Kolbeinn Höður með góða tíma á Möltu

Kolbeinn Höður Gunnarsson náði góðum árangri á EAP mótinu á Möltu í dag. FH-ingurinn sprettharði byrjaði daginn á að hlaupa 200m á 21,28s (+1,6) og lenti í þriðja sæti aðeins þremur þúsundustu úr sekúndu frá öðru sætinu. Þetta er besti tími Íslendings í greininni í ár en Kolbeinn á best 20,96s frá árinu 2017. Ástralinn Christopher John Ius vann hlaupið á 21,21s og Mindia Endeladze frá Georgíu varð annar á 21,28s.

Næst á dagskrá hjá Kolbeini voru undanúrslit í 100m. Hann hljóp þar á 10,71s (0,0) og varð þriðji inn í úrslitin. Í úrslitahlaupinu hljóp Kolbeinn á 10,65s (0,0) og vann sig upp um eitt sæti frá því í undanúrslitunum. Írinn Jason Smyth vann hlaupið á 10,61s sem er nýtt mótsmet og Endeladze varð þriðji á 10,66s.

Kolbeinn kann greinilega vel við sig á Möltu en hann vann 100m hlaupið á Smáþjóðameistaramótinu sem fór fram á Möltu í júní. Þá hljóp hann á 10,59s sem er enn besti tími Íslendings í greininni í ár og aðeins einum hundraðshluta frá besta tíma Kolbeins í greininni.