HM í Eugene: Omanyala mætti til Eugene þremur tímum fyrir hlaup en komst áfram

Ein ótrúlegasta saga heimsmeistaramótsins í Eugene hingað til er ferðasaga Ferdinands Omanyala. Þessi 26 ára Keníumaður er einn besti spretthlaupari heims um þessar mundir en hann á þriðja besta tíma ársins í 100m ásamt þeim Marvin Bracy og Yohan Blake (9,85s). Fyrir mótið var því búist við að Omanyala gæti blandað sér í baráttuna um verðlaun í greininni.

Því miður fyrir Omanyala var undirbúningur hans fyrir HM ekki eins og best verður á kosið því af einhverjum ástæðum gekk afar erfiðlega fyrir hann að fá landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Landvistarleyfið kom ekki í hús fyrr en á fimmtudag, daginn áður en hann átti að keppa í undanrásum 100m hlaupsins. Þá var ekkert annað í stöðunni en að drífa sig upp á flugvöll og halda á leið til Eugene. Omanyala er búsettur í Nairobi og hann átti því ekki einfalt ferðalag fyrir höndum. Ferðalagið tók alls um 20 klukkustundir:

  • Nairobi – Doha (5 klst.)
  • Doha – Seattle (14 klst.)
  • Seattle – Eugene (1 klst.)

Omanyala náði loks til Eugene og keyrði beint á Hayward Field þangað sem hann var mættur aðeins um þremur klukkustundum áður en hlaupið hans átti að hefjast. Sem betur fer fékk hann sæti í fyrsta farrými í fluginu frá Doha til Seattle og náði að sofa í einhverja níu klukkustundir í fluginu. En þetta var svo sannarlega ekki sá undirbúningur sem hann hefði kosið fyrir stærsta mót ferilsins hingað til.

Omanyala leit ekkert svakalega vel út í hlaupinu, skiljanlega. Hann var svolítið seinn upp úr blokkunum en náði að vinna sig upp í þriðja sætið í sínum riðli og komst því áfram. Hann hljóp á tímanum 10,10s (-0,3) sem var 17. besti tími undanriðlanna. Vonandi náði Keníumaðurinn góðum nætursvefni í nótt og mætir aðeins ferskari í undanúrslitin sem fara fram í kl. 01:00 í nótt á íslenskum tíma. Úrslitahlaupið verður síðan kl. 02:50. Bæði hlaupin verða í beinni útsendingu á RÚV.

Hér að neðan má sjá viðtal sem miðillinn Flotrack tók við Omanyala eftir undanrásirnar í gær.

Hér er samantekt frá fyrsta degi HM í Eugene.