekktist á í grindinni en með „meðalárangur“ hefði hann jafnvel verið með gullið. Hann segir svo frá í viðtali að allt hefði verið eðlilegt á fyrstu grind en svo rak hann fótinn í grind, var nærri dottinn og hoppaði jafnfætis yfir næstu grind og klárið svo hlaupið ótrúlega vel.

Sunna Gestsdóttir setti Íslandsmet.

Ísland með tvo keppendur í 60 m. Geirlaug B. Geirlaugsdóttir varð 6. í riðli 2 í riðlakeppninni á 7,78 sek.                                                      

Sunna Gestsdóttir varð 4. í 4. riðli í riðlakeppninni í 60 m hlaupi á nýju Íslandsmeti 7,54 sek. Sigurvegari var Ekaterini Thanou Grikklandi á 7,21 sek. Sunna var Íslandsmethafi í spretthlaupum og langstökki.

EM innanhúss 1998 í Valencia. Vala með brons.

Jón Arnar Magnússon var 5. í  sjöþraut með 6170 stig, 56 stig frá bronssæti. Sigurvegari var Sebastioan Chmara Póllandi með 6425 stig.                                                     

Vala Flosadóttir varð 3. í stangarstökki með 4,40 m, stökk jafnhátt og Daniela Bartova Tékklandi sem varð önnur en sigurvegari var Anzhela Balahonova Úkraínu sem stökk 4,45 m. Myndin er frá OL 2000 þar sem Vala hlaut bronsverðlaun í stangarstökki.                 

Þórey Edda Elísdóttir stökk 3,80 m í stangarstökki í undankeppninni. Stökkva þurfti 4,00 m til að komast í úrslitakeppnina en Vala stökk 4,10 m í undankeppninni. Þórey Edda varð 5. á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004.

EM innanhúss 2000 í Genth

Einar Karl Hjartarson varð í 21. sæti í undankeppninni í hástökki með 2,11 m. Sigurvegari var Vyacheslav Voronin Rússlandi með 2,34 m. Einar Karl á Íslandsmetið í hástökki 2,28 m. 

Guðrún Arnardóttir varð 5. í 60 m grindahlaupi í riðli 1 á nýju Íslandsmeti 8,31 sek. Guðrún Arnardóttir varð 4. í riðli 3 í  400 m í riðlakeppninni á 53,60 sek og setti Íslandsmet í undanúrslitum er hún varð 5. í 2. riðli á 53,14 sek.  Guðrún á Íslandsmetið í 400 m grindahlaupi og komst í úrslit í þeirri grein á OL 2000.

Jón Arnar Magnússon lauk ekki keppni í sjöþraut. Hann virtist stefna á bronsverðlaun þegar hann fékk í bakið eftir fimmtu grein þrautarinnar, 60 m grindahlaup, og varð að hætta keppni.                                                             Vala Flosadóttir varð 4. í stangarstökki með 4,30 m, stökk sömu hæð og Christine Adams Þýskalandi sem varð í 3. sæti. Vala stökk einnig 4,30 í undankeppni stangarstökksins. Sigurvegari var Pavla Rybova frá Tékklandi, stökk 4,40 m.

EM innanhúss 2002 í Vín

Jón Arnar Magnússon var 4. í  sjöþraut með 5996 stig, 88 stigum frá bronssæti. Roman Sebrle Tékklandi sigraði með 6280 stig. Fjórða EM innahúss þar sem Jón Arnar er í baráttu um pallinn.    Vala Flosadóttir varð 9. í undankeppninni í stangarstökki með 4,30 m en stökkva þurfti 4,35 til að komast í úrslit. Siguvegari var Monika Pyrek Póllandi með 4,35 m.

EM innanhúss 2005 í Madrid

Gauti Jóhannesson keppti í 1500 m hlaupi og varð 11. sæti í riðli 2 á 3:50,67 mín. Ivan Hresko  Úkraínu sigraði á 3:36,70 mín. Gauti á best 3:47,99 min innanhúss í 1500 m hlaupi.

EM innanhúss 2007 í Birmingham

Sveinn Elías Elísasson keppi í 400 m hlaupi og varð 6. í riðli 3 á 49,15 sek. David Gillick Írlandi sigraði á 45,52 sek. Sveinn Elías á best 48,33 sek. innanhúss í 400 m hlaupi.

Björn Margeirsson varð 8. (af 11) í riðli 2 í 1500 m hlaupi á 3:46.25 mín. Carlos Higurero Spáni sigraði á 3:44,41 mín.  Björn átti best 3:47,84 mín fyrir mótið og bætti því árangur sinn um 1,6 sek.                                                                                                                

Kári Steinn Karlsson varð 11. í riðli 2 í 3000 m hlaupi á 8:31,91 mín. Sigurvegari var Cosimo Caliandro Ítalíu á 8:02,44 min. Kári á best 8:10,94 í 3000 m hlaupi innahúss. Kári á Íslandsmetið í maraþonhlaupi og keppti í þeirri grein á OL 2012.

