Sydney McLaughlin sló heimsmetið í 400m grindahlaupi í þriðja sinn á bandaríska meistaramótinu um síðustu helgi. McLaughlin hljóp þá á 51,41s og bætti þar með eigið heimsmet um 5 hundraðshluta úr sekúndu. McLaughlin var í sérflokki á mótinu en spennandi verður að sjá hvort hún nái að bæta metið enn frekar þegar hún mætir sínum helstu keppinautum, þeim Dalilah Muhammad og Femke Bol, á Heimsmeistaramótinu í Eugene í næsta mánuði.
Hvað svo?
Telja verður næsta víst að McLaughlin verði heimsmeistari og bæti gulli við silfrið sem hún hlaut í Doha 2019. Hún verður þá búin að vinna allt sem hægt er að vinna í greininni, bæði Ólympíugull og gull á heimsmeistaramóti, auk þess að hafa sett heimsmet oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Allt áður en hún nær 23ja ára aldri. En hvað svo?
Það er tvennt í stöðunni. Annars vegar getur hún haldið áfram að dóminera 400m grindahlaup – eltast við fleiri gull og fleiri heimsmet. Jafnvel stefna að því að komast á svipaðan stall og goðsögnin Edwin Moses sem var ósigraður í greininni frá 1977-1987, vann samtals 122 hlaup í röð og setti fjögur heimsmet. Hins vegar getur hún farið að leita að nýjum áskorunum. Margir eru á þeirri skoðun að hún muni velja síðarnefnda kostinn. En hvaða nýju áskorun?
Þjálfari McLaughlin er lifandi goðsögnin Bobby Kersee, sem m.a. hefur þjálfað stórstjörnur á borð við Allyson Felix, Florence Griffith-Joyner, Gail Devers og eiginkonu sína, Jackie Joyner-Kersee. Hann hefur ýjað að því að næst á dagskrá hjá McLaughlin, eftir árið í ár, verði að gera atlögu að einu ótrúlegasta heimsmeti sögunnar – heimsmeti Maritu Koch í 400m hlaupi án grinda.
Verðugt verkefni
Marita Koch er einn ótrúlegasti spretthlaupari sögunnar. Hún hljóp fyrir Austur-Þýskaland og setti samtals 30 heimsmet á ferlinum – 16 utanhúss og 14 innanhúss. Heimsmet hennar í 400m er 47,60s. Metið var sett árið 1985 og er eitt elsta heimsmet frjálsra íþrótta.
Koch er einungis önnur tveggja kvenna sem hlaupið hafa vegalengdina á undir 48 sekúndum. Hin er heimsmethafinn í 800m, Jarmila Kratochvílová. Sú sem hefur komist næst þeim tveimur er Salwa Eid Naser sem hljóp á 48,14s þegar hún varð heimsmeistari í Doha árið 2019. Það sem þessar þrjár eiga allar sameiginlegt, annað en að vera sprettharðar, er að vera bendlaðar við einhvers konar lyfjamisferli. Koch og Kratochvílová eru grunaðar um að hafa verið partur af stórfelldu lyfjamisferli austantjaldslandanna á tímum kalda stríðsins. Talið er næsta víst að þær hafi neytt ólöglegra lyfja þó þær hafi aldrei fallið á lyfjaprófi og vilja margir að heimsmetum þeirra verði eytt úr sögubókunum. Hvað Naser varðar þá fékk hún tveggja ára bann í fyrra fyrir að missa af þremur lyfjaprófum frá mars 2019 til janúar 2020 og hefur því ekki sést á hlaupabrautinni eftir hlaupið ótrúlega í Doha 2019.
En sama hvað fólki finnst um það þá stendur met Koch enn. Og það er verðugt verkefni fyrir hverja þá sem ætlar sér að slá það, jafnvel Sydney McLaughlin. En alls ekki ómögulegt.
Líklegast til of mikils að ætlast
En hversu hratt ætli McLaughlin geti hlaupið 400m? Hún hleypur sjaldan vegalengdina án grinda en á best 50,07s frá árinu 2018 þegar hún keppti fyrir University of Kentucky í NCAA. Síðar það ár hljóp hún 400m grind á 52,75s. Það ár munaði því um 2,7 sekúndum á besta tíma hennar í 400m og 400m grind. Ef við gefum okkur að þessi munur sé svipaður núna fjórum árum síðar þá ætti hún að geta hlaupið 400m án grinda á u.þ.b. 48,7s. Þá vantar hana ennþá rúma sekúndu í met Koch. McLaughlin hefur þó bætt grindatæknina sína verulega síðustu ár og til marks um það hljóp hún 100m grindahlaup á 12,65s (+2,0) í fyrra sem er árangur í heimsklassa og gæfi oftast sæti í úrslitum á stórmóti. Það má því gera ráð fyrir því að munurinn á besta tíma hennar í 400m grind og því sem hún getur hlaupið 400m á sé minni nú en árið 2018. Það mætti því skjóta á að miðað við heimsmetstíma hennar frá síðustu helgi þá gæti hún hlaupið 400m án grinda á u.þ.b. 49-49,5s núna. Og á hún þá töluvert í land til að ná tíma Koch.
Þó McLaughlin sé enn ung að árum og eigi ennþá um tíu góð ár eftir í hlaupunum ef hún helst heil þá verður það að teljast afar erfitt verkefni fyrir hana að hlaupa 400m undir 47,60s. Hún gæti hæglega orðið sigursæl í 400m hlaupi án grinda. Til gamans má geta að heimsmetstími McLaughlin er jafn 57. besta tíma ársins í 400m hlaupi kvenna án grinda þegar þetta er skrifað. En að verða sú besta í sögunni og hlaupa hraðar en einhver sem var á ríkisstyrktu ólöglegu lyfjaprógrammi í mörg ár er kannski til of mikils að ætlast.