Silfrið fékk Arnar Pétursson til að segja frá æfingabúðum sem hann og Vignir Már Lýðsson sóttu í vetur í Iten, Kenýa. Látum Arnar fá orðið:
Iten – home of Champions
Ef þú ætlar á annað borð að fara í æfingabúðir eru fáir staðir sem jafnast á við Iten, Kenýa, „The home of champions“. Ekki nóg með að bærinn sé í 2400m hæð heldur er þarna stærsta samansafn í heiminum af heimsklassa hlaupurum. Hæðin gefur líkamanum merki um að fjölga rauðum blóðkornum og auka súrefnisupptökuna á meðan fjöldi hlaupara fyllir þig af innblæstri á hverjum degi.


Langt ferðalag – góð aðstaða fyrir langhlaupara
Í byrjun janúar fór ég, ásamt Vigni Má Lýðssyni, til Iten að æfa á þessum margfræga stað. Þrátt fyrir að vera frábær æfingastaður getur verið hægara sagt en gert að komast þangað. Í okkar tilviki flugum við til London, gistum þar, flugum svo til Nairóbí, gistum þar, flugum svo til Eldoret og þaðan er klukkutíma akstur til Iten. Í heildina nálægt 40klst í ferðalag. Heimferðin var sem betur fer auðveldari en hún tók í kringum 18klst. Á meðan dvölinni stóð gistum við í gistiheimilinu sem Hugo, Hollendingur sem þjálfar Vigni, rekur og vorum þar í góðu yfirlæti þar sem Karen eldaði fyrir okkur Kenýskan mat, tvisvar á dag. Það eru helst tveir aðrir staðir sem koma til greina varðandi gistingu en það er Kerio view og svo HATC hjá Lornah. Þýska landsliðið var í Kerio view og þar er auðvelt að rekast á tvo af bestu þjálfurum sögunnar í Brother Colm og Renato Canova. Á báðum stöðum er hægt að kaupa aðgang að líkamsræktarstöð til að stunda krossþjálfun eða lyftingar. Það er þó hægt að komast upp með að fara í ennþá ódýrari gistingu en við hittum hlaupara frá Úsbekistan, Kasakstan og Úkraínu sem voru að leigja herbergi án fæðis á litlar 10.000 kr. á mánuði. Það var ekki óeðlilegt að heyra af því að íþróttamenn væru að fá í magann út af matnum í öðrum gistingum en við vorum mjög ánægðir með matseldina hjá Kareni og vorum þannig góðir út alla ferðina.
Veðrið á meðan við vorum í Iten var einsleitt nánast upp á dag fyrir utan þegar við komum en þá var þoka yfir öllu svæðinu og það rigndi eilítið. Annars var þetta 10-14 gráður milli 06:00-8:00 en þá var morgunskokkið tekið og svo fór hitastigið hæst upp í 25 gráður yfir daginn. Um eftirmiðdaginn þegar seinni æfingin var tekin var hitastigið um 18-20 gráður og mjög þægilegt að hlaupa. Það er ekki oft logn þarna en að sama skapi var aldrei vindur eins og við þekkjum á Íslandi. Í heildina mætti því segja að veðurfarið hafi verið fullkomið til að hlaupa.

Brekkur út um allt
Brekkur eru af hinu góða og er enginn skortur af þeim í Iten. Það er nánast ómögulegt að finna heilan kílómeter sem er alveg flatur og var meðalhækkun fyrir hverja 10km í kringum 140-170m. Hinsvegar er allt morandi af moldarstígum og mismunandi hlaupaleiðum til að fara. Það er einnig malbikaður vegur sem hægt er að nota ef maður vill fara hratt upp brekkur eða fá meiri hraða í æfingarnar. Í Iten er svo víðavangshlaupabraut sem er í rauninni bara grasvöllur sem er svipað stór og tveir og hálfur fótboltavellir. Þetta er eini flati bletturinn í Iten og hægt að hlaupa þar í hringi ef fæturnir eru komnir með nóg af brekkunum.

Tambach

Enginn æfir á tartanbrautinni
Það er einnig tartanhlaupabraut í Iten en það kostar um 2000 kr. að fá að æfa þar og stendur hún því nánast alltaf auð. Þegar að fólk vill fá meiri hraða og flatara undirlag er einfaldlega keyrt í 25-35 mín og hlaupið á malarstígunum við Moiben veg eða á malbikuðum veg hjá Chepkoilel. Það ber hinsvegar að vara sig á hraðahindrununum á malbikuðu vegunum eins og ég fékk að finna fyrir þegar ég sparkaði í eina slíka, flaug á hausinn og rispaði mig allan eftir aðeins 2km af 15km sem settir voru fyrir þá æfinguna. Að sjálfsögðu hætti ég á æfingunni og tók því rólega…nei ég óttast ekki árangur þannig að það var bara staðið upp, dustað af sér rykið og haldið áfram að hlaupa á meðan blóð lak úr handleggnum. Eftir æfinguna fékk ég svo smá aðhlynningu frá heimamanni sem sprautaði einhverjum vökva sem hann sótti inn í skúr á sárin og voila, allt varð betra. Hef reyndar ekki hugmynd um hvað var í þessum vökva en það virkaði.


