Frjálsíþróttamaður mánaðarins að þessu sinni er FH-ingurinn Hinrik Snær Steinsson. Þessi 19 ára gamli spretthlaupari hefur verið í mikilli framför undanfarið og er nú kominn í hóp bestu spretthlaupara landsins.
Hinrik varð Íslandsmeistari innanhúss í 400m hlaupi í síðasta mánuði þegar hann stórbætti sinn besta árangur – hann hljóp á 48,87 sekúndum en fyrir hlaupið hafði hann ekki hlaupið vegalengdina undir 50 sekúndum áður. Á sama móti fékk Hinrik silfur í 200m hlaupi ásamt því að fá gull 4x400m boðhlaupi. Hinrik var einnig í boðhlaupssveit Íslands sem setti Íslandsmet í 4x200m hlaupi á Reykjavík International Games fyrr í vetur.
Meðfram hlaupunum stundar Hinrik nám við Kvennaskólann í Reykjavík og stefnir á útskrift þaðan í vor. Hér að neðan fáum við að kynnast honum örlítið betur.
Gælunafn: Beast á æfingum, annars bara Rikki.
Aldur: 19 ára.
Hjúskaparstaða: Á lausu.
Instagram: @hinrik1202
Félag: FH.
Grein og PB: 400m (48,87) og 200m (22,26).
Þjálfari: Ragnheiður Ólafsdóttir.
Uppáhalds drykkur? Bara íslenska vatnið held ég.
Uppáhalds lag? Þetta lag hér er klárlega í miklu uppáhaldi.
Afhverju byrjaðir þú að æfa frjálsar? Man ekki eftir því hvenær ég byrjaði, mamma og pabbi voru í frjálsum og ég hef einhvern veginn bara alltaf verið í frjálsum finnst mér.
Hver er toppurinn á ferlinum hingað til? Annað hvort þegar ég fór til Ísrael að keppa á Evrópubikar eða núna þegar ég varð Íslandsmeistari í 400m inni.
Hvernig var síðasta æfing sem þú tókst? 2x 120-150-120-150-120m brekkusprettir (ógeðslegt).
Hver er erfiðasta æfing sem þú hefur tekið? Veit það ekki, Coach á alltof margar erfiðar.
Hvaða íþrótt myndir þú æfa ef þú værir ekki í frjálsum og af hverju? Væri örugglega í fótbolta, finnst skemmtilegt í fótbolta.
Hvað gerir þú í frítíma þínum þegar að þú ert ekki að æfa og keppa? Chilla, elska að chilla.
Hvað gerir þú til að gíra þig upp fyrir keppni? Slaka á, annars finnst mér best að vera ekkert að bregða út af því sem ég geri á venjulegum degi fyrir æfingar.
Vandræðalegasta atvik inn á frjálsíþróttavellinum? Ekkert sem að kemur upp í hugann.
Uppáhalds frjálsíþróttamenn? Henrik Ingebrigtsen (Gjert pabbi hans og þjálfari líka í miklu uppáhaldi) annars fíla ég líka Borlée bræðurna.
Adidas eða Nike? Nike.
Sturluð staðreynd um þig: Get borðað þrjár skálar af núðlum á innan við þremur mínútum.
Sjá einnig:
Frjálsíþróttamaður mánaðarins: Andrea Torfadóttir
Frjálsíþróttamaður mánaðarins: Sæmundur Ólafsson
Frjálsíþróttamaður mánaðarins: Irma Gunnarsdóttir
Forsíðumynd: Kristófer Þorgrímsson.