Íslenska frjálsíþróttasumarið fer vel af stað

Eftir tvö löng Covid-ár er loksins allt farið á fullt í frjálsíþróttaheiminum – líka hér innnalands. Frjálsíþróttafólkið okkar hefur náð ágætis árangri það sem af er sumri og verður hér drepið á því helsta sem hefur gerst innanlands.

Ólympíumeistari á Selfossi

Hápunktur sumarsins hér innanlands hingað til er án efa kringlukastskeppnin á Selfoss Classic mótinu sem haldið var á Selfossvelli þann 28. maí. Þar mættu m.a. til leiks gull- og silfurverðlaunahafarnir frá Ólympíuleikunum í Tókýó, Svíarnir Daniel Ståhl og Simon Petterson, ásamt Íslandsmethafanum Guðna Val Guðnasyni og Bandaríkjamanninum Sam Mattis, sem lenti í 8. sæti í Tókýó. Veðuraðstæður voru frábærar fyrir kringlukastskeppnina og mikil stemning hjá áhorfendum en það er langt síðan svo góð mæting hefur verið á frjálsíþróttamót á Íslandi. Góð umfjöllun var um mótið í aðdraganda þess auk þess sem RÚV var með beina útsendingu frá mótinu enda ekki á hverjum degi sem ríkjandi Ólympíumeistari mætir til keppni á litla Íslandi. Raunar hefur það nú gerst alls átta sinnum, síðast árið 2007 þegar Ítalinn Stefano Baldini, sem þá var ríkjandi Ólympíumeistari í maraþoni, hljóp Reykjavíkurmaraþonið. 

Daniel Ståhl í ,,búrinu” á Selfossvelli. Mynd: FRÍ.

Kapparnir stóðu heldur betur undir væntingum en Ståhl bætti 33 ára gamalt vallarmet þjálfara síns, Vésteins Hafsteinssonar, um tæpa tvo metra þegar hann kastaði 69,27m í fimmtu umferð. Þetta var þá lengsta kast Ståhl á árinu en síðan þá hefur hann bætt sitt ársbesta í 70,62m. Petterson kastaði lengst 65,94m í sjöttu umferð sem er hans besti árangur í ár. Guðni Valur endaði svo í þriðja sætinu með 64,87m sem er einungis 33cm frá lágmarki á Evrópumeistaramótið sem fram fer í München í ágústmánuði.

Frjálsíþróttasambandið á stórt hrós skilið fyrir skipulagningu og framkvæmd mótsins og vonandi verður leikurinn endurtekinn að ári liðnu!

ÍR völlurinn vígður

Eftir nokkurra ára seinkun er nýi ÍR völlurinn í Mjóddinni loks tilbúinn. Völlurinn skartar fagurblárri Mondo braut sem er sú allra fegursta á landinu og þó víðar væri leitað (hlutlaust mat höfundar). Brautin virðist einnig vera mjög hröð en vígslumót vallarins var haldið 29. mái og þar náðust fínir tímar spretthlaupunum. Þar ber hæst að nefna árangur Kolbeins Haðar Gunnarssonar í 100m hlaupi, en hann hljóp vegalengdina á 10,64s (+1,3). Kolbeinn hljóp síðan enn hraðar á Smáþjóðameistaramótinu um síðustu helgi þegar hann hljóp á tímanum 10.59s (+0,1) sem er einungis 1/100 úr sekúndu frá hans besta. Spennandi verður að fylgjast með Kolbeini í sumar en hann er ekki langt frá Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017 (10,51s).

Nike mótaröð FH

FH-ingar hafa sett upp skemmtilega mótaröð í sumar, Nike mótaröð FH. Mótin verða þrjú talsins og geta keppendur safnað stigum á hverju þeirra. Stigahæsta íþróttafólk sumarsins verður síðan verðlaunað að síðasta móti loknu. Fyrsta mótið var haldið 25. maí og náðist ágætis árangur í nokkrum greinum. Helst ber að nefna árangur Irmu Gunnarsdóttur en hún stökk 6,07m í langstökki. Næsta mót mótaraðarinnar verður haldið 7. júlí.

Kastarar í góðu formi

Margir af okkar bestu kösturum virðast koma vel undan vetri. Sleggjukastarinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir hefur verið í góðu formi það sem af er ári. Hún hefur kastað lengst 65,35m í ár sem er bæting á hennar eigin Íslandsmeti um tæpan metra. Kringlukastarinn Mímir Sigurðsson bætti sig um tæpa tvo metra þegar hann kastaði 62,08m á Kastmóti ÍR 16. júní. Mímir hefur verið að kasta stöðugt nálægt 60 metrunum í byrjun sumars og það var því bara tímaspursmála hvenær stór bæting myndi koma. Sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson er einnig í fínu formi en hann hefur kastað lengst 75,52m í ár. Íslandsmet hans frá árinu 2020 er 77,10m. 

Mímir Sigurðsson hefur kastað vel í ár. Mynd: FRÍ.

Næsta mót á dagskrá hér innanlands er Meistaramót Íslands sem fer fram í Kaplakrika um næstu helgi. Búast má við að flest af okkar besta frjálsíþróttafólki mæti til leiks og ljóst er að nokkur Íslandsmet verða í hættu ef vel viðrar.