Meistaramót Íslands fer fram um næstu helgi í Kaplakrika. Margt af okkar besta frjálsíþróttafólki er skráð til leiks og er búist við góðri keppni í mörgum greinum. Einn af keppendunum á mótinu er landsliðsmaðurinn og ÍR-ingurinn Sæmundur Ólafsson en hann á titil að verja í bæði 400m og 800m hlaupum. Við heyrðum í honum hljóðið fyrir keppni helgarinnar.

Sæmundur, eða Sæmi eins og hann er oftast kallaður, er skráður í 100m, 200m, 400m og 800m hlaup auk boðhlaupa um helgina en koma verður í ljós hvort hann hlaupi allar vegalengdirnar. ,,Mér líður vel í líkamanum og æfingar hafa gengið vel upp á síðkastið. Það skemmir ekki fyrir að æfa á glænýja ÍR vellinum sem er geggjaður. Markmiðið fyrir MÍ er að njóta þess að keppa en það væri ekki verra að bæta sig í 400m hlaupi,” segir Sæmi sem er vel stemmdur fyrir helginni.
Sæmi hefur byrjað tímabilið vel. Hann hljóp 400m á 50,41s á Nike móti FH þann 25. maí sem er um hálfri sekúndu frá hans besta í greininni. Því næst hljóp hann 200m á Selfoss Classic þann 28. maí þar sem hann hljóp á 22,70s sem er undir hans besta tíma í greininni en meðvindur í hlaupinu var of mikill til að teljast löglegur. Þessi fjölhæfi hlaupari hljóp síðan 100m á Vormóti ÍR daginn eftir og var það í fyrsta skiptið í 11 ár sem Sæmi hleypur þá vegalengd. Gerði Sæmi sér lítið fyrir og hljóp vegalengdina á 11,26s (+1,3) sem er bæting um rúmar tvær sekúndur – geri aðrir betur! ,,Tímabilið er nú bara nýbyrjað hjá mér en ég er nokkuð sáttur með það hingað til. Það sem stendur upp úr hjá mér er 100 m hlaupið mitt á Vormóti ÍR,” sagði Sæmi.
Nú síðast keppti Sæmi með íslenska landsliðinu á Smáþjóðameistaramótinu á Möltu og þá í 800m hlaupi auk 1000m boðhlaups þar sem hann hljóp 400m sprettinn. Sæmundur hljóp 800m á 1:54,98 og lenti í 9. sæti. ,,Fókusinn hjá mér seinustu tvö til þrjú árin hefur verið meiri á 400m hlaup en 800m hlaup. 800m hlaupið gekk eins og ég bjóst við, ég hefði viljað hlaupa hraðar en vill maður það ekki alltaf? Ég hljóp einnig 400m í 1000m boðhlaupinu í skemmtilegri sveit og það gekk virkilega vel,” sagði Sæmundur en hann splittaði undir 50 sekúndur í boðhlaupinu. Íslenski hópurinn stóð sig vel á Möltu og góð stemning var í hópnum jafnvel þó töskur þeirra hafi ekki komist á áfangastað. ,,Ferðin almennt séð var stutt, svefnlítil og ánægjuleg. En það er alltaf mjög gaman að fara í svona ferðir með metnaðarfullu og skemmtilegu fólki”.


Sæmundur skipti nýverið úr millivegalengdum yfir í spretthlaupin og er mjög ánægður með þau skipti. En af hverju gerði hann þessa breytingu? ,,Ef ég á að vera alveg hreinskilinn var ég kominn með smá leiða á því að æfa fyrir millivegalengdahlaup og mig vantaði nýja og öðruvísi áskorun í hlaupunum. Þá lágu spretthlaupin beinast við og ég sé klárlega ekki eftir því að hafa skipt yfir í þau,” sagði Sæmi.
Það er mikill munur á því að æfa fyrir spretthlaup samanborið við millivegalengdir eins og Sæmi hefur svo sannarlega komist að. ,,Munurinn á spretthlaupum og millivegalengdahlaupum er eiginlega bara allt, fyrir utan að það er hlaupið í báðum greinum. Spretthlauparar hlaupa mun færri kílómetra á viku samanborið við millivegalengdahlaupara. Ef ég tek mig sem dæmi, þá var ég að hlaupa 70-110 km á viku sem millivegalengdahlaupari en nú hleyp ég í kringum 10-15 km á viku. Ég tek líka fleiri hvíldardaga sem spretthlaupari og lyfti meira. Síðan er það þessi blessaða blokk sem ég er ennþá að reyna að læra inná en það mun taka tíma að ná tökum á henni.”
Silfrið óskar S(l)æma og öllum öðrum keppendum góðs gengis á Meistaramótinu um helgina!