Þessi fjögur munu verja titil sinn í Eugene – Upphitun fyrir HM

Nú þegar aðeins rétt rúmar tvær vikur eru í að heimsmeistaramótið í Eugene hefjist og flest ef ekki öll landsmeistaramót búin er loksins farið að skýrast í hvernig formi frjálsíþróttafólk heimsins er. Því er ekki seinna vænna að líta í kristalskúluna en jafnframt í baksýnisspegilinn og velta fyrir okkur: Hver af ríkjandi heimsmeisturum eru líkleg til að verja titilinn.

Að því er ég best veit er það ekki auðvelt verkefni að verða heimsmeistari í frjálsum íþróttum, að minnsta kosti hefur mér ekki tekist það. Ennþá. Að verja heimsmeistaratitil hlýtur þá að vera ennþá flóknara. Meira að segja Shelly-Ann Fraser-Pryce, sem fjórum sinnum hefur hampað heimsmeistaratitili í 100 m hlaupi (2009, 2013, 2015 og 2019), hefur „aðeins“ einu sinni varið titilinn. Meira um hana síðar.

Á stórmótum fást medalíur ekki gefins og því væri ekki gáfulegt af mér að ætla að spá fyrir um örugga sigurvegara. Óvissa fyrirfinnst alls staðar og án hennar væri lífið ekkert skemmtilegt (spurðu bara fólk sem hefur þurft að reikna hlutafleiðuóvissur í verklegri eðlisfræði). Í dag ætla ég samt sem áður að hreiðra um mig í heimi þar sem engin móða er í kristalskúlunni, í heimi án staðalfrávika, í heimi þar sem Ari Ólafsson (eðlisfræðikennarinn, ekki söngvarinn) dregur mig ekki niður fyrir að gleyma að reikna með aflestraróvissu sveiflusjánnar. Í dag hefur kristalskúlan enga aflestraróvissu.

Hver af þeim sem eiga svona medalíu fá aðra í sama lit í Eugene?

Lyles sigrar á heimavelli og Rojas vinnur sinn þriðja titil í röð

Mikið hefur verið talað um ungstirnið Erryon Knighton, unglinginn frá Tampa í Flórída sem í apríl síðastliðnum hljóp 200 metra á 19,49 sekúndum og varð þar með fjórði hraðasti hlaupari sögunnar, aðeins 18 ára gamall. Þessu náði hann þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að keppa í frjálsum fyrr en árið 2019. Eðlilega spá margir honum sigri. Ég get hins vegar hér með staðfest að svo verður ekki því fyrstur í mark mun koma gamla kempan (í augum Knighton) og ríkjandi heimsmeistari, Noah Lyles, á tímanum 19,49 sekúndum. Knighton verður í raun aðeins þriðji og mun Fred Kerley taka silfrið. Tímabil Knighton byrjaði með látum en góður stígandi hefur verið hjá bæði Lyles og Kerley. Það verður því þrefaldur bandarískur sigur í 200 metra hlaupi karla.

Það þarf enga kristalskúlu til að sjá að Yulimar Rojas muni sigra þrístökkskeppnina í Eugene og verður það hennar þriðji heimsmeistaratitill í röð. Á Ólympíuleikunum síðasta sumar bætti hún heimsmet Inessu Kravets sem staðið hafði í rétt tæp 26 ár, eða frá því um þremur mánuðum áður en Rojas fæddist. Í mars síðastliðnum bætti hún metið aftur, þá innanhúss, og stendur það nú í 15,74 metrum. Þó hennar lengsta stökk í ár sé ekki nema 14,83 m er það samt lengsta stökk sumarsins. Rojas hefur glímt við smávægileg meiðsli undanfarið en það mun ekki koma í veg fyrir titilvörn hennar.

Þessi þrjú munu koma heim frá Eugene með gullverðlaun

Ståhl og Fraser-Pryce þurfa að stækka verðlaunaskápinn

Það gleður væntanlega marga lesendur að heims- og Ólympíumeistarinn og silfurverðlaunahafi frá HM 2017, Daniel Ståhl, mun verja heimsmeistaratitil sinn þann 19. júlí næstkomandi. Um tíma var hans ársbesti árangur frá því á Selfoss Classic í lok maí en síðan þá hefur hann í tveimur keppnum kastað yfir 70 metra og á besta árangurinn í heiminum í ár, 71,47 m. Það stefnir því í að Ståhl þurfi að láta stækka verðlaunaskápinn seinna í sumar. Ég sá því miður ekki hverjir fengu silfur og brons því bandaríska útsendingin í kristalskúlunni skipti yfir í auglýsingar akkúrat þegar kringlukastskeppnin var að ná hámarki.

Í greininni um töluna níu á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu segir að níu sé „níunda náttúrlega talan, táknuð með tölustafnum 9 í tugakerfinu.“ Þá er níu „stærsta talan, sem táknuð er með einum tölustaf í tugakerfinu, en 8 er sú næst stærsta.“ Hvergi í greininni kemur þó fram að níu er einnig fjöldi utanhúss heimsmeistaratitla sem Shelly-Ann Fraser-Pryce, spretthlaupsmaskínan og ofurmamman frá Jamaíka, hefur unnið. Þar af hefur hún fjórum sinnum verið krýnd heimsmeistari í 100 m hlaupi, einu sinni í 200 m hlaupi og fjórum sinnum í 4×100  metra boðhlaupi.

Hvar sem hún hleypur skilur hún eftir sig sviðna jörð en sagan segir að Fraser-Pryce þurfi að borga fyrir að taka þátt á mótum til að greiða fyrir viðgerðir á hlaupabrautinni.

Í heildina á hún 20 medalíur frá heimsmeistaramótum eða Ólympíuleikum og í næsta mánuði mun hún svo bæta tveimur titlum í safnið þegar hún ver heimsmeistaratitla sína í 100 m hlaupi og 4×100 m boðhlaupi. Eins gott að einhver muni uppfæra Wikipedia greinarnar fyrir ellefu og tuttugu-og-tveir eftir mótið.