Hayward Field í 100 ár – Upphitun fyrir HM

Eftir rétt tæpan mánuð hefst átjánda heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum í Eugene í Oregonfylki í Bandaríkjunum. Mótið, sem upphaflega átti að halda árið 2021 en var frestað vegna COVID-19, verður fyrsta heimsmeistaramótið sem haldið er í Bandaríkjunum og aðeins það annað sem ekki er haldið í Evrópu eða Asíu.

Til að hita upp fyrir heimsmeistaramótið ætlar Silfrið að birta nokkrar greinar sem á einn eða annan hátt tengjast HM. Umfjöllunarefni þessarar fyrstu greinar er Hayward Field, leikvangurinn þar sem heimsmeistaramótið mun fara fram.


Háskólar í Bandaríkjunum hafa lengi verið þekktir fyrir mikla íþróttamenningu. Aðstaðan sem boðið er uppá til bæði æfinga og keppni er oftar en ekki á heimsmælikvarða en margir af stærstu íþróttaleikvöngum heims tilheyra bandarískum háskólum. University of Oregon í Eugene er þar engin undantekning. Autzen Stadium, heimavöllur fótboltaliðs háskólans, tekur til að mynda 54.000 manns í sæti. Hayward Field, heimavöllur fjálsíþróttaliðs skólans, er ekki síður merkilegur og jafnvel merkilegri ef eitthvað er.

Þó Hayward Field taki varla titilinn af Ólympíuleikvanginum í Berlín sem sögufrægasti frjálsíþróttavöllur heims er hann að flestra mati sá frægasti í Bandaríkjunum. Þar hafa 20 heimsmet verið sett, þar af eitt sem enn stendur (Ryan Crouser, kúluvarp, 23,37 m). Þá hefur heimsmet í tugþraut karla hvergi verið jafn oft bætt, eða alls fjórum sinnum, síðast af Bandaríkjamanninum Ashton Eaton árið 2012, þegar hann varð annar maðurinn til að skora yfir 9.000 stig.

Bandarísk stórmót eru reglulega haldin á vellinum, þar á meðal síðustu fjögur úrtökumót fyrir Ólympíuleikana auk bandarískra meistaramóta og háskólameistaramóta. Síðan 2010 hafa öll háskólameistaramót í efstu deild verið haldin á Hayward field, að undanskildum mótunum árin 2019 og 2020 en þá voru í gangi framkvæmdir á vellinum. Þá hefur hið árlega mót Prefontaine Classic sem nú er hluti af Diamond League mótaröðinni ver haldið á vellinum síðan 1975. Og nú í júlí fer sjálft heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum fram á vellinum, í fyrsta skipti á bandarískri grund.

Sha’Carri Richardson sigraði í 100 m hlaupi á bandaríska úrtökumótinu fyrir Ólympíuleikana í Tokyo, sem fram fór á Hayward Field. Hún tók þó ekki þátt í Tokyo vegna 1 mánaðar lyfjabanns fyrir kannabisneyslu.

100 ára saga

Hayward Field á sér rúmlega 100 ára sögu en völlurinn var fyrst byggður fyrir amerískan fótbolta á landi sem þá var beitiland kúa sem sáu heimavistarnemum skólans fyrir mjólk. Völlurinn fékk nafn sitt það sama ár og var nefndur eftir Bill Hayward, frjálsíþróttaþjálfara háskólaliðsins. Nafnið var afhjúpað í fyrsta hálfleik leiktíðarinnar en Hayward frétti það þó ekki fyrr en daginn eftir þar sem hann var sjálfur styrktarþjálfari fótboltaliðsins og því upptekinn við annað á meðan á athöfninni stóð.

Árið 1921 var lögð 6 brauta malarhlaupabraut og á næstu árum og áratugum jókst smám saman fjöldi áhorfenda sem pallarnir gátu hýst. Á 7. áratugnum var síðasti fótboltaleikurinn spilaður á vellinum og árið 1970 var völlurinn eingöngu orðinn frjálsíþróttavöllur. Þá var sett gerviefni á hlaupabrautina og hún stækkuð í 8 brautir. Tveimur árum síðar var fyrsta Ólympíuúrtökumótið haldið á vellinum fyrir leikana í München. Næstu tvö úrtökumót voru einnig haldin á Hayward field.

Unnið að lagningu fyrstu malarbrautarinnar á Hayward Field 1921

Árið 1975 var Prefontaine Classic haldið í fyrsta skipti, nefnt eftir millivegalengdahlauparanum og Ólympíufaranum Steve Prefontaine sem keppti fyrir Oregonháskólann. Upphaflega átti að nefna mótið eftir þjálfaranum Bill Bowerman en í kjölfar ótímabærs andláts Prefontaine átta dögum fyrir mótið var ákveðið að breyta nafninu. Bill Bowerman þessi hafði nokkrum árum áður stofnað fyrirtækið Blue Ribbon Sports með fyrrum iðkanda sínum Phil Knight en síðar breyttu þeir nafni fyrirtækisins í Nike.

Næstu árin voru gerðar ýmsar breytingar á vellinum. Áhorfendapallar voru rifnir niður og endurbyggðir, hlaupabrautinni breytt þannig að hún varð 400 metrar en ekki 440 yardar og innanhúsæfingaaðstaðan undir stúkunni var bætt.

Úrtökumót fyrir Ólympíuleika 1980

Þarfar en umdeildar framkvæmdir

Vorið 2020 lauk umfangsmiklum framkvæmdum á vellinum þar sem hann var í raun rifinn niður og endurbyggður frá grunni. Sett var ný 9 brauta hlaupabraut og allir áhorfendapallar voru fjarlægðir og nýjir byggðir hringinn í kringum brautina. Ekki voru allir sáttir með framkvæmdina enda stór hluti sögu vallarins bundinn við áhorfendapallana og aðrar byggingar sem umluktu völlinn. Fannst mörgum að varðveita hefði átt þær í einhverri mynd. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja annað en að vel hafi tekist til. Að minnsta kosti er grindahlauparinn Devon Allen sáttur en hann stundaði sjálfur nám við Oregonháskóla. Haft var eftir honum að völlurinn væri „eins og blanda af Fuglshreiðrinu og Rósarskálinni“ og átti hann þar við Ólympíuleikvanginn í Beijing og Rose Bowl völlinn í Pasadena, Kaliforníu.

Spretthlauparinn English Gardiner er ekki síður hrifin: „Ég trúi því algjörlega að Hayward töfrarnir verði enn til staðar á nýja leikvanginum. […] Tengingin við áhorfendurnar er það sem við íþróttafólkið nærumst á og hún gerir Hayward að frábærum velli. Þetta mun gera það auðveldara að fá íþróttafólk til liðs við skólann og að halda betri mót. Betri aðstaða laðar að gott fólk.“

Joe Biden mætir

Það er klárt mál að bandarískt frjálsíþróttaáhugafólk er spennt fyrir heimsmeistaramótinu og verður að öllum líkindum þétt setið í sætunum 25.000 sem völlurinn býður upp á. Áætlað er að sjálfur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, geri sér ferð yfir gjörvöll Bandaríkin til að setja mótið en hefð hefur verið fyrir því að heimsmeistaramót séu sett af þjóðhöfðingja landsins þar sem það er haldið.

Við hjá Silfrinu erum ekki síður spennt enda ekki á hverju ári sem allt besta frjálsíþróttafólk heims kemur á einn stað til að leiða saman hesta sína…