Meistaramót Íslands fór fram í Kaplakrika um helgina. Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki beint leikið við keppendur náðist ágætis árangur í nokkrum greinum og vour alls fjögur mótsmet slegin um helgina. FH-ingar stóðu uppi sem Íslandsmeistarar félagsliða. ÍR-ingar unnu karlakeppnina og FH-ingar kvennakeppnina.
Hilmar og Tiana með stigahæstu afrekin
FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson vann sleggjukast karla með kasti upp á 75,20m. Þetta var nýtt mótsmet hjá Hilmari og jafnframt sigahæsta afrek karla á mótinu en kastið gaf 1120 árangursstig skv. stigatöflu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. ÍR-ingurinn Tiana Ósk Witworth átti stigahæsta afrek kvenna en hún vann 100m hlaup kvenna á tímanum 11,69 (+4,2) sem gefur 1054 árangursstig. Tiana var einnig í sigursveit ÍR í 4x100m boðhlaupi ásamt þeim Silju Björg Kjartansdóttur, Elísu Sverrisdóttur og Dóru Fríðu Orradóttur.

Íris Anna og Daníel Ingi með þrjú gull hvort
Flest gullverðlaun á mótinu hlutu FH-ingarnir Íris Anna Skúladóttir og Daníel Ingi Egilsson. Íris Anna vann 1500m hlaup kvenna örugglega á 4:52,81. Hún vann einnig 5000m hlaup kvenna á 17:43,33 eftir æsispennandi endasprett við Akureyringinn Sigþóru Brynju Kristjánsdóttur sem kom í mark aðeins 33 hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Írisi. Sigþóra vann 3000m hindrunarhlaup kvenna á 11:57,16. Íris Anna var síðan einnig í sigursveit FH í 4x400m boðhlaupi kvenna ásamt þeim Írisi Dóru Snorradóttur, Elínu Sóleyju Sigurbjörnsdóttur og Ísold Sævarsdóttur. Það er virkilega gaman að sjá Írisi Önnu aftur svona sterka á brautinni eftir nokkurt hlé vegna barneigna.
Daníel Ingi vann bæði langstökk og þrístökk karla nokkuð örugglega og var í sigursveit FH-inga í 4x100m boðhlaupi ásamt Kolbeini Heði Gunnarssyni, Daða Lár Jónssyni og Bjarna Páli Pálssyni. Daníel stökk 14,78m í þrístökki og 6,92m í langstökki. Það er ekki langt síðan hann byrjaði aftur að æfa frjálsar og það er frábært að sjá hann koma af svona miklum krafti inn í íþróttina.

Hlynur, Baldvin Þór og Aníta unnu örugglega
Fremstu millivega- og langhlauparar landsins, þau Hlynur Andrésson, Baldvin Þór Magnússon og Aníta Hinriksdóttir, voru mætt til landsins til að keppa á mótinu. Baldvin Þór vann 1500m hlaup karla örugglega á tímanum 4:06,60 og Hlynur vann 5000m hlaup karla á 14:13,92. Hlynur bætti þar með mótsmet Kára Steins Karlssonar frá árinu 2007. Þetta er talsvert frá bestu tímum þessara frábæru hlaupara. Erfiðar aðstæður voru fyrir hringhlaup um helgina sem setti strik í reikninginn en mikill vindur var í Kaplakrika alla helgina.

Aníta Hinriksdóttir mætti til leiks í 800m hlaupi kvenna. Hlaupadrottningin hefur verið að glíma við erfið meiðsli undanfarin ár og hefur ekki náð að æfa sem skyldi. Aníta vann þó hlaupið örugglega á tímanum 2:11,46. Það var gaman að sjá Anítu aftur á brautinni um helgina og vonandi nær hún að halda sér á sömu braut og vinna sig hægt og rólega aftur til baka.
Erna Sóley og Elísabet Rut með mótsmet og Kolbeinn Höður undir Íslandsmetinu
ÍR-ingarnir Erna Sóley Gunnarsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir settu báðar mótsmet, Erna Sóley í kúlavarpi með kasti upp á 16,54m og Elísabet í sleggjukasti með kasti upp á 62,30m. Akureyringurinn sprettharði, Kolbeinn Höður Gunnarsson, vann 100m hlaup karla á tímanum 10,50 (+3,0). Þessi tími er einum hundraðshluta úr sekúndu undir Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017 en meðvindur í hlaupinu var því miður of mikill til að teljast löglegur.

Guðni Valur, Ingibjörg og Irma með tvö gull hvert
ÍR-ingurinn Guðni Valur Guðnason varð Íslandsmeistari í bæði kringlukasti og kúluvarpi, hann kastaði kringlunni 55,96m og kúlunni 17,59m. Liðsfélagi Guðna, Ingibjörg Sigurðardóttir, vann bæði 400m og 400m grindahlaup. Hún kom í mark í 400m hlaupinu á 58,34s og í grindahlaupinu á 62,79s. Irma Gunnarsdóttir, FH, vann einnig til tvennra gullverðlauna þegar hún vann þrístökk með 12,56m og langstökk með 5,79m.

Aðrir Íslandsmeistarar um helgina voru :
- Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson í 200m karla (22,11s; +3,2)
- Sæmundur Ólafsson í 400m karla (50,54s)
- Kjartan Óli Ágústsson í 800m karla (2:01,67)
- Árni Haukur Árnason í 110m grind karla (15,53s; +1,3)
- Daði Arnarson í 400m grind karla (57,19s)
- Arnar Pétursson í 3000m hindrunarhlaupi (9:59,54)
- Sveit Fjölnis skipuð þeim Guðmundi Ágústi Thoroddsen, Bjarna Antoni Theódórssyni, Kjartani Óla Ágústssyni og Daða Arnarsyni í 4x400m boðhlaupi (3:26,70)
- Kristján Viggó Sigfinnsson í hástökki karla (2,00m)
- Andri Fannar Gíslason í stangarstökki karla (3,63m)
- Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkasti karla (72,66m)
- María Rún Gunnlaugsdóttir í 200m hlaupi kvenna (25,52; +2,7)
- Glódís Edda Þuríðardóttir í 100m grindahlaupi kvenna (14,10; +2,5)
- Eva María Baldursdóttir í hástökki kvenna (1,71m)
- Jada Birna Long Guðnadóttir í stangarstökki kvenna (2,53m)
- Kristín Karlsdóttir í kringlukasti kvenna (43,26m)
- Arndís Diljá Óskarsdóttir í spjótkasti kvenna (41,96m)
Silfrið óskar öllum Íslandsmeisturum helgarinnar innilega til hamingju!