Liðin helgi var sannkölluð landsmeistaramótshelgi en þá voru meistaramót haldin víðs vegar um heiminn. Við höfum gert bandaríska og íslenska meistaramótinu ágæt skil hérna á Silfrinu en nú förum við yfir eitt og annað sem gerðist annars staðar í heiminum.
Graversgaard með landsmet
Við byrjum hjá nágrönnum okkar í Danmörku, nánar tiltekið í Álaborg, en danskar frjálsíþróttir, þá aðallega spretthlaupin, eru á fleygiferð þessi misserin. Markverðasta árangrinum á danska meistaramótinu náði Mette Graversgaard þegar hún vann 100m grindahlaup kvenna á tímanum 12,84s (+0,9). Þetta var bæting á hennar eigin danska meti um 5 hundraðshluta úr sekúndu og jafnframt lágmark á HM í Eugene í næsta mánuði. Graversgaard vann einnig 200m hlaupið á 23,70 (+0,1). Kojo Musah vann 100m hlaup karla á 10,28s (-0,1) og Simon Hansen vann 200m hlaup karla á nýju mótsmeti, 20,53s (+0,1).
Jackson stjarna helgarinnar í Jamaíku
Það er alltaf mikil spenna þegar jamaískir spretthlauparar mæta á brautina og engin breyting varð þar á þegar jamíaska meistaramótið fór fram í Kingston um helgina. Fyrrum 400m hlauparinn Shericka Jackson vann 100m hlaupið nokkuð óvænt á 10,77s (+0,9). Önnur varð Kemba Nelson á 10,88s en Ólympíumeistarinn Elaine Thompson-Herah varð þriðja á 10,89s. Briana Williams varð að láta sér fjórða sætið lynda og kemst því ekki í jamaíska liðið í 100m fyrir HM líkt og á Ólympíuleikunum í fyrra. Shelly-Ann Fraser-Pryce náði þó hraðasta tíma helgarinnar þegar hún hljóp á 10,70s (+1,1) í undanrásunum. Fraser-Pryce lét það þó nægja enda er hún með þátttökurétt á HM sem núverandi heimsmeistari.
Jackson vann einnig 200m hlaupið – hún eiginlega rústaði því. Hún hljóp á 21,55s (0,0) og var hálfri sekúndu á undan Ólympíumeistaranum Thompson-Herah. Þetta er besti tími ársins og þriðji besti tími sögunnar. Einungis Thompson-Herah (21,53s) og Florence Griffith-Joyner (21,34s) hafa hlaupið hraðar. Shelly-Ann Fraser-Pryce varð þriðja í hlaupinu á 22,14s. Jackson er í hrikalegu formi og verður að teljast sigurstranglegust á HM í næsta mánuði.
Johan Blake vann 100m hlaup karla á 9,85s (+1,0). Lengi lifir í gömlum glæðum en þessi 32 ára spretthlaupari hefur ekki hlaupið hraðar í tíu ár. Oblique Seville varð annar á 9,88s og Ackeem Blake þriðji á 9,93s. Andrew Hudson vann 200m hlaup karla á 20,10s en Johan Blake varð annar.
Ólympíumeistarinn Hansle Parchment vann 110m grindahlaup karla á 13,14s (+1,0). Fyrrverandi Ólympíumeistarinn Omar McLeod varð einungis áttundi og missir því af sínu öðru stórmóti í röð. Brittany Andersson vann 100m grindahlaup kvenna á 12,53s (+0,6).
Neita vann Asher-Smith
Í Manchester á Bretlandi bar helst til tíðinda í 100m hlaupi kvenna. Þar sigraði Daryll Neita heimsmeistarann í 200m frá Doha, Dinu Asher-Smith. Neita hljóp á tímanum 10,80 (+3,4) en Asher-Smith varð önnur á 10,87s. Neita vann einnig 200m hlaupið á 22,34 (+3,5) en þar mætti Asher-Smith ekki til leiks enda nú þegar með þátttökurétt á HM sem núverandi heimsmeistari. Þetta eru tveir fyrstu landsmeistaratitlar Neitu.
Jeremiah Azu vann 100m hlaup karla nokkuð óvænt á 9,90s (+2,5). Reece Prescod varð annar á 9,94s og Zharnel Hughes þriðji á 9,97s. Hughes verður að bíða og sjá hvort hann komist til Eugene en Bretar hafa þann háttinn á að tvö efstu á breska meistaramótinu komast sjálfkrafa á HM, að því gefnu að þau séu með lágmark, en sérstök valnefnd velur þann þriðja í hverja grein. Nethaneel Mitchell-Blake vann 200m karla á 20,05s (+2,0) sem er nýtt mótsmet. Þá vann Max Burgin 800m hlaup karla á 1:44,64 en þessi 20 ára hlaupari hefur hlaupið hraðast á 1:43,52 í ár.
Kambundji, Díaz og Mitton öll með landsmet
Mujinga Kambundji gerði það gott á svissneska meistaramótinu. Húnn vann 100m hlaup kvenna á nýju landsmeti, 10,89s (+0,6). Hún bætti þar með met Ajlu Del Ponte um einn hundraðshluta úr sekúndu en Del Ponte varð önnur í hlaupinu á 11,26s. Kambundji, sem varð heimsmeistari í 60m innanhúss í vetur, er greinilega í hörkuformi en hún setti svissneskt met í 200m fyrr í mánuðinum þegar hún hljóp á 22,18s (0,0).
Kanadíski kúluvarparinn Sarah Mitton setti landsmet á kanadíska meistaramótinu þegar hún varpaði kúlunni 20,33m. Þetta var lengsta kast ársins en það varði þó ekki lengi því degi seinna kastaði Chase Ealy 20,51m á bandaríska meistaramótinu.
Á spænska meistaramótinu vann Jordan Díaz þrístökk karla á nýju landsmeti, 17,87m. Hann stökk einnig 17,93m en meðvindur var þá of mikill til að stökkið væri talið löglegt.
Af öðrum úrslitum má helst nefna að hinn 19 ára Mykolas Alekna kastaði 69,00m þegar hann vann kringlukastskeppnina á litháenska meistaramótinu.