Nú er öðrum degi bandaríska meistaramótsins lokið. Frábær árangur náðist í nokkrum greinum og verður hér drepið á því helsta. Hér má sjá samantekt frá fyrsta degi.
Kerley á 6. besta tíma sögunnar
Eins og svo oft áður var mest spenna fyrir 100m hlaupin. Karlamegin var Fred Kerley sigurstranglegastur en hann hljóp á besta tíma ársins í greininni í undanrásunum á fyrsta degi mótsins. Hann hélt uppteknum hætti í gær og bætti aftur besta tíma ársins þegar hann hljóp á 9,76s (+1,4) í undanúrslitunum og vann sinn riðil örugglega. Þetta er 6. besti tími sögunnar en hann deilir núna 6.-8. sætinu á topplistanum með þeim Trayvon Bromell og Christian Coleman. Þetta var jafnframt bæting á mótsmeti Tyson Gay og vallarmetinu á Hayward Field. Hinn riðilinn vann Bromell á 9,81s (+1,5) og á eftir honum komu Marvin Bracey-Williams á 9,86s og Coleman á 9,87s. Hlaupa þurfti á undir 10 sekúndum til að komast í úrslit.
Coleman, sem er núverandi heimsmeistari og því með sjálfkrafa þátttökurétt á HM, mætti ekki í úrslitahlaupið enda var það ljóst að enginn ætti roð í Kerley í því formi sem hann er núna. Úrslitahlaupið var þó frekar jafnt framan af en Kerley náði ekki eins góðu starti og í undanúrslitunum. Bromell átti besta startið en þegar það voru um 50 metrar eftir af hlaupinu náði Kerley fram úr honum og kom síðan fyrstur í mark á 9,77s (+1,8). Bracey-Williams endaði annar á 9,85s og Bromell þriðji á 9,88s. Frábær árangur hjá Kerley en það er einstakt að hlaupa tvisvar sinnum undir 9,8s á u.þ.b. einum á hálfum klukktíma og hann verður að teljast sigurstranglegastur fyrir HM. Þetta verður þriðja heimsmeistaramótið hans, en hann keppti í 400m í London 2017 og í Doha 2019 þar sem hann náði í brons.
Óvænt úrslit í 100m kvenna
Eftir að Sha’Carri Richardson komst ekki upp úr riðlunum á fyrsta degi var Aleia Hobbs orðin sigurstranglegust í 100m kvenna. Hún vann sinn riðil í undanúrslitunum á 10,81s (+0,5) en Melissa Jefferson var einungis einum hundraðshluta á eftir henni. Hinn riðilinn vann Twansiha Terry á 10,87s (+1,8). Í úrslitahlaupinu áttu Hobbs og Jefferson hins vegar sætaskipti. Jefferson hljóp á 10,69s (+2,9) en Hobbs á 10,72s. Terry kom síðan þriðja í mark á 10,74s. Þetta verða að teljast mjög óvænt úrslit en Jefferson lenti í áttunda sæti bandaríska háskólameistaramótsins fyrr í mánuðinum. Allar þrjár eru að fara að keppa á HM fyrsta sinn.
Crouser með lengsta kast ársins
Úrslit kúluvarps karla fóru fram í gær. Ólympíumeistarinn Rayan Crouser vann mótið með kasti upp á 23,12m sem er einungis 25cm frá hans eigin heimsmeti. Crouser átti frábæra kastseríu en hann kastaði alls þrisvar sinnum yfir 23 metra. Joe Kovacs varð í öðru sæti með 22,87m og Josh Awotunde því þriðja með 21,51m. Kúluvarpskeppninni á HM í næsta mánuði er beðið með mikilli eftirvæntingu en keppnin á HM í Doha 2019 var ein sú svakalegasta sem sögur fara af þegar einungis einn sentímetri skildi að efstu þrjá. Þá vann Kovacs með 20,91m og Crouser lenti í öðru með 22,90m. Spennandi verður að sjá hvað gerist þegar kapparnir mætast aftur í Eugene í næsta mánuði.
Allmann og Morris með örugga sigra
Ólympíumeistarinn Valarie Allman vann kringlukast kvenna örugglega með kasti upp á 66,92m. Laulauga Tausaga-Collins varð í öðru með 64,49m og Rachel Dincoff því þriðja með 62,14m. Sandi Morris vann stangarstökk kvenna með yfirburðum þegar hún stökk 4,82m sem er hæsta stökkið í heiminum í ár. Alina McDonald varð í öðru með stökki upp á 4,65m og Ólympíumeistarinn Katie Nageotte varð í þriðja einnig með 4,65m. Morris hefur lent í öðru sæti á síðustu tveimur heimsmeistaramótum en er til alls líkleg í Eugene í næsta mánuði.
Benjamin mættur aftur til leiks og Felix í úrslit
Rai Benjamin mætti til leiks í undanrásum 400m grindahlaupsins í gær og leit ágætlega út. Hann hljóp á 48,41s og átti besta tíma dagsins. Benjamin hefur ekkert keppt síðan um miðjan maí og í viðtali eftir hlaupið sagðist Benjamin hafa misst úr þrjár vikur af æfingum eftir að hann fékk Covid. Hann hefur einnig verið að glíma við meiðsli sem hafi haft mikil áhrif á undirbúning hans fyrir mótið.
Allyson Felix komst í úrslit 400m hlaups kvenna þegar hún hljóp á 51,32 og náði 7. besta tímanum inn í úrslitin í nótt. Keppt verður til úrslita í fjölda greina á þriðja degi mótsins en mesta spennan er fyrir 400m grindahlaupi kvenna – engin spenna er um það hver muni vinna hlaupið heldur felst spennan í því hvort heimsmetið í greininni muni falla en metið er alltaf í hættu þegar Sidney MacLaughlin stígur á brautina.