Fyrsti dagur bandaríska meistaramótsins – Kerley á besta tíma ársins og Richardson úr leik

Bandaríska meistaramótið fer fram um helgina á hinum sögufræga Hayward Field í Oregon. Mótið, sem er jafnframt úrtökumót Bandaríkjamanna fyrir heimsmeistaramótið í næsta mánuði, er með stærstu mótum ársins og búast má við harðri keppni um sæti í bandaríska liðinu í mörgum greinum. Fyrsti dagur mótsins var í gær og hér verður farið yfir það helsta sem þar bar á góma.

Kerley með besta tíma ársins í undanrásum

Besta árangrinum náði án efa Fred Kerley þegar hann hljóp á 9,83s í undanrásum 100m hlaupsins. Þetta er besti tími ársins í heiminum og jafnframt besti tími sem Kerley hefur náð á ferlinum. Kerley hljóp nokkuð aflsappað hlaup og virðist geta hlaupið enn hraðar en undanúrslit og úrslit fara fram í nótt. Kerley hefur verið í mjög góðu formi í sumar og verður til alls líklegur á HM í næsta mánuði að því gefnu að hann komist í bandaríska liðið en einungis þrír efstu á mótinu um helgina komast í liðið. Kerley var sá eini sem hljóp á undir 10 sekúndum en næstir á eftir honum voru þeir Cravont Charleston (10,07s), Christian Coleman (10,08s), Marvin Bracey (10,09s) og Elijah Hall-Thompson (10,09s). Þeir Treyvon Bromell og Kenny Bednarek hlupu báðir á 10,10s og eru líklegir til að blanda sér í baráttuna um sætin þrjú. Coleman er nú þegar öruggur um sæti á HM en hann er núverandi heimsmeistari og á því svokallað wild card á heimsmeistaramótið sem gefur honum sjálfkrafa þátttökurétt á mótið.

Óvæntustu úrslit gærdagsins urðu í undanrásum kvenna þegar Sha’Carri Richardson mistókst að komast áfram í undanúrslit. Hún hljóp á 11,31s og lenti í 23. sæti af alls 32 keppendum. Richardson átti ekki gott start og náði sér aldrei á strik í hlaupinu. Þessi skrautlegi spretthlaupari átti góð hlaup í aðdraganda mótsins og var talin sigurstranglegust á mótinu. Ekki er ljóst hvort Richardsson hafi verið að glíma við einhver meiðsli fyrir mótið en hún neitaði að ræða við fjölmiðla eftir hlaupið í gær. Besta tíma gærdagsins átti Aleia Hobbs en hún hljóp á 10,88s.

Sha’Carri Richardson mætir oft skrautlega klædd á hlaupabrautina. Hún hljóp með bindi um hálsinn í gær. Ætli það hafi hægt á henni?

Muhammad mætti ekki til leiks

Í 400m grindahlaupi kvenna komst Sidney McLaughlin auðveldlega í undanúrslit. Heimsmethafinn hljóp afslappað á tímanum 54,11s sem var næstum einni og hálfri sekúndu hraðar en Shamier Little sem átti annan besta tíma gærdagsins. McLaughlin hefur hlaupið hraðast á 51,61s í ár sem er ekki langt frá heimsmeti hennar frá því í Tókýó í fyrra. Hún er í sérflokki á mótinu en hennar helsti keppinautur, Dalilah Muhammad, mætti ekki til leiks. Muhammad er núverandi heimsmeistari og á því sjálfkrafa þátttökurétt á HM. Við þurfum því að bíða þangað til í næsta mánuði til að sjá þessa bestu 400m grindahlaupara sögunnar mætast á brautinni.

Felix á sínu síðasta meistaramóti

Allyson Felix var mætt á startlínuna í undanrásum 400m hlaupsins. Hún hefur gefið það út að þetta verði hennar síðasta tímabil og er hún því að keppa á bandaríska meistaramótinu í síðasta sinn. Felix vann sinn riðil á 52,30s sem var 14. besti tíminn inn í undanúrslit. Áhugavert verður að sjá hvort þessi sigursælasta frjálsíþróttakona í sögunnar nái að komast á sitt tíunda heimsmeistaramót. Hún hefur þó sagt í viðtölum í aðdraganda mótsins að það sé ekki hennar markmið, hún ætlar að einbeita sér að því að njóta síðasta tímabilsins og ekki einblína á árangur.

Lengi lifir í gömlum glæðum. Felix er á 37. aldursári og er enn í heimsklassa.

Anderson, Evans og Burks meistarar

Þrjú voru krýnd bandarískir meistarar í gær. Brooke Andersen vann sleggjukast kvenna þegar hún kastaði 77,96m og er því komin með farmiða á HM ásamt þeim Janee Kassanavoid og Annette Echikunwoke. DeAnna Price, ríkjandi heimsmeistari í greininni, lenti í fjórða sæti en hún er með sjálfkrafa þáttökurétt á HM líkt og Coleman og Muhammad.

Andrew Evans vann kringlukast karla með kasti upp á 63,31m. Dallin Shurts var í öðru sæti og Íslandsvinurinn Sam Mattis í því þriðja. Shurts er ekki kominn með lágmark á HM og verður því að koma í ljós hvort hann komist inn á HM út frá sæti á heimslista. Íslandsvinirnir Legend Boyesen og Noah Kennedy White, sem kepptu á Selfoss Classic fyrr í sumar ásamt Mattis, lentu í 6. og 8. sæti.

Þriðja greinin sem lauk í gær var langstökk kvenna. Þar vann Quanesha Burks þegar hún stökk 7,06m (+2,7). Jasmine Moore og Tiffany Flynn lentu í öðru og þriðja sæti. Moore er sú eina af þeim þremur sem er með lágmark á HM og því á eftir að koma í ljós hverjar það verða sem keppa fyrir Bandaríkin á HM. Það er þó ljóst að það verður ekki Ólympíufarinn og bandaríski háskólameistarinn frá því í fyrra, Tara Davis, en hún gerði öll þrjú stökkin sín ógild í gær.

Dagur 2 í nótt

Annar dagur mótsins hefst um miðnætti í kvöld á íslenskum tíma með undanrásum í 100m grindahlaupi kvenna. Úrslit munu þá ráðast í fjölda greina, m.a. 100m hlaupum karla og kvenna, kúluvarpi karla, stangarstökki kvenna og kringlukasti kvenna. Auk þess verður áhugavert að sjá hvernig Rai Benajamin mun vegna í undanrásum 400m grindahlaupsins en hann hefur líklegast verið að glíma við meiðsli að undanförnu eins og fjallað var um hér á Silfrinu um daginn.