Sú grein sem hefur verið hvað mest spennandi að fylgjast með undanfarin ár er 400m grindahlaup, bæði karla og kvenna. Á Ólympíuleikunum í fyrra settu Karsten Warholm og Sydney McLaughlin ótrúleg heimsmet í greininni. Karlamegin voru Rai Benjamin og Alison dos Santos einnig undir gamla heimsmetinu hans Kevin Young. Kvennamegin var Dalilah Muhammad einnig undir gamla heimsmetinu sem McLaughlin hafði sett fyrr um árið. Það hafa því margir beðið í ofvæni eftir heimsmeistaramótinu í Eugene í næsta mánuði til að sjá hvort leikurinn muni endurtaka sig.
Nú er þó möguleiki á því að hvorki Warholm né Benjamin verði með í Eugene. Í fyrsta hlaupi sínu í ár, á demantamótinu í Rabat, tognaði Warholm aftan í læri strax eftir fyrstu grind eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Óvíst er hversu slæm meiðslin eru en þetta leit ekkert sérstaklega vel út. Af samfélagsmiðlum að dæma er Warholm staddur í München þessa dagana og líklegt verður að teljast að hann sé þar í meðhöndlun hjá Dr. Hans-Wilhelm Muller-Wohlfahrt eða Healing Hans eins og hann er gjarnan kallaður. Healing Hans er þekktur fyrir að meðhöndla stórstjörnur úr íþróttaheiminum eins og t.d. Cristiano Ronaldo, Kobe Bryant og Usain Bolt. Healing Hans tjöslaði til að mynda Usain Bolt nokkrum sinnum saman fyrir stórmót þegar hann var upp á sitt besta. Það verður áhugavert að sjá hvort jafn vel tekst til hjá Hans með Warholm og með Bolt en þetta er þó langt frá því að vera staðan sem Warholm hefði kosið svo stuttu fyrir HM. Það tekur alltaf tíma að koma til baka eftir hamstring meiðsli og með aðeins um mánuð til stefnu verður það að teljast afar tæpt að Warholm verði kominn í toppstand fyrir HM. Það er þó aldrei hægt að afskrifa Norðmanninn undraverða.
Ekki er heldur ljóst hvort Rai Benjamin verði með í Eugene. Hann er að því er virðist líka að glíma við meiðsli en Bandaríkjamaðurinn hefur ekkert keppt síðan um miðjan maí og hefur afskráð sig af nokkrum mótum undanfarið. Tíminn er á þrotum fyrir Benjamin þar sem bandaríska meistaramótið er um næstu helgi og verður hann að mæta til leiks þar og lenda í efstu þremur sætunum ætli hann sér að vera með í Eugene.
Auk Warholms og Benjamins virðast mennirnir sem lentu í fjórða og fimmta sæti í Tókýó, Kyron McMaster og Abderrahman Samba, einnig vera að glíma við meiðsli. Samba hefur ekkert hlaupið í ár og McMaster ekki síðan um miðjan maí. Alls kostar óvíst er hvort þeir verði með í Eugene.
Eins og staðan er í dag er því Brasilíumaðurinn dos Santos hvað sigurstranglegastur í Eugene. Hann hefur hlaupið vel það sem af er ári, hraðast á 47.23s á Prefontaine Classic í maí. Eistinn Rasmus Mägi hefur einnig hlaupið vel í ár en hann setti eistneskt met þegar hann hljóp 47,82s í Finnlandi um miðjan júní og er því til alls líklegur í Eugene.
Það er því ekki útlit fyrir að við munum fá að sjá þá stórsýningu í Eugene sem margir vonuðust eftir. Margt getur þó enn gerst á þeim mánuði sem er til stefnu og aldrei að vita nema Healing Hans geti séð til þess í enn eitt skiptið að ein af stærstu stjörnum íþróttarinnar mæti í toppstandi á stærsta mót ársins.