HM í Eugene: Felix nældi í nítjándu verðlaunin

Fyrsta degi heimsmeistaramótsins í Eugene er lokið. Keppt var til úrslita í þremur greinum, 4x400m boðhlaupi blandaðra sveita og 20 km göngu karla og kvenna. Okkar maður, Hilmar Örn Jónsson, keppti í undankeppni sleggjukastsins en lesa má allt um það hér.

Dóminíska Lýðveldið vann boðhlaupið

Blandaða boðhlaupið er skemmtileg viðbót í greinaflóru frjálsra íþrótta en keppt var í greininni í fyrsta skipti á stórmóti á HM í Doha 2019. Bandaríska sveitin byrjaði hlaupið í gær best en Elija Godwin splittaði á 44,17s og skilaði keflinu á Allyson Felix í fyrsta sætinu. Marileidy Paulino átti hins vegar frábæran annan sprett fyrir Dóminíska Lýðveldið en hún splittaði á 48,47s og hljóp þau upp í fyrsta sætið. Á þriðja spretti náði Vernon Norwood að hlaupa Bandaríkjamenn aftur upp í fyrsta sætið þegar hann splittaði á 44,40s. Kennedy Simon tók við keflinu af Norwood og hélt fyrsta sætinu allt þar til um 30 metrar voru eftir af hlaupinu en þá sigldi Fiordaliza Cofil frá Dóminíska Lýðveldinu fram úr Simon og kom fyrst í mark. Femke Bol átti frábæran lokasprett fyrir Hollendinga og fór einnig fram úr Simon á lokametrunum en Bol splittaði á 48,95s. Bandaríkjamenn enduðu þar með í þriðja sætinu og voru þetta nítjándu verðlaun Allyson Felix á heimsmeistaramóti en þetta var hennar síðasta hlaup á ferlinum.

Í 20 km göngu varð Kimberley García León frá Perú heimsmeistari á nýju landsmeti, 1:26,58. Pólverjinn Katarzyna Zdzieblo varð önnur einnig á landsmeti, 1:27,31. Í karlagöngunni urðu Japanarni Toshikazu Yamanishi og Koki Ikeda í fyrstu tveimur sætunum en Svíinn Perseus Karlström fékk brons.

Kerley leit vel út, Jacobs ekki svo vel

Undanrásir 100m hlaups karla fóru einnig fram í gær. Þar náði Fred Kerley besta tímanum þegar hann hljóp nokkuð afslappað á 9,79s (+0,1). Kerley lítur afar vel út og verður að teljast sigurstranglegastur en undanúrslit og úrslit 100m hlaupsins fara fram í dag. Ólympíumeistarinn Lamont Marcell Jacobs endaði í 2. sæti í sínum riðli þegar hann hljóp á 10,04s (+0,2). Þetta er jöfnun á hans besta árangri í ár en hann hefur verið að glíma við meiðsli í nánast allt sumar. Hann virðist ekki ætla að blanda sér í baráttuna um verðlaun. Letsile Tebogo setti heimsmet U20 þegar hann hljóp á tímanum 9,94 (+1,1) sem var sá fjórði besti í gær. Tebogo bætti met Treyvon Bromell frá árinu 2014 um þrjá hundraðshluta úr sekúndu. Úrslitahlaupið verður hápunktur dagsins í dag en möguleiki er á því að Bandaríkjamenn vinni þrefalt á heimavelli en þeir Kerley, Bromell, Marvin Bracy og Christian Coleman komust allir áfram í undanúrslitin.

Einnig verður keppt til úrslita í sleggjukasti og langstökki karla ásamt 10.000m hlaupi og kúluvarpi kvenna í dag. Svíinn Fanny Roos sem þjálfuð er af Vésteini Hafsteinssyni mun keppa til úrslita í kúluvarpinu. RÚV sýnir frá öllum kvöldhlutum mótsins og hefst útsending kl. 00:05.