Eliud Kipchoge
Fartlekæfing með 300 hlaupurum
Það er einnig hægt að fara á malahlaupabraut í Tambach sem er í um 20 mín fjarlægð frá Iten. Hún er í 2100m hæð og þar eru erfiðar interval æfingar teknar. Það er ekki óalgengt að sjá 30-60 hlaupara vera á æfingu þar í einu að deila brautinni. Á fimmtudögum klukkan 09:00 er alltaf fartlek æfing á sama staðnum þar sem 200-300 hlauparar mæta og taka æfingu saman. Ég fór á eina slíka undir lokin á æfingabúðunum þegar ég var búinn að venjast háfjallaloftinu og var það mögnuð upplifun. 08:57 stóð maður upp á hól og kallaði yfir hópinn hvernig æfingin væri uppsett og þremur mínútum seinna voru allir roknir af stað. Dagskráin var 3mín hratt og 1mín rólegt á milli. Það verður að segja að flestir tóku þessa æfingu sem 3mín hratt og 1mín nánast jafn hratt því fólk var alltaf að reyna að ná næsta manni í „hvíldinni“. Þetta var ótrúleg sjón að sjá og frábært að fá að taka þátt í þessu, ég held að það sé óhætt að segja að ef þetta væri keppni þá væri þetta sterkasta hlaup í heiminum. Þetta var líklega ein mest krefjandi æfing æfingabúðanna en það ómaði í hausnum mér „Ef þú ert þreyttur, þá bara heldurðu áfram“, þarna fann maður hvað það hjálpaði mikið að æfa í hóp því hópurinn hjálpaði að draga þig áfram.


Ólympíumeistarar og meistarar framtíðarinnar æfa saman
Á meðan við dvöldum í Iten var haldið víðavangshlaup þar sem hlauparar gátu tryggt sér sæti á aðalúrtökumótinu fyrir HM ef þeir enduðu í einu af efstu sætunum. Einn Kanadamaður ákvað að taka þátt í hlaupinu en hann endaði langsíðastur en algjör aukvissi sem á ekki nema 2:15 í maraþoni. Ótrúleg gæði og ótrúlegur fjöldi af frábærum hlaupurum þegar þú átt 2:15 í maraþoni en ert látinn líta út eins og skokkari. Einn laugardaginn fórum við svo niður til Eldoret að horfa á annað víðavangshluap en Eldoret það er ágætlega stór bær þar sem hægt er að komast í góða gufu og sjá meira líf. Það er um klukkutíma akstur þangað en far með Matatu kostar um 100 kr. Þennan laugardaginn var eitt aðahlaup ársins sem heitir Discovery race og þar koma umboðsmenn til að sjá hvort þeir geti ekki uppgötvað nýja afreksmenn í hlaupum. Það sem var líklega skemmtilegast við þennan dag er að það mæta svo til allir sem eru eitthvað innan hlaupaheimsins að horfa á hlaupið. Þannig mæta allir sem eru að æfa annaðhvort í Iten, Eldoret eða Kaptagat til að skemmta sér og spjalla. Frá því að við stigum út úr bílnum og löbbuðum fyrstu 250m þá hittum við Ólympíumeistara, heimsmeistara, evrópumeistara, evrópumethafa og svo mætti lengja telja. Fyrir utan að hafa fengið að hjálpa til við að reisa bensíndælu var hápunkturinn var samt án efa að hitta langbesta maraþonhlaupara allra tíma, Eliud Kipchoge. Ótrúlega þægilegur, opinn og bara yfirvegaður „maður“. Hittingur sem gleymist seint. Eftir Discovery víðavangshlaupið fórum við á Hótel sem heitir Boma Inn en þar er hægt að komast í gufu og vera í góðu yfirlæti með vestrænni hætti en þekkist annarstaðar í nágrenninu.
Þegar allt er tekið saman er óhætt að segja að Iten sé staður sem muni fylla þig innblástri, ekki bara á meðan þú ert þar við æfingar heldur marga mánuði eftir að dvölinni lýkur. Að sjá hvernig bestu hlauparar í heiminum lifa og æfa er eitthvað sem allir hlaupara ættu að upplifa, það er að segja ef þeir óttast ekki árangur.