Sigrar stálið á heimavelli? Upphitun fyrir Demantamót í Stokkhólmi

Demantamótaröðin er í fullum gangi og á morgun, 30. júní, fer fram Bauhaus Galan í Stokkhólmi í Svíþjóð. Tímaseðil, keppendalista og úrslit má sjá hér. Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu frá mótinu sem hefst klukkan 18:00 á morgun.

Margir hafa beðið eftir því að sjá Ólympíumeistarann í 100 metra hlaupi, Lamont Marcell Jacobs á demantamóti í sumar en hann meiddist í Savona snemma á tímabilinu og hefur því þurft að draga sig úr tveimur keppnum og þar á meðal heimakeppninni sinni í Róm. Ítalinn opnaði tímabilið sitt í 100 metra hlaupi í Savona og hefur verið meiddur síðan þá. Jacobs hleypur á morgun ásamt Bretanum Reece Prescod og Akani Simbine frá Suður-Afríku.

Í 200 metra hlaupi kvenna er ríkjandi heimsmeistarinn í greininni, Dina Asher-Smith frá Bretlandi á meðal keppenda. Asher-Smith á góðar minningar frá Stockhom Stadium en hún náði í sinn fyrsta sigur á demantamóti þar árið 2016. Asher-Smith er nú þegar komin með tólf stig eftir að hafa náð þriðja sæti bæði í Dóha og Róm. Ef hún sigrar um helgina mun hún klárlega eiga sæti í úrslitunum í demantamótaröðinni. Mujinga Kambundji frá Sviss og Ida Karstoft frá Danmörku verða einnig á meðal keppenda en sú danska sigraði í 200 metra hlaupinu í Osló.

Ólympíumeistarinn í spjótkasti, Neeraj Chopra leitar að sínum fyrsta sigri á demantamóti en besti árangur hans á demantamóti er fjórða sæti í Dóha og Zurich árið 2018. Ef Chopra sigrar um helgina verður hann fyrsti Indverjinn til þess að sigra grein á demantamóti. Jakub Vadlejch, Julian Weber og Anderson Peters verða einnig á meðal keppenda.

Femke Bol er enn og aftur að slá í gegn í demantamótaröðinni en sú hollenska sigraði í 400 metra grindahlaupi bæði í Róm og Osló. Þegar Bol keppti síðast í Stokkhólmi sló hún demantamótsmetið og verður spennandi að fylgjast með henni á morgun.

Eftir að hafa sigrað fjórar af fimm keppnum í demantamótaröðinni á síðasta ári hefur Daniel Ståhl ekki fylgt því eftir í ár. Svíinn hefur nú tekið þátt á þremur demantamótum en án sigurs. Slóveninn Kristjan Čeh hefur tekið við keflinu og unnið allar þrjár keppnirnar í kringlukasti karla. Stálið hefur nú tækifæri í sinni heimakeppni til þess að ná í sinn fyrsta sigur á demantamóti í sumar en Svíinn er með lengsta kastið í heiminum í ár.