HM í Eugene: Fajdek meistari í fimmta sinn og Warholm komst auðveldlega áfram

Heimsmeistaramótið í Eugene heldur áfram og er morgunhluta annars keppnisdags nú lokið. Keppt var til úrslita í tveimur greinum, 10.000m hlaupi kvenna og sleggjukasti karla.

Spennandi 10.000m hlaup

Á startlínuna í 10.000m hlaupi kvenna voru margar af bestu hlaupurum heims mættar – heimsmethafinn í 5.000m og 10.000m hlaupum, Letesenbet Gidey frá Eþíópíu, heimsmeistarinn í 5,000m hlaupi, Helen Obiri frá Keníu, og heims- og Ólympíumeistarinn í 10.000m hlaupi, Sifan Hassan frá Hollandi. Hlaupið í dag fór nokkuð rólega af stað og voru um sex hlauparar enn í baráttunni þegar um tveir hringir voru eftir. Þá keyrði Gidey upp hraðann og Obiri, Hassan og Margaret Chelimo Kipkemboi frá Keníu voru þær einu sem náðu að fylgja. Það fór svo að Gidey kom fyrst í mark rétt á undan þeim Obiri og Kipkemboi. Sigurtíminn var 30:09,94 en Obiri kom í mark einungis átta hundraðshlutum á eftir Gidey og Kipkemboi fimm hundraðshlutum þar á eftir. Hassan, sem hefur lítið keppt í sumar vegna meiðsla, kom í mark 49 hundraðshlutum á eftir Kipkemboi og varð að sætta sig við fjórða sætið.

Fajdek heimsmeistari í fimmta sinn

Keppt var til úrslita í sleggjukasti karla. Undankeppnin fór fram í gær þar sem Hilmar Örn Jónsson stóð sig með prýði en komst því miður ekki áfram í úrslitin eins og lesa má um hér. Keppni dagsins var góð en alls köstuðu fimm kastarar yfir 80 metra. Það fór svo að Pólverjar unnu tvöfalt. Pawel Fajdek varð heimsmeistari með kasti upp á 81,98m sem er lengsta kast ársins. Þetta var hans fimmti heimsmeistaratitill. Ólympíumeistarinn og landi Fajdeks, Wojciech Nowicki, varð annar með kasti upp á 81,03m. Silfurverðlaunahafinn frá Tókýó í fyrra, Norðmaðurinn Eivind Henriksen, nældi í bronsið með kasti upp á 80,87m.

Warholm leit vel út

Undankeppni fór fram í nokkrum greinum og var lítið um óvænt úrslit. Í undanrásum 400m grindahlaups karla var stærsta spurningin formið á Karsten Warholm en Norðmaðurinn meiddist aftan í læri í sínu fyrsta hlaupi í sumar og hefur ekki hlaupið síðan þá. Lesa má meira um það hér. Skemmst er frá því að segja að Warholm leit mjög vel út og komst hann auðveldlega áfram í undanúrslit. Í viðtali við NRK eftir hlaupið sagðist hann vera mjög ánægður að vera kominn til baka en að síðustu vikur hafi reynt mikið á hann andlega og að honum væri mjög létt að hafa komist í gegnum hlaupið í dag. Hans helstu keppinautar, Alison dos Santos og Rai Benjamin, komust einnig örugglega áfram. Í undanrásum 110m grindahlaups karla varð Bandaríkjameistaranum Daniel Roberts á þegar hann rakst illa í eina grindina og datt. Hann er því úr leik en hann á þriðja besta tíma ársins í greininni. Yulimar Rojas komst auðveldlega áfram í úrslit þrístökkskeppninnar þegar hún stökk 14,72m í fyrsta stökki. Hennar eigið heimsmet verður í hættu þegar úrslitin fara fram á mánudag. Ekkert óvænt gerðist í undanrásum 3000m hindrunahlaups kvenna en þar átti Norah Jeruto langbesta tímann, 9:01,54.

Keppni heldur áfram í nótt en þá verður keppt til úrslita í 100m hlaupi og langstökki karla ásamt kúluvarpi kvenna þar sem Svíinn Fanny Roos sem er þjálfuð af Vésteini Hafsteinssyni mun keppa. RÚV mun senda beint frá mótinu og hefst útsending kl. 00:05.

Hér má sjá samantekt frá fyrsta keppnisdegi.