Daníel Ingi með lengsta þrístökk Íslendings í 60 ár

FH-ingurinn Daníel Ingi Egilsson náði frábærum árangri á Norðurlanda- og Eystrasaltsmeistaramóti 22 ára og yngri (Nordic-Baltic U23) sem fram fór í Malmö í Svíþjóð um helgina. Daníel lenti í öðru sæti í þrístökki með stökki upp á 15,51m. Meðvindur í stökkinu var +2,1 m/s og var því miður örlítið of mikill til þess að það teljist löglegt en stökk teljast ólögleg ef meðvindur fer yfir 2,0 m/s. Lengsta löglega stökk Daníels í keppninni var 15,31m (+1,9) og er það lengsta löglega stökk Íslendings í 60 ár. Þetta er jafnframt bæting á besta árangri Daníels um 53cm. Daníel átti frábæra stökkséríu í dag en hann stökk alls þrisvar sinnum yfir 15,30m.

Með þessum árangri stekkur Daníel upp í annað sæti afrekalistans í þrístökki en einungis Íslandsmethafinn og goðsögnin Vilhjálmur Einarsson hefur stokkið lengra. Íslandsmet Vilhjálms er 16,70m sett á Meistaramóti Íslands árið 1960. Vilhjálmur á einnig aldursflokkametið í 20-22 ára flokki, 16,26m, sem sett var á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 þar sem hann vann til silfurverðlauna. Til gamans má geta að heiti þessarar vefsíðu, Silfrið, er til að heiðra þann árangur Vilhjálms.

Daníel keppti einnig í langstökki á mótinu þar sem hann lenti í fjórða sæti með stökki upp á 7,11m (+4,3).

Sjáðu stökk Daníels Inga hér.

Silfrið óskar Daníel Inga innilega til hamingju með þennan flotta árangur!

Hér má svo lesa nánar um árangur Íslendinganna í Malmö um helgina.