Arnar og Andrea unnu Laugavegshlaupið – Andrea bætti brautarmetið

Hið árlega Laugavegshlaup fór fram í blíðskaparveðri í dag. Ríflega fimm hundruð hlauparar lögðu af stað í þetta 55km langa hlaup frá Landmannalaugum. Arnar Pétursson vann hlaupið í karlaflokki en hann kom í mark á tímanum 4:04:53. Þorbergur Ingi Jónsson er sá eini sem hefur hlaupið Laugaveginn hraðar en brautarmet hans er 3:59:13 frá árinu 2015. Andrew Douglas kom annar í mark í dag á tímanum 4:08:34 sem er þriðji besti tími sem náðst hefur í hlaupinu. Þriðji varð síðan Kris Brown á tímanum 4:16:30.

Andrea Kolbeinsdóttir vann í kvennaflokki á nýju glæsilegu brautarmeti. Andrea kom í mark á tímanum 4:33:07 sem er bæting á hennar eigin brautarmeti frá því í fyrra um rúmar 22 mínútur. Andrea varð jafnframt sjöunda í mark í heildina. Önnur í kvennaflokki var Íris Anna Skúladóttir á tímanum 5:18:31 og þriðja varð Elísabet Margeirsdóttir á tímanum 5:28:28. Þetta var í þrettánda sinn sem Elísabet hleypur Laugaveginn.