Óðinn Björn Þorseinsson varð í 18. sæti í undankeppninni í kúluvarpi, kastaði 17,94 m. Sigurvegari í kúluvarpi var Mkulas Konopka Slóvakíu með 21,57 m. Óðinn Björn á best 20,22 m í kúluvarpi.

EM innanhúss 2011 í París

Kristinn Torfason varð 15. í undakeppninni í langstökki, stökk 7,73 m. Sigurvegari var Sebastian Bayer Þýskalandi með 8,16 m. Kristinn keppti ennig í þrístökki og varð í 23. sæti í undankeppninni með 14,80 m.  Sigurvegari var Teddy Tamgho Frakklandi með 17.92 m.

Óðinn Björn Þorsteinsson varð í 20. sæti í undankeppninni í kúluvarpi með 17,31 m. Sigurvegari var Ralf Bartels Þýskalandi með 21,16 m.

EM innanhúss 2013 í Gautaborg

Kolbeinn Höður Gunnarsson varð í 6. sæti í riðli 2 í 400 m hlaupi á 48,88 sek. Sigurvegari var Pavel Maslak Tékklandi á 45,66 sek. Kolbeinn á Íslandsmetið innanhúss í 400 m 47,59 sek.

Aníta Hinriksdóttir keppti á sínu fyrsta stórmóti í flokki fullorðinna. Hún varð 3. í riðli 2 í 800 m hlaupi á 2.04,72 mín og komst í undanúrslit. Þar varð hún í 5. sæti á sama tíma og í riðlakeppninni, 2:04,72 mín. Sigurvegari var Natlaiya Lupu Úkaranía 2:00,26 mín.

EM innanhúss 2015 í Prag

Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir varð í 7. sæti í riðli 3 á 7,52 sek. Sigurvegari var Dafne Shippers Hollandi á 7,05 sek. Hrafnhild á best 7,50 m í 60 m hlaupi sem þá var Íslandsmet.

Hafdís Sigurðardóttir varð í 12. sæti í undankeppninni í langstökki með 6,35 m. Sigurvegari var Ivana Spanovic Serbíu með 6,98 m. Hafdís á Íslandsmetið í langstökki innanhúss 6,54 m og 2015 átti hún einnig metið, sem þá var 6,47 m.

Trausti Stefánsson varð í 5. sæti í riðli 2 á 48,28 sek. Trausti á best 47,62 sek. í 400 m hlaupi innanhúss,

Kolbeinn Höður Gunnarsson keppti í annað sinn á EM innanhúss í 400 m hlaupi og varð í 6. sæti í riðli 4 á 49,21 sek. Sigurvegari í 400 m var Pavel Maslak Tékklandi á 45,33 sek.

EM innanhúss 2017 í Belgrað. Aníta með brons.

Aníta Hinriksdóttir keppti í þriðja sinn á EM innanhúss í 800 m hlaupi. Hún sigraði í riðli 2 í riðlakeppninni á 2:02,82 min og komst í undanúrslit. Í undanúrslitum varð hún 2. í undanúrslitariðli 1 á 2:02,97 mín og komst því í úrslit. Í úrslitahlaupinu varð Aníta í 3. sæti á 2:01,25 mín. Sigurvegari var Selina Buchel Sviss á 2:00,38 mín og önnur Shelayna Oskan-Clarke Bretlandi á 2:00,39 mín.                     

Hlynur Andrésson varð í 10. sæti í riðli 2 í 3000 m hlaupi á 8:29,00 min. Sigurvegari var Adel Mechaal Spáni á 8:00,60 mín. Hlynur átti 8;13,66 í 3000 m hlaupi en hafði hlaupið undir Íslandsmeti á innanhússbraut sem er lengri en 200 m. Hlynur sést hér keppa fyrir Eastern Michigan í víðavangshlaupi en hann er mjög sterkur víðavangshlaupari.

EM innanhúss 2019 í Glasgow.

Hlynur Andrésson varð í 13. sæti í riðli 1 í 3000 m hlaupi á 8:06,97 mín. Jakob Ingibrigtsen Noregi sigraði á 7:56,15 mín. Hlynur á Íslandsmetið 7:59,11 mín og varð þar með fyrstur Íslendinga til að hlaupa 3000 m á skemmri tíma en 8 mínútur.                                                                                          

Hafdís Siguðardóttir varð í 16. sæti í undakeppninni í langstökki með 6,34 m. Hún hefði þurft að bæta sitt ársbesta um 1 cm til að komast í úrslit. Sigurvegari var Ivona Spanovic Serbíu, rétt eins og þegar Hafdís keppti fyrir tveimur árum en nú stökk hún 1 cm lengra, 6,99 m.

Leave a Reply