Þriðji dagur bandaríska meistaramótsins – McLaughlin sló eigið heimsmet

Við höldum áfram umfjöllun okkar um bandaríska meistaramótið sem fer fram á hinum sögufræga Hayward Field um helgina. Þriðja degi mótsins lauk í gær og þar bar hæst heimsmet Sydney McLaughlin í 400m grindahlaupi kvenna.

McLaughlin í sérflokki

Úrslitum 400m grindahlaups kvenna var beðið með mikilli eftirvæntingu en það var síðasta grein gærdagsins. Sydney McLaughlin hafði hlaupið eitt hlaup fyrir mótið og hljóp þá á 51,61s sem var einungis 15/100 úr sekúndu frá hennar eigin heimsmeti. Það var því ljóst að hún væri í góðu formi og að heimsmetið væri í hættu.

McLaughlin byrjaði hlaupið í gær af krafti og leiddi hlaupið allt frá fyrstu grind. Þegar þrjár grindur voru eftir var hún með um 5 metra forskot á þær Shamier Little, Anna Cockrell og Britton Wilson sem allar voru utan á henni. Þegar McLaughlin kom út úr seinni beygjunni héldu henni engin bönd. Það dró verulega á milli McLaughlin og hinna þriggja, hún hélt skrefunum vel á meðan keppinautarnir byrðjuðu allar að stífna. Það fór svo að McLaughlin kom langfyrst í mark á 51,41s. Hún bætti þar með eigið heimsmet um 5 hundraðshluta úr sekúndu og er þetta í þriðja sinn á innan við ári sem hún bætir heimsmetið.

Wilson, sem varð bandarískur háskólameistari fyrr í mánuðinum, kom önnur í mark á 53,08s, sem er persónulegt met hjá henni, og Little varð þriðja á 53,98s. Cockrell varð síðan fjórða á 53,98s og hún missir því af HM þrátt fyrir að eiga 9. besta tímann í heiminum í ár.

Það er ljóst að 400m grindahlaup kvenna verður ein af þeim greinum sem verður mest spennandi að fylgjast með á HM. McLaughlin mun þar mæta sínum helstu keppinautum, þeim Dalilah Muhammad og Femke Bol, og munu þær örugglega ýta hvor annarri í átt að enn betri tímum.

Norman á besta tíma ársins og Felix sjötta

Michael Norman vann 400m hlaup karla á 43,56s sem er besti tíminn í heiminum í ár. Í öðru sæti varð Chamipion Allison á 43,70s. Hann stóð ekki alveg undir nafni (bókstaflega) en var þó að bæta sinn besta árangur verulega í greininni. Hann átti best 44,29s frá því á bandaríska háskólameistaramótinu fyrr í mánuðinum þar sem hann lenti í öðru sæti á eftir Randolp Ross. Ross kom þriðji í mark í gær á tímanum 44,17s.

Í 400m hlaupi kvenna kom bandaríski háskólameistarinn Talitha Diggs fyrst í mark á 50,22s. Kendall Ellis varð önnur á 50,35s og Lynna Irby þriðja á 50,67s. Allyson Felix, sem var að keppa á bandaríska meistaramótinu í hinsta sinn, varð sjötta á tímanum 51,24s. Felix komst því ekki í bandaríska liðið í 400m á HM en er þó í hópnum fyrir boðhlaupin og gæti því mögulega náð að keppa á sínu tíunda heimsmeistaramóti.

Harrison á besta tíma ársins

Keni Harrison vann 100m grindahlaup kvenna á tímanum 12,34s sem er besti tíminn í heiminum í ár. Alaysha Johnson kom önnur í mark aðeins einum hundraðshluta á eftir Harrison. Þriðja varð Alia Armstrong á 12,47s. Núverandi heimsmeistarinn Nia Ali ákvað að hlaupa ekki úrslitahlaupið enda með sjálfkrafa þátttökurétt á HM.

Hilary Bor vann 3000m hindrunarhlaup karla á 8:15,76 og Evan Jager varð annar á 8:17,29. Gaman að sjá Jager aftur á brautinni en þessi besti bandaríski 3000m hindrunarhlaupari sögunnar hefur verið að glíma við mikil meiðsli síðastu árin.

Cooper Teare vann 1500m hlaup karla á 3:45,86s. Annar varð Jonathan Davis á 3:46,01 og þriðji Josh Thompson á 3:46,07. Hlaupið var mjög taktískt og endaði á miklum og jöfnum endaspretti en innan við sekúnda aðskildi fyrstu níu menn hlaupsins. 1500m hlaup kvenna var einnig taktíst. Þar vann Sinclaire Johnson á 4:03,29, önnur varð Cory McGee á 4:04,52 og Elle St. Pierre þriðja á 4:05,14.

Orji með nýtt mótsmet

Kara Winger vann spjótkast kvenna með góðu kasti upp á 64,26m í síðustu umferð. Chris Nielsen vann stangarstökk karla með stökki upp á 5,70m. Sam Kendricks mætti ekki til leiks á mótið en hann er með sjálfkrafa þátttökurétt á HM sem núverandi heimsmeistari. Daniel Haugh vann sleggjukast karla með 80,18m sem er persónulegt met. Keturah Orji vann síðan þrístökk kvenna á nýju mótsmeti, 14,79m.

Fjórði og síðasti dagur mótsins fer fram í kvöld. Þar er mest spennan fyrir úrslitahlaupin í 200m karla og kvenna. Einnig verður áhugavert að fylgjast með 110m hlaupi karla en þar munu Grant Holloway, Devon Allen og Trey Cunningham, sem allir hafa hlaupið mjög vel í ár, etja kappi.

Sjá einnig:

Samantekt frá öðrum degi bandaríska meistaramótsins

Samantekt frá fyrsta degi bandaríska meistaramótsins