HM í Eugene: Hilmar kastaði 72,72m og endaði í 24. sæti

Biðin er loks á enda. Heimsmeistaramótið í Eugene er hafið og áttum við Íslendingar keppanda strax í fyrstu grein mótsins. FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson keppti þá í fyrri kasthóp undankeppninnar í sleggjukasti. Hilmar byrjaði keppnina vel og kastaði 72,36m í fyrsta kasti og var í 9. sæti í kasthópnum eftir fyrstu umferð.

Hilmar lengdi sig aðeins í öðru kasti þegar hann kastaði 72,72m og var í 11. sætinu eftir aðra umferðina.

Hilmar gaf síðan allt í sitt þriðja og síðasta kast sem var vel yfir 75 metra. Hilmar missti þó aðeins jafnvægið í kastinu og fór út úr hringnum og varð kastið því miður ógilt.

Hilmar endaði í 12. sæti í kasthópnum en alls komast 12 kastarar í úrslit sleggjukastsins. Seinni hópurinn kastar síðar í dag og verður að teljast afar líklegt að a.m.k. einn kastari þar muni kasta lengra en Hilmar. En við höldum þó í vonina.

Þetta er annað heimsmeistaramót Hilmars en hann keppti einnig í London árið 2017. Þar kastaði hann 71,12m í undankeppninni og endaði í 14. sæti í sínum kasthópi. Kastið í dag var því hans lengsta á heimsmeistaramóti.

Þó þátttaka Íslendinga á HM sé að öllum líkinum lokið þetta árið þá er mótið rétt að byrja. RÚV sýnir beint frá öllum kvöldhlutum keppninnar. Útsending dagsins byrjar á miðnætti í kvöld og er þar eitt úrslitahlaup á dagskrá, blandað 4x400m boðhlaup, þar sem við gætum fengið að sjá hlaupadrottninguna Allyson Felix hlaupa sitt síðasta hlaup.

Við á Silfrinu munum að sjálfsögðu fylgjast vel með mótinu – fylgist með!

Uppfært kl. 17:32.

Nú er orðið endanlega ljóst að Hilmar kemst ekki áfram í úrslit sleggjukastkeppninnar. Bandaríkjamaðurinn Rudy Winkler kastaði 76,97m strax í fyrsta kastinu í seinni kasthópnum. Hilmar getur því ekki endað ofar en 13. sæti. Engu að síður frábær árangur hjá Hilmari þó hann hafi eflaust stefnt hærra. Það var mjög sterkt hjá honum að komast inn á mótið vegna sæti ofarlega á heimslista og hefur Hilmar sýnt að hann eigi svo sannarlega heima á meðal þeirra bestu í heiminum. Keppni dagsins fer í reynslubankann góða og við hlökkum til að fylgjast með Hilmari á næsta stórmóti.

Uppfært kl 18:25

Nú er keppni í seinni kasthópi lokið. Þar köstuðu tólf keppendur lengra en Hilmar og endar hann því 24. sæti keppninnar. Þetta er besti árangur Hilmars á HM en hann endaði í 27. sæti á HM í London 2017.